Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) telur samráð Eimskips og Samskipa, eins og því er lýst í málsgögnum Samkeppniseftirlitsins sem birt voru nýverið, vera til marks um sjúklegt hugarfar spillingar og græðgi. „Algjört virðingarleysi stjórnenda þessara fyrirtækja fyrir samkeppnislögum og hagsmunum almennings er enn ein staðfesting þess að íslenskt viðskipta- og fjármálalíf glímir við djúpstæðan siðferðisvanda sem stöðugt grefur undan trausti í samfélaginu.“
Þetta kemur fram í ályktun sem miðstjórnin samþykkti í dag.
Þar er framganga stjórnenda Eimskips og Samskipa í málinu fordæmd og sagt að hún hafi falið í sér stórfellt verðsamráð og var í raun samsæri gegn almenningi í landinu. „Engum blöðum er um að fletta að þessi ólögmæta og siðlausa framkoma hækkaði innflutningskostnað íslenskra fyrirtækja sem venju samkvæmt veltu auknum kostnaði út í verðlag. Þannig var það almenningur í landinu sem greiddi kostnaðinn við samráð þessara fyrirtækja. Það er að sönnu nöturlegt að það verður sami almenningur sem greiða mun sektina sem lögð var á Samskip, 4,2 milljarða króna, þar sem fyrirtækið mun nú þurfa að bæta sér upp „tapið” og venju samkvæmt verður það ekki gert með lægri arðsemiskröfum, lækkun ofurlauna eða uppsögnum þeirra sem skipulögðu samsærið og ollu tjóninu.“
Á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls
Samkeppniseftirlitið birti niðurstöðu sína í lok síðustu viku. Þar var áðurnefnd metsekt lögð á Samskip en Eimskip hafði áður, sumarið 2021, játað samráðið og greitt 1,5 milljarða króna í sekt.
Umrætt samráð stóð að mestu yfir á árunum 2008 til 2013, eða þar til eftirlitið hóf rannsókn og réðst í húsleitir vegna hennar. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er að Samskip hafi brotið með alvarlegum hætti gegn samkeppnislögum og EES-samningsins með ólögmætu samráði við Eimskip og sömuleiðis brotið gegn samkeppnislögum við rannsókn málsins með rangri, villandi og ófullnægjandi upplýsingagjöf og gagnaafhendingu. Í henni kemur fram að að stjórnendur fyrirtækjanna tveggja og undirmenn þeirra hafi í sameiningu unnið að hækkunum á gjaldskrá, hækkun gagnvart mikilvægum viðskiptavinum, lækkun og niðurfellingu afslátta, hækkun á gjöldum og upptöku nýrra gjalda.
„Sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna sköpuðu kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
Samskip hafa þegar sagt að fyrirtækið muni ekki una ákvörðun eftirlitsins og talsmenn þess hafa véfengt sáttina sem Eimskip gerði og gefið til kynna að um falska játningu sé að ræða.
Svartur blettur á viðskiptalífinu
Í ályktun miðstjórnar ASÍ er einnig bent á að siðleysi samráðs og græðgi setji svartan blett á íslenskt viðskiptalíf og þar með á fyrirtæki sem aldrei hafa beitt svo ósvífnum vinnubrögðum.
Samfélagslegi skaðinn sé ekki síst fólginn í því trausti sem glatast og þeim grunsemdum sem vakna þegar upplýst er um athæfi sem þetta. „Sú spurning er áleitin hvernig forystufólk í íslensku viðskipta- og atvinnulífi bregst við þessum nýjasta áfellisdómi. Tæpast verður því trúað að það hyggist leiða hjá sér þetta síðasta högg sem trúverðugleiki þess hefur orðið fyrir.“
Athugasemdir