Um 40 venesúelskir hælisleitendur sem bjuggu í sömu byggingunni í Grindavík dvelja nú í Hvalfirði, við Laugarvatn og í Reykjavík. Þau voru send þangað í kjölfar rýmingar vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.
Nover Pirela er einn þessara hælisleitenda en hann dvelur nú á hótel Glymi með systur sinni Verónicu og um tuttugu öðrum fullorðnum hælisleitendum.
„Við sem erum hér á Hótel Glym höfum það fínt þó við séum langt í burtu,“ segir Nover. „Í Reykjavík er þetta verra. Þar er fólk sem býr ekki við góðar aðstæður, fjölskyldur með börn og óléttar konur.“
Ákall um hjálp fyrir hóp hælisleitendanna var sett inn á Facebook-hópinn Aðstoð við Grindvíkinga í gær og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Á sjöunda tug manns buðu fram aðstoð sína í formi fatnaðar og nauðsynja við færsluna.
„Við erum mjög þakklát því við höfum fengið mikla aðstoð,“ segir Nover. „Allir eru að reyna að hjálpa okkur.“
„Við vorum mjög ánægð í Grindavík“
Nover segir að til að byrja með hafi hann ekki verið hræddur við skjálftana í Grindavík. En þegar þeir voru orðnir mjög stórir fór honum ekki að standa á sama og hræðsla greip um sig í hópnum.
„Á föstudaginn varð allt vitlaust,“ segir Nover. „Við erum sorgmædd vegna þess að við vorum mjög ánægð í Grindavík og okkur líkaði vel við fólkið. Þetta var nýtt heimili, langt frá heimilinu okkar.“
Þannig að þið misstuð í raun annað heimili ykkar?
„Já, við erum að missa annað heimilið okkar og aðra fjölskyldu.“
Nover vonar það besta fyrir Grindavík.
„Við söknum svo bæjarins okkar og við höfum áhyggjur af honum og Grindvíkingum. Við viljum komast þangað aftur eins fljótt og hægt er.“
Athugasemdir