Bláa lóninu hefur verið lokað og það verður lokað í eina viku. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi á fjölmiðla í morgun.
Þar segir að ákvörðunin hafi verið tekin þrátt fyrir að viðbúnaðarstig almannavarna hafi ekki verið aukið og að staðan verði metin í framhaldinu. Lokunin mun taka gildi í dag, 9. nóvember, og standa til að byrja með til klukkan 07:00, 16. nóvember. „Truflun á upplifun gesta í nótt og langvarandi aukið álag á starfsmenn eru meginástæður lokunarinnar. Bláa Lónið hf. mun fylgjast með framgangi hræringanna næstu sólarhringa og meta stöðuna. Okkar frábæru og tryggu starfsmenn fá greidd full laun meðan á lokun stendur og gestir fulla endurgreiðslu.“
Líkt og Heimildin greindi frá í gær hefur Bláa lónið sætt nokkurri gagnrýni undanfarna daga, fyrir að upplýsa ekki gesti sína um jarðhræringar í Svartsengi og einnig fyrir að halda starfsemi sinni til streitu í yfirstandandi óvissuástandi. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Úlfar Lúðvíksson, sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á mánudag að það væri hreinlega „óábyrgt“ að starfsemi lónsins sé enn í fullum gangi.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu, sagði við Heimildina á þriðjudag að þessi ummæli Úlfars væru ekki í takti við annað sem heyrst hafi úr almannavarnakerfinu. „Maður áttar sig ekki á því hvort hann sé að tala þarna sem embættismaður eða bara sem persóna, en maður gerir auðvitað ráð fyrir því, hann er þarna í viðtali sem lögreglustjóri, að hann sé að tala fyrir hönd embættisins. Það er aldrei gott þegar það er misræmi í skilaboðum. Það er óvissustig og því hefur ekkert verið breytt og það er ekki verið að breyta því í dag og því er þetta ákaflega óheppilegt,“ sagði Helga.
Úlfar var ekki sá eini sem virtist hafa einhverjar áhyggjur af umfangi starfseminnar í Svartsengi og þeim hundruðum sem eru staddir í eða við lónið á hverjum tíma. Kynnisferðir tilkynntu á þriðjudag að fyrirtækið væri hætt að aka ferðamönnum í lónið í bili, vegna stöðu mála. Skipulagðar rútuferðir á vegum Bláa lónsins og Hópbíla undir merkjum Destination Blue Lagoon héldu hins vegar sínu striki í gær.
Helga sagðist í gær setja spurningamerki við hvaða forsendur væru að baki ákvörðun Kynnisferða og sagði að Bláa lónið fylgdi einfaldlega boðum Almannavarna, sem hafi ekki gert neinar breytingar á viðbúnaðarstigi sínu 25. október.
Þetta breyttist allt í morgun. Mikil jarðskjálftahrina reið yfir svæðið í kringum Þorbjörn í nótt. Alls urðu 18 skjálftar sem voru yfir 3,0 að stærð frá miðnætti og sá stærsti mældist 5,0. Hann fannst vel víða á höfuðborgarsvæðinu. Engin merki eru þó um aukinn gosóróa sem stendur.
Athugasemdir