Rakel Einarsdóttir og Bjarki Guðnason flúðu neyðarstig Almannavarna vegna jarðhræringa í Grindavík til Vestmannaeyja. Eftir nokkra daga í öruggu skjóli í sumarhúsi fjölskyldunnar lýstu Almannavarnir yfir hættustigi í Vestmannaeyjum vegna skemmda á neysluvatnslögn. Þá fyrst fékk Rakel hnút í magann.
Þetta byrjaði allt föstudaginn 10. nóvember, daginn sem Almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi og Grindavík var rýmd. Rakel kom heim úr vinnunni og bað son sinn að sækja jóladótið upp á háaloft. „Ég ætlaði að fara að lýsa upp heimilið fyrir Grindavíkurbæ. Ég ætlaði að láta lífið ganga sinn vanagang og fara að gera föstudagspitsuna þegar allt fer að skjálfa,“ segir Rakel. Hún hafði ekki fundið fyrir hræðslu í skjálftahrinunni. „Ég hef verið meiri stuðningur, en svo hætti manni algjörlega að lítast á blikuna þegar maður fann eins og það væri flæði undir gólfinu. Það var allt á fullu.“
Hjónin ákváðu að fara í bíltúr og enduðu í Hafnarfirði hjá bróður Bjarka. Sonur þeirra, sem er tvítugur, var hjá vini sínum og dóttir þeirra var á heimili sínu í Kópavogi. Heimiliskötturinn, Mía, varð ein eftir í Grindavík. Planið var að fara aftur heim um kvöldið. „Svo fengum við bara símtal um að það væri neyðarrýming. Þá fóru þeir bræður af stað til að ná í Míu. „Hann hefði vaðið eld og brennistein, hann Bjarki minn, fyrir Míu. Þetta var smá stress. En hann tók engin föt, bara köttinn,“ segir Rakel.
Eftir þrjár nætur hjá bróður Bjarka fengu þau afnot af íbúð vinahjóna í miðbæ Reykjavíkur en ákváðu svo að fara til Vestmannaeyja. Bjarki er fæddur þar en var aðeins tveggja mánaða í Heimaeyjargosinu og flúði með fjölskyldu sinni. Hús fjölskyldunnar fór á kaf og er nú miðpunktur Eldheima, gossafnsins í Vestmannaeyjum. Rakel er Grindvíkingur og hjónin hófu búsetu þar en fluttu svo til Vestmannaeyja árið 2006 og voru búsett þar í ellefu ár en fluttu svo aftur til Grindavíkur. „Nú erum við komin aftur hingað og höfum fengið þvílíkt góðar móttökur.“ Börn hjónanna eru á höfuðborgarsvæðinu og þau eru því bara tvö í kotinu í Eyjum. „Og auðvitað Mía.“
Af neyðarstigi í skjól yfir í hættustig
Þau voru aðeins búin að vera í Eyjum í nokkra daga þegar Almannavarnir höfðu aftur áhrif á líf þeirra, nú var það hættustig vegna skemmda á neysluvatnslögn, einu neysluvatnslögninni til Vestmannaeyja. „Þetta var í fyrsta skipti sem ég fékk hnút í magann. Ég trúði ekki að þetta væri að gerast og ég fyllti þrjá stóra kjötsúpupotta af vatni. Tengdamamma ráðlagði mér það, hún veit hvernig það er að vera vatnslaus í Vestmannaeyjum,“ segir Rakel. Tilhugsunin um hættustig og enn meiri óvissu er óþægileg. „Ég er nýbúin að pakka niður til að flýja mögulegt gos og ég gat ekki hugsað mér að vera vatnslaus. Nú hef ég allavega smá vatn til að sturta niður og hella upp á kaffi. En þetta hafði pínu áhrif á mig ofan á allt hitt. Maður er að reyna vera jákvæður. Það eiga margir mjög erfitt.“
„Það gerist bara það sem gerist. Við vitum ekkert.“
Kvikugangurinn er undir heimili fjölskyldunnar í Grindavík. Rakel er ekki viss hvort þau snúi aftur heim. „Nú er ég bara pínu smeyk. Maður fann vel fyrir hraunflæðinu undir húsinu. Get ég lent í því að það sé hola í blettinum mínum?“
Maður og sonur Rakelar eru búnir að kanna aðstæður í húsinu og það virðist vera heilt. „En það er á þessu hættusvæði, það er vestan megin við sprunguna, kvikan á að vera storknuð en við vitum ekkert. Ég er ekkert rosalega spennt fyrir að fara aftur. Ekki fyrr en einhver segir mér að ég og mitt fólk séum 100 prósent örugg. Það eru margir sem ég þekki sem geta ekki hugsað sér eða treysta sér að fara aftur. Svo eru húsin þeirra í lagi en þau standa verðlaus, fólk þarf að reyna að byrja aftur upp á nýtt.“
„Við náttúrlega elskum Vestmannaeyjar“
Rakel er jákvæð að eðlisfari og trúir því að allt fari vel að lokum. „Ég segi alltaf að ég syrgi ekki dauða hluti því ég hef þurft að syrgja á annan hátt, sem ég veit að er miklu erfiðara. Ég veit alveg að við förum aftur í öruggt skjól, það eina sem ég þarf að gera er að pakka öllu aftur niður.“
Aðspurð hvort það komi til greina að flytja aftur til Eyja segir Rakel að það hafi alltaf verið draumurinn. „Við náttúrlega elskum Vestmannaeyjar þannig það er eitthvað sem gæti alveg orðið. En við erum ekki að fara að búa í þessu sumarhúsi.“
Enn sem stendur er framtíðin óljós. „Við tökum bara einn dag í einu, við erum bæði þar. Við erum mjög jákvætt fólk og erum ekkert að búa til of mikið drama. Það gerist bara það sem gerist. Við vitum ekkert.“
Athugasemdir