„Þetta eru bara ótrúlega sorglegar aðgerðir,“ segir Sandra Ósk Jóhannsdóttir, sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu, um að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi aðeins veitt íbúum eins lítils hverfis, Þórkötlustaðahverfis, sem stendur austan við Grindavík, leyfi til að fara inn á svæðið. Dýrfinna og fjöldi annarra dýraverndunarsamtaka hefur sett saman nokkur teymi fólks sem er tilbúið að fara inn í bæinn og sækja dýr sem þar urðu eftir er bærinn var rýmdur á föstudagskvöldið.
Ekki liggur fyrir hvort eða hvenær mögulegt verður að fara í samskonar leiðangra í önnur hverfi. Í tilkynningu frá Veðurstofunni um hádegi kom fram að það væri mat vísindamanna, eftir stöðufund í morgun, að svigrúm væri til tímabundinna aðgerða til að sækja nauðsynjar í Grindavík og nágrenni. Það er hins vegar ekki á valdi vísindamannanna að taka endanlega ákvörðun um hvort fólki sé hleypt inn á lokunar- og rýmingarsvæði heldur lögreglustjóra. Og hans ákvörðun liggur nú fyrir.
„Við erum ekki alveg að skilja alla þessa upplýsingaóreiðu sem er til staðar,“ segir Sandra. Tilkynning Veðurstofunnar hafi borið með sér að fólk gæti komist inn á svæðið, margir hafi lagt af stað í þeim tilgangi að sækja dýrin sín en komið að harðlæstum lokunarpóstum. Hún segir ákvörðun lögreglustjórans stangast á við mat vísindamanna og að það sé sorglegt ef hægt hefði verið að fara aðrar leiðir. „Það þyrfti í raun að hlusta á vísindafólk og hafa aðgerðir í samræmi við ábendingar þess. Ef það er gluggi þá á fólk að geta sótt dýrin sín.“
Tugir katta auk kanína, hamstra, hænsna, dúfna og fleiri dýra lokuðust inni í Grindavík í kjölfar rýminganna. Margir íbúar höfðu farið úr bænum áður en til þeirra kom, og séð til þess að dýrin hefði nóg að bíta og brenna til skamms tíma, enda ætlun allra að snúa fljótt aftur heim. Ákvörðun um rýmingu var tekin með stuttum fyrirvara og margir kettir úti og ekki náðist að finna þá í tæka tíð.
Að minnsta kosti 62 kettir
„Við vinnum að sameiginlegu markmiði, öll dýraverndunarsamtök sem er annt um dýr, að fara inn í Grindavík og sækja dýr sem eigendur geta ekki sótt sjálfir,“ sagði Hanna Evensen, rekstrarstjóri Kattholts, við ljósmyndara og blaðamann Heimildarinnar, þar sem hún var stödd við einn lokunarpóstinn að Grindavík.
Hópar frá samtökunum voru staddir við alla lokunarpósta að bænum, í bílum fullum af búrum, fellibúrum og „alls konar tækjum og búnaði til að sækja þessi dýr“. Hún sagði fulltrúa samtakanna vera að bíða eftir „fyrsta tækifæri“ til að komast inn. Að minnsta kosti 62 kettir eru í Grindavík að sögn Hönnu. Hún telur mjög líklegt að mörg dýranna séu skelfd eftir alla jarðskjálftana og því séu teymin búin róandi spreyjum. Allir í hópunum séu með mikla og langa reynslu af því að handsama hrædd dýr.
Hanna var með þrjú búr í fanginu er blaðamaður ræddi við hana „því ég gat ekki borið fleiri“.
Ótrúlega sárt
„Við erum búin að fá ótrúlega margar hringingar núna frá fólki sem er að reyna að komast inn á svæðið og ná í dýrin sín en fá bara neitun sem er ótrúlega sárt fyrir þau,“ segir Sandra um stöðuna sem upp er komin. „Þannig að það er ekki möguleiki núna fyrir fólk að sækja dýrin sín. Þannig að það er örvænting og óreiða í gangi.“
Dýrfinna hafði frumkvæði að því í gær að óska eftir upplýsingum frá Grindvíkingum um dýr sem ekki tókst að taka með er bærinn var rýmdur. Gríðarlega margir höfðu samband og hafa samtökin útbúið ítarlega lista og kort yfir hvar dýr bæjarins eru. „Þau dýr sem eru í forgangi hjá okkur eru þau sem eru læst inni og þau sem eru matar- og vatnslítil,“ segir Sandra. Ef teymi samtakanna fengju að fara inn á svæðið myndu þau fyrst fara á þau heimili. Settir hafa verið á laggirnar nokkrir aðgerðarhópar sem gætu á skömmum tíma farið um ákveðin fyrir fram skilgreind svæði og safnað dýrunum. Einn hópur myndi svo sérstaklega einbeita sér að því að fanga dýr sem eru úti.
Lítið hugað að dýrum
Tæp þrjú ár eru síðan að fyrsta gosið á Reykjanesi varð frá upphafi þrettándu aldar. Ljóst var þá þegar, að mati vísindamanna, að gostímabil, með eldgosum og hléum, væri hafið. Sú hefur verið raunin og þrjú gos orðið á skömmum tíma. Þá hefur langt og mikið skjálftatímabil nú staðið yfir vikum saman og landris verið óvenju mikið við fjallið Þorbjörn. Viðbragðsáætlanir voru smíðaðar en aldrei var haft samband við Dýrfinnu, samtaka sem þekkt eru fyrir góð störf við að finna týnd dýr, vegna þeirra. „Við höfum ekki séð neitt um nein dýr í nokkrum rýmingaráætlunum,“ segir Sandra. „Þetta er mikið áhyggjuefni, sérstaklega fyrir framtíðina. Við erum núna komin á nýtt gostímabil og það þarf að gera ráð fyrir dýrunum. Það hefur greinilega ekki verið gert núna sem er mjög mikið áhyggjuefni.“ Vegna þessa sé mjög þungt hljóðið í félagsmönnum allra helstu dýraverndunarsamtaka Íslands.
Lifandi dýr mikilvægari en hlutir
Í tilkynningu frá almannavörnum eftir hádegi, þar sem ákvörðun lögreglustjórans var tíunduð, var tekið fram að íbúar Þórkötlustaðahverfis fengju að fara inn á svæðið en eingöngu til að sækja „gæludýr og ómissandi eigur“. Áður hefur oftast aðeins verið talað um að sækja nauðsynjar og verðmæti í tilkynningum og viðtölum við yfirvöld. „Það hlýtur að segja sig svolítið sjáft að lifandi dýr er mikilvægara en hlutir sem hægt er að endurnýja,“ segir Sandra með áherslu. „Það er ekki hægt að bera saman dauða hluti og lífverur.“
Skilaboð Söndru til yfirvalda eru skýr: „Hlustið á vísindafólk. Ef vísindafólk er að láta vita að það gæti verið gluggi þá þarf að nýta þá glugga til að aðstoða dýrin. Okkur ber skylda til þess að hjálpa dýrunum.“
Athugasemdir (2)