Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, sagði þau hjá Vörðu aldrei hafa séð niðustöður í líkingu við þær sem sáust í nýlegri skýrslu þeirra um stöðu fatlaðs fólks. „Við höfum aldrei séð svona tölur. Þetta eru ekki tölur sem eru boðlegar í velferðarsamfélagi.“ Hún segir ekki annað hægt en að kalla skýrlsuna kolsvarta.
Samkvæmt nýjum skýrslum frá Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, og Unicef er fátækt barna að aukast á Íslandi. Í þeirri síðarnefndu kemur fram að eitt af hverjum átta börnum býr við fátækt. Skýrsla Vörðu leiðir í ljós að staða einhleypra fatlaðra mæðra er einstaklega slæm. Hjá þeim hópi eru níu af hverjum tíu sem geta ekki mætt óvæntum 80 þúsund króna útgjöldum.
Í nýjasta þætti Pressu ræddi Margrét Marteinsdóttir við þær Elínu Ebbu Ásmundsdóttur, framkvæmdarstjóra Hlutverkaseturs og varaformann Geðhjálpar, Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu og Ingu Sæland, formann Flokks fólksins. Umræðuefnið var fátækt á Íslandi, einkum fátækt barna.
Gígantískar upphæðir í kerfið í stað þess að greiða fólki framfærslu
Elín Ebba Ásmundsdóttur, framkvæmdarstjóri Hlutverkaseturs og varaformaður Geðhjálpar, segist gagnrýnin á geðheilbrigðiskerfið. „Ætlum við að senda manneskju sem líður fátækt til geðlæknis að fá uppáskrifuð lyf til að halda út skort? Eigum við að senda fólk í hugræna atferlismeðferð til að þú breytir hugarfari þínu og sættir þig við að borða núðlur í annað hvert mál. Er þetta leiðin?“
Hún segir að færri heilbrigðisvandamál væru fyrir hendi ef skorti fólks væri betur sinnt. Miklum peningum væri eytt í heilbrigðisþjónustu, lögreglu og barnaeftirlit til að bregðast við bágum aðstæðum fólks. „Það eru gígantískar upphæðir sem við erum að eyða í kerfið í stað þess að greiða fólki meiri framfærslu.“
„Kannski ef við myndum vinna betur að því að jafna þetta samfélag út þá væri ekki svona mikið af vandamálum“
Þótt hægt væri að stórbæta líðan fólks með því að veita þeim aðeins meiri peninga segir Elín lítinn áhuga á því. „Það hentar ekki þeim sem kannski græða ekkert á því.“ Hún segir að hægt væri að uppskera mikið væri þessi leið farin. Bæði í geðheilbrigðisþjónustu og almennt í heilbrigðisþjónustu. En hún segir fólk sem búi við skort vera líklegra til að þróa með sér heilsufarsvanda s.s. hjártaáföll, sykursýki og krabbamein. Þetta bitni svo á heilbrigðiskerfinu sem sé illa statt.
„Kannski er orsökin falin í því að við erum að fást við fátækt. Kannski ef við myndum vinna betur að því að jafna þetta samfélag út þá væri ekki svona mikið af vandamálum. En það vill það enginn.“
Hér má sjá nýjasta þátt Pressu í heild sinni:
Athugasemdir (2)