Grindvíkingar hafa mátt ganga í gegnum miklar náttúruhamfarir á síðustu dögum, þar sem öflugir jarðskjálftar hafa riðið yfir, kvikugangur liggur undir bænum og jörðin klofnaði undan átökunum.
Þeir hafa verið duglegir að miðla reynslu sinni með myndböndum sem birt hafa verið á samfélagsmiðlum síðustu daga. Á myndböndunum má sjá hvernig heimili nötruðu, með misalvarlegum afleiðingum. Á upptökunum heyrast ógnvekjandi drunur sem fylgdu snörpum jarðskjálftum, glamur í eldhúsáhöldum og húsgögnum sem færðust til. Í einu myndbandinu mátti sjá eyðileggingu eldhúsinnréttingar.
Eins mátti sjá mat á víð og dreif um gólf verslunarinnar Nettó, en þar var fólk beðið um að yfirgefa verslunina þegar stór skjálfti reið yfir á föstudagskvöld.
Í myndskeiðinu efst í fréttinni er samantekt á þeim myndböndum sem vakið hafa hvað mesta athygli á samfélagsmiðlum síðustu daga.
Samstaða með Grindvíkingum
Mikil samstaða ríkir meðal Íslendinga um að koma Grindvíkingum til aðstoðar. Til að mynda eru rúmlega 17 þúsund einstaklingar í Facebook-hópnum Aðstoð við Grindvíkinga, sem var stofnaður fyrir tveimur dögum síðan.
Eins eru yfir 2.000 meðlimir í hópnum Gæludýr í Grindavík.
Á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, eru nú yfir 18 þúsund færslur undir myllumerkinu #Grindavik. Þar deila notendur fréttum, myndum og myndböndum.
Athugasemdir