Í Pressu ræddu Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) og Ásgeir Brynjar Torfason, ritstjóri Vísbendingar og doktor í fjármálum. nýhafnar kjaraviðræður og hvernig þær þurfi taka mið af hárri verðbólgu í landinu.
Í gær birtu SA og breiðfylking stærstu stéttarfélaga landsins sameiginlega yfirlýsingu þar sem tilkynnt var um að markmiðið væri að ná langtíma kjarasamningi, sem þurfi að taki mið af því að draga úr verðbólgunni.
Spurð hvort hún teldi slík markmið raunhæf sagði Sigríður svo vera. Mikill samhljómur væri milli allra um hvaða mikilvægu verkefni væru fram undan og hver helstu markmiðin eru í kjaraviðræðunum. „Sem er að gera langtíma kjarasamninga sem geta stuðlað að fyrirsjáanleika og efnahagslegum stöðugleika.“
„Það sem er ánægjulegt er að við erum öll samstíga og ég ætla taka hatt minn ofan fyrir samstöðunni sem forystufólk stéttarfélaganna hefur náð að mynda,“ sagði Sigríður og vísaði þar til breiðfylkingarinnar sem samanstendur af landssamböndum og stéttarfélögum landsins sem fara með samningsumboð 93 prósent félagsmanna ASÍ.
Nýmæli í kjaraviðræðum
Hún sagði að það hafa verið nýmæli að hægt hafi verið að komast að sameiginlegum fleti við útgáfu yfirlýsingarinnar. Í yfirlýsingunni var skorað á fyrirtæki, ríki og sveitarfélög til þess að halda aftur að verðhækkunum og gjaldskrárhækkunum til þess að styðja við sameiginleg markmið SA og stéttarfélaganna.
Undir þetta tók Ásgeir og sagði efni yfirlýsingarinnar vera „góður, nýr tónn og mikilvægur,“ en benti á að vandinn væri mikill.
Á Íslandi sé verðbólga hæst á meðal þeirra landa sem við berum okkur gjarnan saman við. Ólíkt öðrum löndum þar sem verðbólga hefur dregist saman stöðugt, hefur gengið erfiðlega að ná verðbólgunni niður, þrátt fyrir háa stýrivexti Seðlabankans. „Augljóslega hefur eitthvað ekki gengið nógu vel hér og það þarf að gera eitthvað öðruvísi en verið hefur gert.“
Áhrifaþættir verðbólgunar
Í kjölfarið barst talið yfir í hugsanlega áhrifavalda að verðbólgunni og sagði Ásgeir það vera „mikilvægt að viðurkenna að verðbólgan kemur ekki bara út frá launahækkunum.“
Síðustu kjarasamningar hafi leitt í gegn hóflega launahækkun. Þó svo í kjölfarið hafi farið af stað launaskrið sagði Ásgeir það vera „alþjóðlega viðurkennt, þó svo það er ekki mikið í umræðunni hér, að hluti, og jafnvel frekar stór hluti, af verðbólgunni kemur til vegna hagnaðaraukninga fyrirtækjanna.“
Spurð um viðbrögð sín við þeim punktum sem Ásgeir kom inn á, sérstaklega í ljósi þess að á þessu ári hafi fyrirtæki í landinu skilað methagnaði, sagðist Sigríður ekki getað tekið undir það að verðbólga síðustu ára hafa verið keyrð áfram vegna aukins hagnaðar fyrirtækja í landinu. „Það er svo langt frá því að við getum horft á umhverfið, rekstur og afkomu fyrirtækja í dag og sagt að verðbólgan sé hagnaðardrifinn. Bara alls ekki.“
Í máli sínu vitnaði í Sigríður í grein sem birtist í nýjustu úttgáfu Peningamála frá Seðlabanka Íslands. „Þar sem þeir voru einmitt að skoða og sýna fram á að álagning fyrirtækja hefur ekki verið það sem veldur verðbólgunni,“ sagði Sigríður. Ásgeir benti á að í umræddri grein sem birtist síðasta hefti Peningamála hafi þó verið viðurkennt að hlutdeild hagnaðar hjá fyrirtækjum væri mælanleg.
Sammála um mikilvægi þess að allir taki ábyrgð
Þá hvatti hann alla aðila til þess að skoða verðbólguna sem flókið fyrirbæri sem er mótuð af mismunandi þáttum. Til að mynda af hærri fjármagnskostnaði sem fyrirtækin hljóta að viðurkenna.
Sigríður sagðist taka undir að fjölmargir þættir myndi verðbólgu og áréttaði að hún hafi ekki haldið því fram að það væri stéttarfélögunum að kenna að það væri verðbólga í landinu. Samtök atvinnulífsins komi líka að viðræðunum og beri þess vegna jafn mikla ábyrgð á verðbólgunni og verkalýðsfélögin.
Sjá má fimmta þrátt Pressu í heild sinni hér:
Athugasemdir (2)