Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stéttarfélagsins VR, og Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur ætla að mótmæla daglega við eða í höfuðstöðvar Landsbankans á Hafnartorgi. Með þessu vilja þeir þrýsta á að bankarnir komi betur til móts við Grindvíkinga sem þurftu að yfirgefa heimili sín fyrr í þessum mánuði.
„Grindvíkinga sem nú þurfa að finna sér nýtt húsnæði með tilheyrandi kostnaði á meðan bankar og lífeyrissjóðir gefa ekki krónu eftir,“ eins og Ragnar orðar það í færslu á Facebook.
„Það er lágmarks krafa okkar að vextir og verðbætur verði felldar niður tímabundið eða á meðan mesta óvissan ríkir.“
Stefna á að mæta þar til bankarnir grípi til aðgerða
Fyrsti samstöðufundurinn verður haldinn á fimmtudaginn, 23. nóvember, klukkan tvö síðdegis.
„Við nýjar og glæsilegar, tugmilljarða, höfuðstöðvar Landsbankans við Hafnartorg,“ skrifar Ragnar. „Við stefnum á að gera þetta að daglegum viðburði eða þangað til bankarnir gangast við ábyrgð sinni og komi myndarlega til móts við hrikalega stöðu og óvissu sem blasir við íbúum Grindavíkur.“
VR hýsir Verkalýðsfélag Grindavíkur sem stendur en 400 félagsmenn VR eru, eða voru eftir því hvernig á það er litið, sömuleiðis búsettir í Grindavík.
Athugasemdir (2)