Laxeldisfyrirtækið Arnarlax tilkynnti ekki um öll göt sem mynduðust á sjókvíum fyrirtækisins á eldissvæðinu Eyri í Patreksfirði þrátt fyrir að kveðið sé á um það í reglugerð að sjókvíaeldisfyrirtæki eigi að gera það. Þetta kemur fram í eftirlitsskýrslu frá Matvælastofnun sem dagsett er þann 14. nóvember síðastliðinn.
Þessar upplýsingar bætast við sams konar frávik og Matvælastofnun fann í rekstri Arnarlax í Arnarfirði á sama tíma og Heimildin greindi frá fyrr í vikunni. Fyrr á árinu átti sér stað slysaslepping á 3500 eldislöxum hjá fyrirtækinu Arctic Fish í Patreksfirði. Sú slysaslepping átti sér stað vegna þess að göt mynduðust á eldiskví fyrirtækisins en neðansjávareftirlit með kvínni hafði ekki farið fram samkvæmt lögum og reglum.
„Rekstrarleyfishafa ber að tilkynna um öll þau frávik sem leitt geta til stroks, þ.m.t. öll göt á netpokum.“
Fimm frávik fundust, tvö alvarleg
Í eftirlitsskýrslunni kemur fram að fimm frávik hafi fundist í rekstri sjókvíanna í Patreksfirði og þar af tvö alvarleg. Eitt af þessum alvarlegu frávikum er að Arnarlax tilkynnti ekki um öll göt á sjókvíunum.
Í eftirlitsskýrslunni frá Matvælastonfun segir um þetta: „Við skoðun á köfunarskýrslum úr neðansjávareftirliti kom í ljós að ekki hefur verið tilkynnt um öll göt sem hafa uppgötvast . Matvælastofnun leitaði skýringa á þessu í fyrirspurn sem send var 2. nóvember sl. og svör bárust þann 9. nóvember sl. Í svörum sínum segir Arnarlax að fyrirtækið telji að ekki þurfi að tilkynna um göt ef fyrirtækið meti það sem svo að ekki hafi verið grunur um strok. Matvælastofnun krefst þess að stofnuninni sé tilkynnt um öll göt og önnur frávik á búnaði þegar fiskur er í kvíum.“
Þessar tvær eftirlitsskýrslur frá Matvælastofnun fela það í sér að Arnarlax hefur ekki tilkynnt um göt sem hafa myndast á eldissvæðum í tveimur fjörðum á Vestfjörðum. Eftirlitið sem þessi skýrsla byggir á átti sér stað í Patreksfirði þann 24. október í haust og var skýrslan gerð opinber um miðjan nóvember. Eftir að MAST fór í eftirlitsferðina, og þar til skýrslan var birt, var greint frá stórfelldum laxalúsafaraldri sem olli miklum skakkaföllum hjá bæði Arnarlaxi og Arctic Fish.
Skýrt orðalag í nýju lögunum
Í nýju lagafrumvarpi matvælaráðherra um fiskeldi er kveðið á um það með skýrari og afdráttarlausari hætti að laxeldisfyrirtæki eigi að tilkynna um öll göt á sjókvíum. Í frumvarpinu stendur: „Rekstrarleyfishafi sem hefur ástæðu til að ætla að eldisfiskur geti strokið eða hafi strokið skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafa ber að tilkynna um öll þau frávik sem leitt geta til stroks, þ.m.t. öll göt á netpokum. Rekstrarleyfishafi skal án tafar hefja leit að orsökum, meta umfang og koma í veg fyrir frekara strok.“
Í þessu felst að það verður bundið í lög að laxeldisfyrirtæki verða að tilkynna um öll göt á sjókvíum til Matvælastofnunar. Út frá orðalaginu í skýrslum Matvælastofnunar má skilja það sem svo að hingað til hafi laxeldisfyrirtæki eins og Arnarlax ekki talið sig þurfa að tilkynna um öll göt á kvíum ef ekki hefur verið grunur um slysasleppingar á eldislöxum.
Matvælastofnun vísar meðal annars í reglugerð um þetta í skýrslum sínum: „Í 33. gr. í reglugerð nr. 540/2020 segir m.a.: Tilkynna skal um frávik á búnaði til Matvælastofnunar og til framleiðanda eða þjónustuaðila.“
Sjókvíaeldisfyrirtækin hafa hins vegar túlkað þetta ákvæði reglugerðarinnar þannig að einungis þurfa að tilkynna um göt ef slysasleppingar eiga sér stað. Með nýju lögunum er alveg skýrt kveðið á um það að laxeldisfyrirtækin verða undantekningarlaust að tilkynna Matvælastofnun um öll göt.
Athugasemdir (3)