Dekkstu sviðsmyndirnar um þær jarðhræringar sem staðið hafa yfir í næsta nágrenni við Svartsengi í rúmar tvær vikur gera ráð fyrir því að eldgos gæti hafist í grenndinni og hraunflæði ógnað mikilvægum innviðum, sem tryggja tugþúsundum íbúa á Reykjanesi heitt vatn og íbúum Grindavíkur rafmagn.
Einnig er einn fjölsóttasti og verðmætasti ferðamannastaður landsins, Bláa lónið, á svæðinu. Á fimmtudagsmorgun var tilkynnt að því yrði lokað í eina viku, eftir kröftuga jarðskjálftahrinu sem skelfdi hótelgesti og starfsfólk.
Miklir fjárhagslegir hagsmunir eru undir bæði fyrir íbúa og fyrirtæki og allir vonast auðvitað til þess að hið versta raungerist ekki. Margs konar áætlanir hafa samt verið gerðar, til þess að hægt sé að verjast afleiðingum goss á þessum slóðum og almannavarnakerfið er í viðbragðsstöðu. Í umræðunni undanfarna daga hefur jafnvel verið talað um að ráðast í gerð stærðarinnar varnargarða, til þess að verja innviðina í Svartsengi fyrir mögulegu hraunrennsli.
Athugasemdir