Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

Fáir góðir kostir í stöðunni fyrir ríkisstjórnina eftir afsögn Bjarna

Bjarni Bene­dikts­son sagði af sér ráð­herra­embætti í morg­un. Hann sagði við það til­efni að það væri „ekki al­veg gott að segja á þess­ari stundu“ hvaða áhrif af­sögn hans myndi hafa á rík­is­stjórn­ar­sam­starf­ið. Þrír sýni­leg­ir kost­ir eru í stöð­unni. Eng­inn þeirra er sér­stak­lega eft­ir­sókn­ar­verð­ur fyr­ir stjórn­ar­flokk­ana.

Marga innan, og í kringum, ríkisstjórn Íslands grunaði hver niðurstaða umboðsmanns Alþingis yrði. Bréfasamskipti embættisins við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra á meðan að á athuguninni stóð gáfu það sterkt til kynna að umboðsmaður teldi Bjarna Benediktsson hafa verið vanhæfan til að samþykkja sölu á ríkiseign til Hafsilfurs ehf., félags í eigu Benedikts Sveinssonar föður hans. Það félag keypti hlut í Íslandsbanka fyrir 55 milljónir króna í lokuðu útboði sem ætlað var fagfjárfestum einvörðungu og fór fram 22. mars 2022. Eftir mikla gagnrýni á söluna ákvað Bjarni að birta listann yfir þá 207 fjárfesta sem fengu að kaupa. Hann sagðist ekki hafa haft vitneskju um að á listanum væri nafn föður hans, fyrr en að hann fékk listann í hendurnar. 

Það hafði þó ekki verið rætt, að minnsta kosti á vettvangi ríkisstjórnar, hvað sú niðurstaða myndi þýða. Í dag kom fyrsta skref afleiðinga þess fram. Bjarni, sem hefur staðið af sér ótrúlega margar pólitískar atlögur og sviptivinda á næstum 15 ára ferli sem formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði af sér ráðherraembætti á blaðamannafundi, sem hann boðaði til með 49 mínútna fyrirvara í morgun. Þar sagðist hann ósammála niðurstöðu umboðsmanns en að hann myndi samt sem áður virða hana. Bjarni sagðist miður sín; að það hefði verið betra ef faðir hans hefði sleppt því að kaupa hlutinn í Íslandsbanka og að það væri „ekki alveg gott að segja á þessari stundu“ hvaða þýðingu ákvörðun hans myndi hafa á ríkisstjórnarsamstarfið.

Vissi á fimmtudag

Niðurstaða umboðsmanns lá fyrir 5. október, á fimmtudag í síðustu viku, og var í kjölfarið send til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Það brást við með svarbréfi sem er dagsett á laugardag, 7. október. Bjarni hafði því fimm daga til að velta ákvörðun sinni fyrir sér. 

Samkvæmt viðmælendum Heimildarinnar greindi Bjarni að minnsta kosti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra frá ákvörðun sinni fyrir fram. Restin af ríkisstjórninni settist á stuttan ríkisstjórnarfund í morgun og horfði svo á blaðamannafundinn. Áður hafði Bjarni kynnt álit umboðsmanns fyrir þingflokki Sjálfstæðisflokksins án þess þó að segja hvernig hann brygðist við álitinu. 

Næsta skref afleiðinga snýr að því hvaða áhrif afsögn Bjarna mun hafa á ríkisstjórnarsamstarfið. Þar kemur þrennt til greina. 

Þrír sýnilegir kostir

Í fyrsta lagi er mögulegt að niðurstaðan verði sú að Bjarni hafi sætaskipti við annan ráðherra í eigin flokki. Þar þykir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, líklegasti kandídatinn til að færa sig í framlínuna. Þannig gæti Bjarni, sem hefur staðið af sér fleiri áhlaup en flestir í stjórnmálum, horfið úr stjórnmálum með virðingarverðum hætti, eftir nokkur ár sem fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi. 

Alls óvíst er hvort hinir stjórnarflokkarnir tveir muni sætta sig við slíka hrókeringu. Engin fordæmi eru fyrir því að ráðherra sem neyðist til að segja af sér færi sig einfaldlega til um nokkra rassa á ráðherrabekknum í þinginu. Auk þess hefur Bjarni mikla reynslu af efnahagsmálum og aðstæður í samfélaginu, með átta prósent verðbólgu og 9,25 prósent stýrivexti, eru þess eðlis að ólíklegt er að hinir stjórnarflokkarnir sætti sig við að einhver hinna ráðherra Sjálfstæðisflokksins verði treyst fyrir hagstjórninni. Sömuleiðis er nær útilokað að Sjálfstæðisflokkurinn gefi eftir fjármála- og efnahagsráðuneytið nema að flokkurinn fengi í staðinn forsætisráðuneytið. Það mun ekki gerast.

Í öðru lagi gæti Bjarni einfaldlega hætt í stjórnmálum og ríkisstjórnin reynt að starfa áfram án hans. Í ljósi þess að það flókna stjórnarsamstarf sem er við lýði á Íslandi, með flokkum sem teygja sig þvert yfir hið pólitíska litróf, byggir mjög á persónulegu trausti milli Bjarna og Katrínar Jakobsdóttur er erfitt að sjá hvernig það samstarf ætti að ganga til lengdar. Auk þess er það samdóma álit annarra ráðherra úr samstarfsflokkum og stjórnarandstæðinga að Bjarni sé langöflugasti stjórnmálamaðurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur innan sinna raða um þessar mundir, þótt hann sé einstaklega laginn við að rata í vandræði sem hann eða faðir hans skapa sjálfir. Víki hann til hliðar sé enginn skýr eftirmaður og óhjákvæmilegt verði að þeir sem muni sækjast eftir leiðtogasætinu muni takast hart á. Þar eru Þórdís, Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem nýlega varð uppvís að því að snupra og hæðast að samráðherra sínum Svandísi Svavarsdóttur, talin líklegust.

Í þriðja lagi gæti afsögn Bjarna leitt til þess að ríkisstjórnarsamstarfinu yrði slitið og boðað verði til kosninga. 

Á versta tíma

Allt eru þetta frekar vondir kostir fyrir ríkisstjórnarflokkana. Fylgi þeirra hefur hrunið á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru frá síðustu kosningum. Allir þrír mælast þeir með minna fylgi en þeir hafa nokkru sinni fengið í kosningum. Verst er staðan hjá Vinstri grænum, flokki forsætisráðherrans. Hann mælist minnsti flokkurinn á þingi, hefur tapað rúmlega helmingi fylgis síns og er slefar rétt svo inn á þing samkvæmt síðustu könnun Gallup, þar sem fylgið mælist 5,7 prósent.

Stjórnin, sem hefur nú 38 þingmenn, gæti átt von á því að ef kosningar færu eins og kannanir benda til þá fengi hún samanlagt 22 þingmenn. Það eru jafnmargir þingmenn og Samfylkingin gæti vænst að fá, en fylgi hennar hefur þrefaldast frá síðustu kosningum. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna hefur farið úr því að vera 54,3 prósent í kosningunum í september 2021 í að vera 34,2 prósent. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist á svipuðum stað, um 35 prósent.

Ef Bjarni færir sig til innan ríkisstjórnarinnar þá mun það tæplega auka vinsældir hennar og færa andstæðingum á þingi fleiri vopn í hendurnar. Ef Bjarni hættir alveg fer stór hluti af líminu sem heldur ríkisstjórninni saman. Ef boðað verður til kosninga verða allir stjórnarflokkarnir í mikilli brekku og standa auk þess frammi fyrir því að óvissa er um það hvort helstu forvígismenn þeirra leggi í þann slag. Ofan á fylgiskreppu gætu komið innanflokksátök um völd. 

Síðasti dansinn

Það hefur lengi verið pískrað um það að Bjarni gæti hætt á þessu kjörtímabili. Við síðustu ríkisstjórnarmyndun fengu ýmsir sem komu að henni úr röðum Vinstri grænna og Framsóknarflokks á tilfinninguna að Bjarni væri að fara að stíga sinn síðasta dans í pólitík. 

Það sem flestir viðmælendur Heimildarinnar töldu að væri framundan var að á einhverjum tímapunkti á yfirstandandi kjörtímabili myndi Bjarni skipta um ráðuneyti við Þórdísi, sem settist í utanríkisráðuneytið eftir síðustu kosningar. Þar var þó ekki gert ráð fyrir að það myndi gerast við þær aðstæður sem nú eru uppi. 

Innan Sjálfstæðisflokksins héldu margir að þessi vistaskipti myndu eiga sér stað í aðdraganda landsfundar flokksins sem fram fór haustið 2022. Hugmyndin var þá að Bjarni myndi hætta sem formaður samhliða og styðja Þórdísi, varaformann sinn, sem sinn eftirmann. Af því varð ekki. 

Ætlaði að hætta ef hann tapaði fyrir Guðlaugi Þór

Þess í stað þurfti Bjarni að heyja erfiða baráttu við Guðlaug Þór Þórðarson um formannsstólinn. Guðlaugur Þór sagði, þegar hann tilkynnti um framboð sitt, að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki „að vera stærsti flokk­ur­inn, hann á alltaf að vera langstærsti flokk­ur­inn.“ Þar vísaði hann í að í formannstíð Bjarna hafði fylgi flokksins hríðfallið og hann aldrei náð yfir 30 prósent atkvæða í kosningum. Raunar er það svo að Bjarni hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum fimm af sex verstu kosninganiðurstöðum sem hann hefur fengið í sögunni. 

Á móti benda stuðningsmenn Bjarna á að flokkurinn hafi verið sleitulaust í ríkisstjórn í rúmlega tíu ár og að það pólitíska landslag sem Bjarni hefur þurft að takast á við, þar sem flokkarnir sem sækjast eftir atkvæðum landsmanna eru níu, sé allt annað en landslagið var í gamla daga, þegar fjórflokkurinn fékk oftast nær þorra allra greiddra atkvæða og tveggja flokka stjórnir voru normið. Þrátt fyrir erfiða stöðu í könnunum í aðdraganda nær allra kosninga sem Bjarni hafi komið flokknum í gegnum þá hefði tekist að hífa fylgið nægilega mikið upp á lokametrunum til að það væri nær óyfirstíganlegt púsluspil að mynda ríkisstjórn án hans. 

Bjarni sagði að hann myndi hætta í stjórnmálum ef hann tapaði fyrir Guðlaugi Þór. Af því varð ekki. Bjarni fékk tæplega 60 prósent atkvæða en Guðlaugur Þór um 40 prósent. 

Sá enga ástæðu til að hætta fyrir ári

Þegar rykið fór að setjast eftir innanhúserjurnar fór Bjarni í viðtal við tímaritið Þjóðmál. Þar var hann spurður út í framtíð sína í stjórnmálum. Hann svaraði því til að á meðan að hann brenni fyrir verk­efnum sínum og þeim breyt­ingum sem hann vill sjá verða sé engin ástæða til að hætta. „Ég fékk góða kosn­ingu á síð­asta lands­fundi og ég hef haft þá reglu að setja verk­efni mín á hverjum tíma í for­gang og hleypa ekki hugs­unum um annað að. Ég held að um leið og ég færi að velta því fyrir mér hversu lengi ég ætl­aði að vera eða hvort ég ætti að fara að hætta og fara að gera eitt­hvað ann­að, þá fjar­aði kraft­ur­inn út í öll því sem ég er að gera í dag. Það er enn margt sem mig langar til að koma í fram­kvæmd og ég ætla því að geyma mér allar vanga­veltur um það hversu lengi ég held áfram.“

Á þessum tíma, fyrir ári síðan, hafði Ríkisendurskoðun enn ekki skilað skýrslu sinni um söluferlið á Íslandsbanka. Hún var ekki ekki gerð opinber fyrr en rúmum mánuði síðar. Í henni var felldur áfellisdómur yfir Bankasýslu ríkisins og söluferlinu almennt. Málið fór svo til umfjöllunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem minnihluti nefndarinnar vildi skoða sérstaklega sölu á hlut í Íslandsbanka til föður Bjarna. Meirihlutinn í nefndinni, skipaður stjórnarþingmönnum, felldi tillögu þess efnis. 

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skilaði áliti sínu á skýrslu Ríkisendurskoðunar í lok febrúar. Hún klofnaði í afstöðu sinni eftir víglínu stjórnar og stjórnarandstöðu. Umboðsmaður Alþingis, sem tekur mál ekki til athugunar á meðan að það er til meðferðar hjá öðrum eftirlitsembættum, hóf í kjölfarið skoðun sína á hæfi Bjarna til að taka ákvörðun um sölu á hlut í ríkisbanka til félags í eigu föður síns með bréfi sem hann sendi Bjarna 3. mars 2023. 

Skoðun sem endaði með afsögn Bjarna í dag.

Kjósa
62
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Sigmundur Guðmundsson skrifaði
    *************************************************************************
    Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra seldi föður sínum hlut
    í ríkisbanka.

    Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.

    Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka menn í forsvari.

    "Ef þetta er fjármálaráðherrann þeirra, hvernig eru þá hinir ?"

    Bjarni Ben. hagar sér eins og óuppalinn dekurkrakki í nammibúð
    *************************************************************************
    0
  • Stefán Ólafsson skrifaði
    Góð greining!
    0
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Þó fyrr hefði verið!
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Afsögn Bjarna Ben

Katrín svarar því ekki hvort hún hafi hvatt Bjarna til að sitja áfram í ríkisstjórn
FréttirAfsögn Bjarna Ben

Katrín svar­ar því ekki hvort hún hafi hvatt Bjarna til að sitja áfram í rík­is­stjórn

For­sæt­is­ráð­herra tel­ur langt í land með að hægt verði að ræða frek­ari banka­sölu, ólíkt frá­far­andi fjár­mála­ráð­herra sem til­tók það sem sér­stakt verk­efni nýs fjár­mála­ráð­herra, á blaða­manna­fundi formanna stjórn­ar­flokk­anna í morg­un. Stjórn­ar­flokk­arn­ir sömdu um vopna­hlé eft­ir skær­u­sum­ar á Þing­völl­um í gær.
„Ég ætti í reynd ekki annan valkost en að sitja áfram við ríkisstjórnarborðið“
FréttirAfsögn Bjarna Ben

„Ég ætti í reynd ekki ann­an val­kost en að sitja áfram við rík­is­stjórn­ar­borð­ið“

Bjarni Bene­dikts­son frá­far­andi fjár­mála­ráð­herra tel­ur að hann hafi ekki getað ann­að en að sitja áfram við rík­is­stjórn­ar­borð­ið, þrátt fyr­ir að hafa sagt af sér embætti fjár­mála­ráð­herra. Með því að taka sæti ut­an­rík­is­ráð­herra seg­ist hann vilja auka póli­tísk­an stöð­ug­leika, sem sé for­senda þess efna­hags­lega.
Að selja banka í góðri trú og armslengd
GreiningAfsögn Bjarna Ben

Að selja banka í góðri trú og arms­lengd

Álit um­boðs­manns Al­þing­is, sem sagði Bjarna Bene­dikts­son van­hæf­an til að selja föð­ur sín­um hlut í Ís­lands­banka, ef­ast ekki um stað­hæf­ing­ar Bjarna um „hreina sam­visku“ eða góða trú. Það snýr að því að Bjarni hafi ekki gætt að hæfi sínu með því að leyfa sér að taka áhættu um hvort hann væri að selja föð­ur sín­um hlut í banka eða ekki þeg­ar hann kvitt­aði und­ir söl­una.
Armslengd frá stjórnarkreppu
GreiningAfsögn Bjarna Ben

Arms­lengd frá stjórn­ar­kreppu

Af­sögn Bjarna Bene­dikts­son­ar hef­ur leitt af sér glund­roða inn­an rík­is­stjórn­ar Ís­lands. Nú eru for­menn­irn­ir í kappi við tím­ann við að finna ein­hverja lausn. Sú lausn þarf að taka mið af þeim raun­veru­leika að Bjarni vill hætta í stjórn­mál­um. Hann er bú­inn með sín níu líf á því sviði, en er þó op­inn fyr­ir að stiga burt á ann­an hátt til að lág­marka skað­ann fyr­ir rík­is­stjórn­ar­sam­starf­ið og Sjálf­stæð­is­flokk­inn.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár