Guðmundur Magnússon hefur unnið að heimildamynd um Unu Guðmundsdóttur, miðil og áðurnefnda völvu Suðurnesja, síðan árið 2009. Vinnuheiti myndarinnar er Góða nótt, Völva Suðurnesja.
Una í Sjólyst eða Garði, eins og hún var gjarnan kölluð, fæddist árið 1894 og var þekkt fyrir náðargáfu sína er kom að andlegum málefnum og líkamlegum kvillum. Una lést árið 1978.
„Síðan árið 2009 er ég búinn að vera að safna heimildum um þessa konu og finna ljósmyndir og kvikmyndir. Það er enn þá að koma fólk til mín hvaðanæva að af landinu sem hefur mjög merkilegar sögur að segja þannig að Una verður alltaf merkilegri og merkilegri,“ segir leikstjórinn.
Áhuginn
Guðmundur segist mikill áhugamaður um sagnfræði og ólst sjálfur upp í Garði. Um Unu segir hann: „Hún er bara svo stór partur af sögunni að það er ekki hægt að fara fram hjá því. Hún var svo merkileg og allir sem að hafa komist í kynni við söguna fá áhuga á henni.“
„Hún var svo merkileg og allir sem hafa komist í kynni við söguna fá áhuga á henni“
Árið 1969 var bókin Völva Suðurnesja eftir Gunnar M. Magnúss gefin út um Unu. „Mér skilst að eftir að bókin kom út að þá hafi hún ekki fengið frið fyrir fólki. Það var biðröð fyrir utan hjá Unu af fólki sem vantaði hjálp þannig að hún þurfti að fara út á land.“
Þó er mörgu hægt að bæta við söguna að mati Guðmundar: „Ég held að fólk geri sér ekki alveg grein fyrir því hvað hún var öflug.“ Fyrir þremur árum var húsi Unu breytt í minjahús þar sem gestir geta kynnst sögu hennar og var Guðmundur einn þeirra sem stóð að því verkefni.
Það er ekki einungis saga og störf Unu sem heilla leikstjórann heldur er það einnig ævi Stefaníu Guðríðar Kristvinsdóttur, stúlku sem Una tók að sér og ól upp. Báðar tvær voru áberandi í félagsstarfi en Stefanía lést um aldur fram, aðeins 27 ára, og eru þær Una jarðaðar undir sama legsteini.
Það getur reynst krefjandi að finna fjármagn fyrir verkefni eins og Góða nótt, Völva Suðurnesja en Guðmundur segir það einnig strembið að stoppa heimildavinnuna. „Þetta er búið að vera lengi í smíðum en það er aðallega vegna þess að það er erfitt að fá fjármagn og það er erfitt að hætta vegna þess að það er alltaf meira og meira að koma í ljós.“
Guðmundur vonast til þess að myndin, framleidd af Steinboga kvikmyndagerð, geti komið út á næsta ári. Inni á vefsíðu Karolina Fund er að nálgast nánari upplýsingar um efni myndarinnar og einnig hægt að styrkja gerð hennar með fjárframlögum.
Athugasemdir