Eldgosið norður af Grindavík og austur af Bláa lóninu er „klassískt, íslenskt sprungugos á flekamótum“, sagði Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í samtali við RÚV í nótt. Á jarðsögulegum skala er ekki langt síðan seinast gaus á svæðinu. Í svokölluðum Reykjaneseldum, sem er nafnið yfir síðustu eldgosahrinu á skaganum á 13. öld, gaus bæði norður af svæðinu, í Arnarseturshrauni, þar sem norðurhluti Grindavíkurvegar liggur, og vestur af svæðinu bæði í Illahrauni við Bláa lónið og enn vestar í Eldvörpum. Hraunið við Sundhnúka rann hins vegar fyrir 2.400 árum. Í það skiptið rann hraun úr níu kílómetra langri gígaröð og rann það þar sem nú er vesturhluti Grindavíkur og hluti hafnarsvæðisins. Í nótt var sprungan á svæðinu rúmlega fjórir kílómetrar og strax farin að umbreytast úr samfelldri gossprungu í gígaröð, líkt og búast má við.
Þróun slíkra gosa er vel þekkt í jarðsögu Reykjaness. Í upphafi gosa er kraftur mestur, en fljótlega dregur úr honum og gossprungan missir samfellu með myndun stakra gíga eða eins gígs. Hraun eru gjarnan ekki mjög víðfeðm á Reykjanesi í samanburði við hraun nær miðju landsins.
Gosið er á svæði sem Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvaktar Veðurstofu Íslands, sagði í nótt að þau hefðu „hugsað með hryllingi til í lengri tíma“. Fyrstu fréttir af gosinu voru þó góðar fréttir. „Sprungan er á kórréttum stað,“ sagði Ármann í nótt. „Ekki að draga úr því að þetta er versta sprunga sem gat gosið á.“
Ármann var staddur í nótt kl. 2 á Sýlingafelli að mæla sprunguna. „Hún er rétt rúmlega 4 kílómetra löng og hún nær náttúrulega ekki yfir vatnaskil í átt að Grindavík. Hún hefur verið að stjaka sér norður úr og það er kominn straumur í norðaustur í átt að Grindavíkurveginum en að öðru leyti fer hraunið í átt til austurs í átt að Fagradalsfjalli.“
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði að búast mætti við því að gosinu þyrri kraftur fljótlega og að gosvirkni færðist yfir í staka gíga eða jafnvel einn gíg. Hann bar goshrinuna á Reykjanesi saman við Kröfluelda.1975 til 1984. „Þessi hrina af gosum byrjar með gangainnskotum og litlum gosum til að byrja með, síðan dregur úr stærð ganganna en gosin vaxa með tímanum. Þannig að stærsta gosið í Kröfluhrinunni var síðasta gosið og með því gosi endaði sú atburðarás.“
Gosið, sem var í upphafi vel yfir tífalt kraftmeira en fyrsta gosið var í Fagradalsfjalli, fór þó af stað á besta mögulega hátt fyrst um sinn.
Kvikugangurinn gæti hins vegar færst til, eins og sýndi sig þegar hann færðist undan frá Sundhnúkagígum og beint undir byggðina í Grindavík í kringum 10. nóvember síðastliðinn með þeim afleiðingum að bærinn var rýmdur síðar um daginn. Þar liggja helstu áhyggjur jarðfræðinga og almannavarna, sem annarra, að gossprungan teygi sig suður yfir vatnaskil í átt að Grindavík, með þeim afleiðingum að hraun flæði á byggðina.
„Þetta verður búið fyrir áramót“
Önnur sviðsmynd er síðan að hraun renni til norðurs í áttina að Vogum á Vatnsleysuströnd, en byggðin þar er í um 9 kílómetra fjarlægð frá gosstöðvunum þar sem þær eru nú, ólíkt um 3 kílómetrum frá Grindavík.
Ármann Höskuldsson bjóst við því í nótt að hraun myndi renna áfram til austurs og „bunkast upp“ við Fagradalsfjall, en að lokum, haldi gosið áfram, leita í áttina að Þórkötlustaðahverfi sem liggur austast í Grindavík.
„Um miðjan dag á morgun [í dag] verða þetta örfáir gígar sem eru eftir,“ sagði hann. „Þetta verður búið fyrir áramót.“
Hraunflæðilíkan munu hins vegar gefa bestu vísbendinguna um áhrif eldgossins að óbreyttu. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í nótt að lykilspurningar væru tvær: Hversu lengi gosið stæði yfir og svo hvort gossprungan myndi teygja sig sunnar, og þá yfir vatnaskilin að Grindavík.
Lítið má því út af bregða. Ólíkt fyrri gosum síðustu ára á Reykjanesskaga hélt skjálftavirkni áfram eftir að gosið hófst. Fyrri part nætur teygðu skjálftar sig suður fyrir Hagafell, innan við tveimur kílómetrum frá byggðinni í Grindavík. Að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjónst almannavarna, tæki líklega of langan tíma að reisa varnargarða við bæinn sem hafa verið hannaðir.
Eftir fyrstu nóttina bendir hins vegar flest til þess að eldvirknin hafi verið að þéttast við miðbik kvikugangsins og syðsti hlutinn að dvína. Jafnframt fjaraði skjálftavirkni út þegar leið á nóttina.
Hvað einstaklinga varðar, þá hefur komið í ljós að fjöldi húsa er ekki bjargandi, þá er fyrsta tilkynning frá Viðlagasjóði að einungis verði greitt fyrir ætlað brunabótamat, að slepptu einhverjum prósentum og ætluðum förgunarkostnaði!
Með öðrum orðum, brot af raunverulegu tjóni er bætt.
Ef hins vegar drullupollur, afurð frá virkjun sem notað er sem ferðamannastaður, þarf að loka, þá eru strax tillögur um að gefa viðkomandi lokunarstyrk – óafturkræfan.
Það mætti geta þess að þessi drullupollur hefur gefið sínum eigendum milljarða arð á hverju ári.
Þann sama drullupoll ásamt virkjuninni þótti rétt að verja með framkvæmd, varnargarð er hefur þegar kostað ótrúlega milljarða úr vösum skattborgaranna
Getur verið að ráðamenn geri ekki grein á milli þess er verið er að vernda innviði samfélagsins og einkahagsmuni einhverra einstaklinga?
Virkjun er án vafa, hluti af innviðum samfélagsins, en afleiddur drullupollur vegna þessa????