„Að mati okkar lítur út fyrir að þeir séu að gera landfyllinguna fyrir námufjárfestanna í bænum,“ segir Steinarr Lár, formaður Brimbrettafélags Íslands, í viðtali við enska blaðið The Guardian í frétt sem birtist á vefsíðu miðilsins í gær. Í fréttinni er fjallað um deilur Brimbrettafélags Íslands við Sveitarfélagið Ölfus út af umdeildri landfyllingu sem verið er að gera i Þorlákshöfn.
„Hvernig geturðu búið frítt í einhverju húsi sem er í eigu aðila sem á beina hagsmuni af landfyllingunni?“
Brimbrettafélagið telur að landfyllingin muni eyðileggja ölduna við ströndina og að hún sé einstök á landsvísu. Áhugavert er að erlent stórblað eins og The Guardian fjalli um slíkt deilumál í íslenskum bæ. Steinarr Lár segir hins vegar að þetta sé ekkert svo skrítið þar sem málið snýst um skemmdir á náttúrulegum gæðum á heimsvísu: Öldunni í Þorlákshöfn: „Það eru ekkert svo margar svona öldur til í heiminum. Þetta eru verðmætin sem fólk á Íslandi áttar sig ekki almennilega á. Þess vegna er ekkert skrítið að The Guardian fjalli um þetta. Aldan er náttúruperla sem ekki bara Íslendingar nota.“
Landfyllingin liggur að hafnarsvæði þar sem fyrirtæki námufjárfestanna Einars Sigurðssonar og Hrólfs Ölvissonar flytur út jarðefni. Þessir sömu fjárfestar eiga fasteignir á jörðinni Hjallla í Ölfusi sem Elliði Vignisson bæjarstjóri býr í og segist vera að kaupa af fjárfestunum fyrir verð sem hann vill ekki gefa upp. Fjárfestarnir hafa staðfest að eigi húsið sem Elliði býr í ennþá.
Segir málið sýna spillingu
Að mati Steinarrs Lár angar málið og aðkomu Elliða að því af spillingu. „Elliði býr frítt í húsi námufjárfestanna. Hann borgar ekki skatt eins og við hin til að borga af sínu húsnæði, hvort sem er í formi leigu eða kaupa á fasteigninni. Þetta er mjög sérstakt. Þetta blasir við: Þetta er spilling, hrein og klár spilling. Hvernig geturðu búið frítt í einhverju húsi sem er í eigu aðila sem á beina hagsmuni af landfyllingunni?,“ segir hann við Heimildina. „Hvað þá það að þýða að hann búi frítt í þessu húsi? Hann ver sig svo með því að þykjast ekki vera kjörinn fulltrúi.“
Steinarr segir að Brimbrettafélagið hafi reynt að ræða við starfsmenn sveitarfélagsins og kjörna fulltrúa í Ölfusi en að svo virðist sem allir standi og sitji eftir því sem Einar Sigurðsson námufjárfestir vill. „Það beygja sig allir bara undir hann Einar.“
Í samtali við Heimildina segir Elliði Vignisson, aðspurður um hvernig hann svari þessari gagnrýni Steinarrs: „Ég hef ekkert um þetta að segja. En ég spyr mig að því hvort þeir telja þetta líklegast til árangurs í máli sem reynir á samvinnu.“
Einar hringdi út af hafnarframkvæmdunum
Heimildin hefur áður fjallað um afskipti Einars Sigurðssonar af framkvæmdum við höfnina í Þorlákshöfn.
Í viðtali við blaðið í byrjun ársins sagði bæjarfulltrúi í minnihlutanum í Ölfusi, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, að Einar Sigurðsson hafi hringt í hana og skammað hana eftir að hún gagnrýndi að fyrirhugaðar framkvæmdir við höfnina í Þorlákshöfn á þeim forsendum gætu skemmt fyrir brimbrettafólki. „Hann hringir í mig. Ég hélt fyrst að hann ætlaði bara svona að fara að ræða þetta og allt í lagi. Ég átti bara ágætis samtal við hann til að byrja með. Nema svo segir hann við mig: En þú veist það að þú hefur verið ágætlega liðin í þessu samfélagi fram að þessu en það mun breytast ef þú heldur þessum áróðri áfram. Hann sagði þetta svona, bara orðrétt.“
Í viðtalinu við Heimildina sagði Ása Berglind enn frekar að hún hafi fyrst ekki áttað sig almennilega á því hvað Einar ætti við en svo hafi hún gert sér grein fyrir því að hann hafi verið að hóta henni. „Þetta tók svona smá tíma að súnka inn, þessi orð. Og það var ekki fyrr en ég hætti að tala við hann sem ég áttaði mig á hvað hann var raunverulega að segja við mig. Ég lít bara svo á að þetta hafi verið hótun. Að með því að tala um þetta mál þá myndi mannorð mitt hljóta skaða af. Ég veit ekki hvernig hann ætlaði að framkvæma það, eða hvernig hann ætlaði að sjá til þess, en þetta sagði hann. Og svo var það ekki fyrr en aðeins seinna sem ég setti þetta í samhengi við það að hann náttúrlega á þetta fyrirtæki sem er þarna á hafnarbakkanum.“
Steinarr Lárr segir að Brimbrettafélag Íslands muni halda áfram að berjast gegn landfyllingunni í Þorlákshöfn þar til yfir lýkur. „Við erum bara núna að vinna með lögfræðingum. Málinu er ekki lokið af okkar hálfu, langt í frá.“
Athugasemdir (3)