Heimildin ræddi við Hörð, sem ásamt öðru starfsfólki verkalýðsfélagsins er kominn með vinnuaðstöðu á skrifstofum VR í Kringlunni. Hann segir að verkefnið núna í fyrsta kastinu sé að tryggja afkomu starfsfólks í Grindavík og til að byrja með sé horft til þriggja mánaða.
Fulltrúar félagsins funduðu með ráðherrum í ríkisstjórninni á mánudag um stöðu Grindvíkinga og síðan hefur Hörður fengið þau boð að það sé frumvarp á leiðinni sem eigi að tryggja Grindvíkingum afkomu, með einhverri „sóttkvíarleið, COVID-leið“. Hann lýsir fundi sínum með forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra á mánudag sem góðum. „Þau lofuðu að reyna að vera jákvæð og vinna hratt.“
Hörður og félagar hafa einnig verið að skoða lánamál Grindvíkinga, en lánastofnanir hafa boðið Grindvíkingum upp á frystingu eða greiðsluhlé. „Þessi leið hugnast okkur alls ekki og er ekki að grípa fólkið. Vextirnir hlaðast ofan á höfuðstólinn og greiðslubyrðin hækkar. Það getur ekki gengið,“ segir Hörður, sem segir félagið hafa beðið um fund með bankastjóra Landsbankans og heyrt í ýmsum í bankakerfinu.
„Þú hlýtur að vera með einhverja samfélagslega ábyrgð, þó að þú sért fjármálafyrirtæki“
Telurðu líklegt að bankarnir séu tilbúnir að taka á sig vexti Grindvíkinga?
„Ég vil ekkert segja um það fyrr en við erum búin að hitta þá. En þessi leið sem þeir eru að bjóða upp á á alls ekki að ganga, hún er alveg ófær. Þetta gengur ekki svona. Það er óvissa og á fólk að vera að borga af lánunum sínum og eyða eigið fé í að hækka höfuðstólinn á sama tíma og það er að finna sér leiguhúsnæði og kaupa inn húsgögn og föt og annað? Það er bara galið. Þú hlýtur að vera með einhverja samfélagslega ábyrgð, þó að þú sért fjármálafyrirtæki,“ segir Hörður.
Hefurðu rætt þetta eitthvað við stjórnmálamennina?
„Nei, við vorum ekki alveg komin þangað. Við ætlum að sjá hvernig þetta gengur en ef við fáum neikvæð svör þá hljótum við að fara þá leið, að reyna við pólitíkina.“
Hefur ekkert farið heim
Hörður sjálfur þurfti að skilja heimili sitt eftir við rýmingu bæjarins og hefur ekki snúið til baka að vitja eigna sinna. „Sonur minn skaust þarna inn til að tékka hvernig þetta liti út. Ég er bara búinn að vera í vinnunni að græja og gera þessi mál gagnvart mínum félagsmönnum. Húsið er óskemmt en innbúið er mikið brotið,“ segir hann um stöðuna á heimili sínu.
Líðan sína segir hann breytilega innan dags, eins og væntanlega eigi við um marga Grindvíkinga. Óvissan sé slæm.
Hann vill koma því á framfæri að Grindvíkingar séu gríðarlega þakklátir fyrir jákvæðar kveðjur og boð um aðstoð. „Það er ótrúleg samheldni sem við finnum fyrir í samfélaginu. Það skiptir máli,“ segir Hörður.
Athugasemdir (2)