Ég verð að segja, svona fyrsta kastið, mér er brugðið við að lesa þessa niðurstöðu,“ sagði Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í morgun þar sem hann tilkynnti um afsögn sína sem fjármála- og efnahagsráðherra. Það gerir hann í ljósi álits umboðsmanns alþingis þar sem fram kemur að Bjarni hafi verið vanhæfur til að selja föður sínum, Benedikt Sveinssyni, hlut í Íslandsbanka á síðasta ári.
Hér að neðan eru helstu orðin – og þau stærstu – sem Bjarni lét falla á blaðamannafundinum.
„Ég er miður mín eftir að hafa séð þá niðurstöðu að mér hafi brostið hæfi við mína ákvörðunartöku.“
„Ég hef algjörlega hreina samvisku í þessu máli. Algjörlega hreina samvisku.“
„Mér finnst margt í þessu áliti orka tvímælis.“
„Stundum er sagt að lítil þúfa velti þungu hlassi. Og í þessu tilviki snýst málið um þátttöku eins aðila í seinasta útboði.“
„Það er óumdeilt að ég hafði ekki upplýsingar, í þessu máli, um þátttöku þessa félags.“
„Hafandi sagt þetta þá vil ég taka af allan vafa um það, að ég tel mikilvægt að virða álit umboðsmanns alþingis.“
„Þetta segi ég fullum fetum þótt ég hafi á álitinu mínar skoðanir.“
„Og álitið er að mér hafi brostið hæfi í málinu. Þessa niðurstöðu hyggst ég virða. Og ég tel í ljósi þessarar niðurstöðu að mér sé í reynd ókleift að starfa hér áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra.“
„Ég tel sömuleiðis mjög mikilvægt að það sé skapaður friður um þau mikilvægu verkefni sem eru hér í þessu ráðuneyti.“
„Það er af þessari ástæðu sem að ég hef ákveðið að láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra.“
„Ég er sömuleiðis með þessari ákvörðun minni að undirstrika að völdum fylgir ábyrgð.“
„Það hefur ekkert annað verið ákveðið þessari stundu“ – spurður hvort hann verði áfram formaður Sjálfstæðisflokksins.
„Það er ekki alveg gott að segja á þessari stundu“ – spurður um hvaða þýðingu ákvörðunin hafi fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. „Stundum verður maður bara að taka ákvarðanir, eina í einu.“
„Ég hef algjöra sannfæringu fyrir því að það sé þörf í okkar samfélagi fyrir að menn standi vörð um ákveðin gildi.“
„Þegar maður er kominn í þá stöðu að manni er í raun og veru ókleift að sinna verkefnum sínum þá verður maður að horfast í augu við það.“
„Ég hef enga skyldu til að bera sérstaka virðingu fyrir hugmyndafræðilegum skoðunum pólitískra andstæðinga. En við erum að tala um mál af öðrum toga hér.“ – Um hvers vegna hann sé að segja af sér núna í ljósi þess að hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir störf sín.
„Já, ég myndi segja það.“ – um hvort að þetta sé alvarlegasta gagnrýni sem hann hafi orðið fyrir
„Engin ákvörðun verið tekin um það“ – Spurður hvort hann taki við öðru ráðuneyti
„Við erum þrjú oddvitar í ríkisstjórninni og berum ábyrgð á stjórnarsáttmálanum. Ég hef skynjað mikinn vilja til þess að halda verkefnunum lifandi en það verður auðvitað að meta það, meta hvort það er raunhæft. Maður verður að horfast í augu við pólitískan veruleika.“
„100 prósent“ – Spurður hvort að frumkvæðið að afsögninni komi frá honum alfarið.
„Ég tel að þetta sé rétt niðurstaða. Fyrir þetta ráðuneyti. Fyrir mig. Fyrir flokkinn minn. Og ef því er að skipta fyrir ríkisstjórnina. Og ég tek hana alveg án tillit til þess hvernig úr því mun spilast.“
„Þetta er vegna þess skugga sem varpað er yfir ráðuneytið og mín störf hér í ráðuneytinu í þessu tiltekna máli. Út af þessum einstaka kaupanda af þeim 24 þúsund sem hafa tekið þátt í útboðunum.“
„Ég er ósammála þeim forsendum sem eru lagðar hér til grundvallar. En ég send fyrir þau gildi í mínum stjórnmálum að virða svona niðurstöðu.“ – Spurður um hvort hann sé sammála því að hann hafi gert mistök.
„Ég ætla nú ekki að fara að taka þátt í því að fella slíka dóma um föður minn“ – Um hvort það hafi verið dómgreindarbrestur af föður hans að taka þátt í útboðinu. „Ég hef áður sagt að það hefði á alla kanta verið heppilegra að ... hérna ... hann hefði sleppt þessu.“
„Það sem fer okkar í milli er ekki efni í fjölmiðla held ég“ – Spurður hvort hann væri búinn að greina föður sínum frá ákvörðun sinni.
Sagði siðblindi arðræningi þjóðarinnar og foringi stærstu skipulögðu glæpasamtaka Íslands, sjálfstæðisflokksins bjarN1 benediktsson.
Og talandi um samvisku, þá hafa siðblint fólk ENGA samvisku, samkennd né samúð með öðrum og myndu ekki vita hvað samviska væri þótt hún klessti á þau í andlitið á hundra klómetra hraða á klukkustund.
Samviska er bara orð sem þau hafa lært alveg eins og að læra að brosa á réttu augnabliki.