Jafnvel þó að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi sagt af sér segist Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ekki treysta ríkisstjórninni til þess að selja frekari hlut í Íslandsbanka.
Bjarni sagði af sér í morgun í kjölfar birtingar álits Umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að Bjarni hafi verið vanhæfur til að að selja félagi í eigu föður síns, Benedikts Sveinssonar, hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði sem fram fór í mars í fyrra.
Ríkisstjórnin stefnir á að selja frekari hlut í Íslandsbanka á næstunni.
„Ég treysti ekki þessari ríkisstjórn til að selja ríkiseignir vegna þeirra vinnubragða sem hafa birst í þessu máli og þau hafa varið fram í rauðan dauðan,“ segir Jóhann Páll.
Jafnvel þó að Bjarni sé farinn?
„Já.“
Þannig að þú telur að fleiri innan ríkisstjórnarinnar en hann séu ábyrgir?
„Mér finnst hafa birst svo mikið virðingarleysi gagnvart eignum almennings og grundvallarprinsippum um að fara vel með umsýslu þeirra og því að koma þeim í verð. Maður geldur varhug við áframhaldandi sölu á bankanum á meðan þetta hefur ekki verið gert upp.“
Í öryggisvesti að skoða fiskeldisker þegar fréttin barst
Jóhann Páll var staddur í Þorlákshöfn – íklæddur öryggisvesti, stórum stígvélum og með öryggishjálm á höfði – að skoða fiskeldisker með nokkrum öðrum meðlimum atvinnuveganefndar þegar fréttirnar af afsögn Bjarna bárust. Hann segir fréttirnar hafa komið á óvart.
„Þetta er mjög afgerandi álit frá umboðsmanni. Ég tel að þetta sé rétt ákvörðun – að bregðast við álitinu með þessum hætti,“ segir Jóhann Páll sem telur þó að Bjarni hefði átt að taka ákvörðunina fyrr.
„Það hafa ítrekað á hans stjórnmálaferli komið upp mál þar sem hann er að athafna sig á gráa svæðinu á milli stjórnmálalífs og viðskiptalífs. Það hlaut að koma að því að honum væri ekki stætt lengur af því að gegna embætti og hann gengist við því sjálfur.“
Jóhann Páll telur að það væri „langbest“ fyrir þjóðina að ganga til kosninga.
„En við í Samfylkingunni erum ekkert að flýta okkur. Við notum allan þann tíma sem okkur gefst til að búa okkur undir það að taka hugsanlega við stjórnartaumunum ef við fáum umboð til þess og þiggjum allan þann tíma með þökkum.“
Athugasemdir (1)