„Okkur finnst þetta vissulega sérkennilegt. Við höfum heyrt af þessu og þetta er almannarómur á Patreksfirði og þarna fyrir vestan. En við getum ekki gert kröfu um það að stöðvarstjórar séu staðsettir á hverjum degi á eldissvæðunum,“ segir Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun (MAST), aðspurður um hvað stofnuninni finnist um það að stöðvarstjóri sjókvíaeldis hjá Arctic Fish á Patreksfirði, Ísak Óskarsson, hafi verið búsettur á Tenerife meðan hann hefur gegnt starfinu. Heimildin greindi frá þessu í dag. „Það stendur ekkert um þetta í lögum og reglum hvar stöðvarstjórinn á að vera staðsettur,“ segir Karl Steinar.
Ein afdrifaríkasta slysaslepping í sögu íslensks laxeldis átti sér stað hjá Arctic Fish á Patreksfirði í sumar þegar gat kom á sjókví fyrirtækisins. Að minnsta kosti 3500 eldislaxar sluppu úr eldiskvínni og hafa þessir laxar synt upp í ár víðs vegar um landið. Fjöldamótmæli, skipulögð af náttúruverndarsamtökum og hagsmunaaðilum í laxveiði, voru haldin á Austurvelli fyrr í haust til að bregðast við slysasleppingunni og mótmæla sjóakvíaeldinu.
„Ég held ég geti fullyrt það að á öllum öðrum eldissvæðum á Íslandi er stöðvarstjórinn staðsettur á staðnum.“
Skoða lagabreytingar til að tryggja betra eftirlit
Karl Steinar segir að hins vegar sé MAST að skoða að gera ríkari kröfur um það í framtíðinni að stöðvarstjórar laxeldisfyrirtækja séu búsettir og staðsettir á þeim stöðum þar sem kvíarnar sem þeir hafa yfirumsjón með eru. „Ég held ég geti fullyrt það að á öllum öðrum eldissvæðum á Íslandi er stöðvarstjórinn staðsettur á staðnum.“
Uppbygging Arctic Fish er þannig að yfir fyrirtækinu er forstjóri, Stein Ove-Tveiten, sem er staðsettur á Ísafirði. Svo er einn eldisstjóri sem er yfir sjókvíaeldinu sem einnig er staðsettur á Ísafirði. Undir honum er svo stöðvarstjóri sem er yfir hverri eldisstöð eða eldinu í hverjum firði. Á Patreksfirði er þetta Ísak Óskarsson. Stöðvarstjórinn er því eins konar útibússtjóri, eða verkstjóri, í viðkomandi firði.
Karl Steinar segir að lögfræðingar MAST séu að athuga hvað hægt sé að gera innan ramma laganna til að tryggja viðveru stöðvarstjóra á því laxeldissvæði sem viðkomandi stýrir. „Við erum að kanna hvort við höfum lögfræðilegar heimildir til þess að fara fram á þetta. Við ætlum að koma því áleiðis að ákvæði um viðveru stöðvarstjóra verði komið inn í næstu lagabreytingar um laxeldið sem er í vinnslu. Manni finnst það vera skynsamlegast. Þetta ætti að vera skilyrði“
Lögreglurannsókn stendur yfir
Nú stendur yfir lögreglurannsókn á slysasleppingunni sem snýst meðal annars um eftirlitsleysi með kvínni sem gat kom á. Fóðurvél var skilin eftir í kvínni og gataði hana með þeim afleiðingum sem eldislaxarnir sluppu út. Arctic Fish sinnti ekki neðansjávareftirliti með kvínni sem skyldi þar sem netið í henni undir yfirborðinu hafði ekki verið kannað í 95 daga áður en gatið uppgötvaðist. Samkvæmt vinnureglum á að framkvæmda neðansjávareftirlit á að minnst kosti 60 daga fresti. Auk þess var ekki viðhöfð ljósastýring í kvínni sem gerði það að verkum að fiskurinn varð kynþroska í meira mæli en átti að verða. Kynþroska fiskur getur frekar blandast við villta laxastofna ef hann sleppur.
Samkvæmt því sem Karl Steinar segir þá getur lögreglurannsóknin á Arctic Fish ekki snúist um þetta með beinum hææti þar sem ekki er ákvæði um þetta í núgildandi lögum um fiskeldi.
Já banana stjórnsýslan lætur ekki að sér hæða!