Tæplega 1.000 íbúar Grindavíkur hafa í kvöld látið Rauða krossinn vita að þeir séu komnir í skjól hjá ættingjum eða vinafólki, en um 3.700 manns búa í Grindavík. Um 80 Grindvíkingar eru komnir í fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins, langflestir í Kórinn í Kópavogi. „Þar eru nú um 50 manns, fullorðnir og börn en líka gæludýr,“ segir Oddur Freyr Þorsteinsson, kynninga- fjölmiðlafulltrúi Rauða kross Íslands. Oddur Freyr hvetur alla íbúa Grindavíkur sem ekki ætla að gista í fjöldahjálparstöð til að láta vita af því í númerið 1717. „Þau sem ætla að vera í fjöldahjálparstöðvum skrá sig við komuna þangað.“
Almenningur hefur í kvöld sýnt Grindvíkingum mikla samstöðu. Margt fólk hefur á Facebook í kvöld boðið Grindvíkingum gistingu á heimilum sínum. Þá hefur verið stofnaður hópur á samfélagsmiðlunum sem ber heitið Aðstoð við Grindvíkinga.
„Laust herbergi hér með einu 140cm rúmi. Einnig sófi í stofunni. Hringbraut í Reykjanesbæ. “ skrifaði Halldóra Hreinsdóttir.
„Ef íbúa úr Grindavík vantar gistingu næstu daga og vikur getum við lagt hana til fyrir 15-20 manns í Skarði - Skeið - Gnúp (34 km frá Selfossi á leið að Flúðum) 8 Selfossi og 6 manns í Stykkishólmi. Hús í Skarði sem tekur 10, laust á sunnudaginn, tvær íbúðir fyrir 4 á Selfossi, 3 smáhýsi sem geta verið í 2-4 í Skarði. Í Stykkishólmi íbúð fyrir 6 manns, þrjú tveggja manna herbergi, laus á sunnudaginn. 34 gistirými í heildina á þessum 3 stöðum,“ skrifaði Björgvin G. Sigurðsson.
„Ég er með herbergi innan íbúðar með tvíbreiðum svefnsófa og tv á meðan rýming stendur yfir. Bý í Mosó,“ skrifar Margrét Björk Ólafsdóttir.
Íris Dröfn Kristjánsdóttir segist vera með „uppábúið 90 cm rúm í sér herbergi og svefnsófa inn í stofu. Hundur og 2 kisur á heimilinu. Datt í hug að bjóða fram aðstoð ef einhver er með hund/a með sér og vantar aðstöðu/gistingu. Er á Selfossi.“
Þá voru í hópnum, sem stofnaður var til stuðnings Grindvíkingum, birt skjáskot af síðunni Heimaklettur í Vestmannaeyjum þar sem Vestmanneyingar og fleiri bjóða Grindvíkingum húsaskjól.
Athugasemdir