Þessi grein birtist fyrir rúmlega 5 mánuðum.

Ljóðabók um nútímakonuna

Sjötta ljóða­bók mynd­list­ar­kon­unn­ar Gunn­hild­ar Þórð­ar­dótt­ur kom út fyrr í nóv­em­ber. Bók­in fjall­ar um nú­tíma­kon­una og tekst á við við­fangs­efni sam­tím­ans eins og lofts­lags­hlýn­un og þriðju vakt­ina.

Ljóðabók um nútímakonuna
Dóttir drápunnar - ljóð úr djúpinu Ljóðabók myndlistakonunnar Gunnhildar Þórðardóttur inniheldur í kringum 30 ljóð og er nú fáanleg í bókabúðum og á Karolina Fund síðu höfundar.

Gunnhildur Þórðardóttir myndlistarmaður er höfundur nýju ljóðabókarinnar Dóttir drápunnar – ljóð úr djúpinu. Bókin er sú sjötta eftir Gunnhildi. 

Gunnhildur ÞórðardóttirÁ erfitt með að gera upp á milli ljóðanna sinna en heldur þó mikið upp á ljóðið Dóttir drápunnar sem ber sama titil og ljóðabókin.

„Þetta er ljóðabók sem fjallar í rauninni um nútímakonuna í þessari aðstöðu sem við erum í. Metoo-byltinguna, femínismann, konuna sem er á þriðju vaktinni og er að takast á við þetta samviskubit um loftslagshlýnun. Þetta tekur á öllum þessum málum sem eru í brennideplinum,“ útskýrir Gunnhildur en bókin kom út um miðjan nóvember.

Sjórinn veitti innblástur

Höfundurinn skrifar frá sinni eigin reynslu sem fimm barna móðir, umhverfissinni og myndlistarmaður. Gunnhildur byrjaði að vinna að bókinni árið 2019 en þá sendi hún inn ljóð í ljóðasamkeppni og vann. Sjórinn veitti henni innblástur við ljóðagerðina og áhrif hans á íslenskt samfélag. 

„Við fáum allan forðann okkar úr sjónum og okkar helstu atvinnugrein. Þess vegna heitir bókin Dóttir drápunnar – ljóð úr djúpinu. Líka af því að sjórinn er súr og þessi hnattræna hlýnun hefur mikil áhrif á sjóinn.“

Gunnhildur er mikill umhverfissinni, hjólar flest allt sem hún fer og lýsir sjálfri sér sem nytjasamri. „Ég hef alltaf verið mjög eins og gamla kynslóðin, nýtt allt vel. Það er nægjusamur nóvember og plastlaus september í hverjum mánuði hjá mér,“ segir listakonan og hlær léttilega. „Ég er frekar ólík fólki að því leytinu til að ég hef gert þetta mjög lengi, verið í þessum lífsstíl.“

„Það er nægjusamur nóvember og plastlaus september í hverjum mánuði hjá mér“
Gunnhildur Þórðardóttir
myndlistarkona og höfundur ljóðabókarinnar Dóttir drápunnar – ljóð úr djúpinu

Í nýju ljóðabókinni eru um 30 ljóð, sum löng en önnur styttri. Aðspurð hvort hún eigi sér uppáhaldsljóð úr bókinni segir Gunnhildur að sér þyki vænt um öll sín ljóð. Hins vegar heldur hún mikið upp á ljóðið Dóttir drápunnar, sem ber sama titil og bókin. 

Skemmtilegast við að gefa út ljóðabók er að hitta annað fólk, hvort sem það eru lesendur eða aðrir höfundar að sögn Gunnhildar. „Það er mjög gefandi. Þetta er eins og að vera myndlistarmaður og hitta fólkið sem kemur á sýningarnar manns og vill fá einhverja leiðsögn. Að vera í þessu spjalli, það er svo mikilvægt.“

„Að vera í þessu spjalli, það er svo mikilvægt“
Gunnhildur Þórðardóttir
myndlistarmaður og höfundur ljóðabókarinnar Dóttir drápunnar – ljóð úr djúpinu

Nálgast má bókina í bókabúðum eða panta eintak í gegnum Karolina Fund-síðu Gunnhildar. Þegar Heimildin náði tali af Gunnhildi var fjórði ljóðaupplestur vetrarins á dagskrá daginn eftir. Hægt er að fylgjast með Gunnhildi á samfélagsmiðlum og hún hvetur öll til þess að næla sér í eintak af bókinni, enda sé hún tilvalin jólagjöf. 

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Karolina Fund

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár