Heilbrigðisráðuneyti Willums Þórs Þórssonar segir að þagnarskylda hvíli á aðstoðarmönnum ráðherra eftir að þeir láta af störfum. Heimildin spurði heilbrigðisráðuneytið fimm spurninga um starfslok og vistaskipti aðstoðarmanns Willums Þórs, Guðrúnar Ásu Björnsdóttur, nú í nóvember. Guðrún Ása réði sig til einkarekna heilbrigðisfyrirtækisins Klíníkurinnar. Ráðuneytið svaraði hins vegar ekki spurningum Heimildarinnar nema að hluta til.
Í lok svars ráðuneytisins segir um þagnarskylduna sem hvílir á henni: „Þá er rétt að vekja athygli á því að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 64/2020, um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands, og í 42. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna, þ.m.t. aðstoðarmanna ráðherra, sem helst þótt látið sé af starfi.“
Ein af spurningunum sem ráðuneytið svaraði til dæmis ekki er hvort það sjái einhverja vankanta eða ágalla á því að aðstoðarmaður ráðherra ráði sig svo snögglega til einkarekins heilbrigðisfyrirtækis og raun ber vitni í tilfelli Guðrúnar Ásu.
„Aðstoðarmenn ráðherra eru eðli málsins samkvæmt ráðnir pólitískt og sinna pólitískum störfum í umboði ráðherrans og búa þess vegna yfir upplýsingum og kontöktum sem ekki er víst að aðrir byggju yfir.“
Sat fundi með stjórnendum Landspítalans
Guðrún Ása mun hefja störf sem framkvæmdastjóri hjá Klíníkinni í byrjun næsta árs, innan við tveimur mánuðum eftir að hún lét af störfum hjá ráðherra. Miðað við svar ráðuneytisins má hún ekki nýta neinar upplýsingar sem hún komst yfir í ráðuneytinu í starfi sínu hjá Klíníkinni.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur sagt að fyrir henni líti vistaskipin einkennilega út. „Mér finnst þetta orka tvímælis. Aðstoðarmenn ráðherra eru eðli málsins samkvæmt ráðnir pólitískt og sinna pólitískum störfum í umboði ráðherrans og búa þess vegna yfir upplýsingum og kontöktum sem ekki er víst að aðrir byggju yfir. Mín skoðun er að huga þurfi betur að þessu: Þannig að aðstoðarmenn ráðherra geti ekki farið beint í eitthvert slíkt starf í sama málaflokki.“
Heimildin hefur meðal annars upplýsingar um að Guðrún Ása hafi setið fundi með yfirlækni bæklunarskurðdeildar Landspítalans, Hirti Friðriki Hjartarsyni, í krafti starfs síns sem aðstoðarmaður. Klíníkin gerði fyrr á árinu um samning um að gera liðskiptaaðgerðir með þátttöku Sjúkratrygginga Íslands í fyrsta skipti og hefur verið gefið út að annar samningur verði gerður við Klíníkina fyrir næsta ár.
Vistaskipti á krítískum tíma
Um þessar mundir ráðgerir heilbrigðisráðuneytið að útvista enn frekari aðgerðaformum til einkaaðila eins og Klíníkurinnar með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands.
Viskiptaskipti Guðrúnar Ásu eiga sér því stað á krítískum tíma þar sem upplýsingar um ríkisrekstur í heilbrigðiskerfinu sem liggja fyrir í ráðuneytinu geta verið mikilvægar fyrir einkaaðila eins Klíníkinni sem vilja gera fleiri aðgerðir með kostnaðarþátttöku ríkisins.
Ekkert í gildandi bannar vistaskiptin
Engin ákvæði í gildandi lögum um hagsmunaárekstra æðstu starfsmanna stjórnarráðsins banna slík vistaskipti aðstoðarmanna ráðherra yfir til einkarekinna fyrirtækja sem starfa á málefnasviði ráðherrans sem þeir störfuðu undir. Í tilfelli ráðherra sjálfs, ráðuneytisstjóra og skristofustjóra í ráðuneytum þá þurfa þeir að bíða í sex mánuði eftir að þeir láta af störfum í ráðuneytum áður en þeir ráða sig til einkaaðila á sama sviði. Á meðan eiga þeir rétt á biðlaunum.
Ákveðið var að aðskilja aðstoðarmenn ráðherra frá þessum hópi í lögum sem sett voru á Alþingi á síðasta kjörtímabili.Þess vegna getur Guðrún Ása ráðið sig í starfið hjá Klíníkinni án þess að þurfa að bíða í sex mánuði líkt og gildir um ráðherra sem og ráðuneytis- og skrifstofustjóra.
Athugasemdir