Ég fór í mitt fínasta púss því ég þurfti að ganga upp í munnlegu prófi sem var hefðbundinn liður í doktorsvörn að bandarískum háskólasið. Þetta var í Princeton-háskóla haustið 1976, ég var þá nýorðinn 25 ára gamall. Ég tek þetta fram með pússið því árin mín fjögur í menntaskóla fór ég aldrei bindislaus í skólann og árin mín sex í háskóla fór ég aldrei með bindi í skólann nema þarna í munnlega prófinu í leikslok, uppstrílaður. Þetta voru þau ár.
Handagangur í prófi
Prófið fór fram í skrifstofu þess meðal helztu kennara minna sem hefði að réttu lagi, að mér finnst, átt að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði, en af því varð þó ekki. Hann hét William Baumol og var rekstrarhagfræðingur og einnig myndlistarmaður. Eitt málverkið hans hékk þarna uppi á vegg á skrifstofu hans.
Yngsti kennarinn í doktorsnefndinni var kona, fimm árum eldri en ég, og hún lagði fyrir mig spurningu sem varð til þess – spurningin eða svarið, ég man ekki lengur hvort var – að málverkið hrapaði ofan af veggnum og féll í gólfið. Og þá varð mér það á sem ég stóð frammi fyrir nefndinni í fullum skrúða að segja: Holy shit! – og mun það vera í eina skiptið sem þau orð hafa fallið í doktorsvörn í Princeton. Nema ég stóðst prófið og hóf störf í AGS í Washington skömmu síðar.
Fyrst kvenna
Unga konan í doktorsnefndinni var önnur tveggja kvenna sem voru þá lektorar í hagfræðideildinni í Princeton, en kennaraliðið taldi þá um 40-50 manns, nær eingöngu karlar, valinn maður í hverju rúmi. Unga konan í nefndinni hét og heitir Claudia Goldin og varð fyrst kvenna til að hljóta nokkrum árum síðar fastráðningu sem prófessor í Harvard-háskóla. Henni hlotnast Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár, þriðja konan og hin fyrsta sem hlýtur verðlaunin ein, það er án þess að deila þeim með öðrum.
Sérsvið hennar er staða kvenna á vinnumarkaði þar sem konum eru enn, eftir öll þessi ár, að jafnaði greidd 20% lægri laun en körlum fyrir sömu vinnu í Bandaríkjunum. Um þetta efni og önnur skyld hefur hún skrifað bók eftir bók og fræðigrein eftir grein frá mörgum sjónarhornum. Hún er gift starfsbróður sínum í hagfræðideild Harvard-háskóla, Lawrence Katz, 13 árum yngri prófessor sem er eiginlega miklu frægari en hún ef frægðin er mæld með fjölda tilvísana í verk hans svo sem tíðkast þegar reynt er að meta árangur og áhrifamátt háskólarannsókna.
Hefði hann þá heldur en hún átt að hljóta verðlaunin í ár? Nei, alls ekki, þótt hann sé að sönnu allra góðra gjalda verður af verkum sínum. Því það er ekki frægðin ein eða fjöldi tilvísana sem er lögð til grundvallar veitingu Nóbelsverðlauna í hagfræði, heldur einnig samfélagsgildið og verkefnavalið. Claudia Goldin skynjaði frá upphafi ferils síns ranglætið sem fólst og felst enn í misrétti kynjanna á vinnumarkaði og hefur helgað ævistarf sitt leitinni að skýringum á misréttinu langt aftur í tímann og leiðum til að uppræta það. Það kunnum við starfsbræður hennar og systur langflest að meta. Hún er enn að og lætur hvergi deigan síga. Hún ætlaði að verða fornleifafræðingur, en sneri sér heldur að hagfræði.
Sátt og samlyndi, næstum alltaf
Starf Nóbelsverðlaunanefndarinnar í hagfræði fer þannig fram að fjölda prófessora um Norðurlönd og víða annars staðar er veittur kostur á að tilnefna rannsakendur, næstum alltaf aðra prófessora, til Nóbelsverðlauna. Reglurnar kveða á um að verði einhverjum það á að tilnefna sjálfan sig til verðlaunanna, þá er hann úr leik ævilangt. Nóbelsnefndin í Stokkhólmi, sem er skipuð sænskum prófessorum, vinnur úr tilnefningunum, aflar sér fræðilegra úttekta á verkum þeirra sem helzt eru talin koma til greina hverju sinni og tekur loks ákvörðun á grundvelli þeirra gagna. Þetta ferli er til fyrirmyndar og skýrir hvers vegna nær órofa friður hefur ríkt um veitingu verðlaunanna til 93ja viðtakenda í 55 skipti frá 1969 til 2023 – nema þrisvar.
-
Þegar austurríska/brezka hagfræðingnum Friedrich von Hayek og sænska hagfræðingnum Gunnari Myrdal voru veit verðlaunin hlið við hlið 1974, töldu þeir báðir að þeim væri sýnd vanvirðing með því að á þá var lagt að þurfa að deila verðlaununum hvor með öðrum, því þeir voru á öndverðum meiði í stjórnmálum að ekki sé meira sagt. Verðlaunaveitingin til beggja sætti gagnrýni víða að, einkum veitingin til Hayeks.
-
Þegar Milton Friedman prófessor í Chicago voru veitt verðlaunin 1976 mæltust þau ekki vel fyrir meðal sumra þeirra sem voru á öndverðum meiði við hann í stjórnmálum, en hann var þá umsvifamikill í fjölmiðlum þar sem hann hélt fram ýmsum umdeildum skoðunum, sem hann sagðist þó halda aðgreindum frá fræðarannsóknum sínum. Enda lagði hann sjálfur manna mesta áherzlu á nauðsyn þess að greina á milli staðreyndahagfræði (Hvað er langt milli Bíldudals og Bolungarvíkur?) og stefnuhagfræði (Hvort plássið er fallegra, Bíldudalur eða Bolungarvík?). Enn er um það deilt hversu vel Friedman sjálfur virti þessa aðgreiningu milli staðreynda og stefnumála.
-
Þegar tveir fjármálaprófessorar, Robert Merton og Myron Scholes, hlutu verðlaunin 1997 fyrir reiknireglu fyrir verðlagningu á fjármálagjörningum (Black-
Scholes-reglan) gerðist það strax árið eftir að risavaxinn vogunarsjóður sem þeir stýrðu ásamt öðrum komst í sögulegt þrot svo að bandarískt efnahagslíf lék á reiðiskjálfi. Sumum fannst að þeir hefðu átt að sjá sóma sinn í að skila verðlaununum eða láta þau rakna til góðgerðarmála, en þeir gerðu það ekki. Aðrir benda á að reglan sem þeir hlutu verðlaunin fyrir er enn í góðu gildi, kennd í háskólum og notuð í fjármálarekstri.
Vel af sér vikið
Það verður að teljast vel af sér vikið að vart sé hægt að finna fleiri dæmi en þessi þrjú um Nóbelsverðlaunaveitingar sem orka tvímælis þegar í hlut á félagsvísindagrein eins og hagfræði sem miklir stjórnmálahagsmunir eru bundnir við og ýmsir telja sig hafa ástæðu til að tortryggja.
Athugasemdir