Þessi grein birtist fyrir rúmlega 9 mánuðum.

Sagðist hata forstjórann sem hann átti í ólöglegu samráði við

„Það er svona hat­ur meira held­ur en eitt­hvað ann­að sko,“ sagði Gylfi Sig­fús­son, þá­ver­andi for­stjóri Eim­skips þeg­ar Sam­keppnis­eft­ir­lit­ið spurði hann um tengsl hans við Ás­björn Gísla­son, þá­ver­andi for­stjóra Sam­skipa. Samt höfðu þeir fé­lag­ar spil­að sam­an golf, veitt, far­ið í skemmti­ferð­ir til út­landa og Gylfi jafn­vel „man­að“ Ás­björn til þess að mæta á fjöltefli. Sam­keppnis­eft­ir­lit­ið lagði hæstu sekt sína frá upp­hafi á Sam­skip í gær vegna ólög­mæts sam­ráðs fyr­ir­tækj­anna tveggja.

Sagðist hata forstjórann sem hann átti í ólöglegu samráði við
Nánir Helstu persónur og leikendur í samráðsmáli Samskips og Eimskipa. Samstarf þeirra kostaði fyrirtækin alls tæpa sex milljarða króna. Mynd: Heimildin / Davíð Þór

Árið 2008 stóð flutningafyrirtækið Samskip, sem þáverandi forstjóri þess talaði um sem „cash cow“ eða peningavél, frammi fyrir tveimur valkostum til þess að verja stöðu fyrirtækisins: fara í „herferð“ gegn eða með sínum langstærsta samkeppnisaðila, Eimskip. Hið síðarnefnda varð fyrir valinu. Það var ekki kallað „ólöglegt samráð“ sem það í rauninni var, heldur hinu snyrtilega heiti „Nýtt upphaf“. 

Það var nýja upphafið sem lagði drögin að því að stórkarlarnir tveir á markaði urðu að risa með tvö, en ákaflega samstillt, höfuð. Samanlagt voru fyrirtækin í „yfirburðastöðu“ á mörkuðum sem tengjast landflutningum og sjóflutningum til og frá Íslandi, samkvæmt Samkeppniseftirlitinu.

Þó að ólöglega samráðið hafi fyrir tveimur árum haft afleiðingar, sekt upp á 1,5 milljarð, fyrir Eimskip þá var það ekki fyrr en í gær sem Samkeppniseftirlitið tilkynnti að nú þyrftu Samskip að mæta örlögum sínum: Stærstu sekt sem eftirlitið hefur nokkru sinni lagt á, sekt sem nemur 4,2 milljörðum króna. 

Áratugur er liðinn síðan eftirlitið hóf að rannsaka brot fyrirtækjanna tveggja á samkeppnislögum. En atburðarásin hófst á hrunárinu 2008. Hér verður sagan af nýja upphafinu rakin, en Samkeppniseftirlitið gaf út nákvæma lýsingu á atburðum, brotum og afleiðingum þeirra í 15 bindum í gær. Um er að ræða þúsundir blaðsíðna af efni. 

Ólafur vildi ekki sýna veikleikamerki

Þegar sagan hófst var Ólafur Ólafsson einn aðaleigandi Samskipa. Það var ekki hans eina hlutverk enda var hann einnig aðaleigandi Kaupþings, banka sem riðaði til falls í kjölfar bankahrunsins, og fjárfestingafélagsins Kjalar ásamt því að vera stjórnarformaður Samskipa Holding í Hollandi. 

Þó að rekstur Samskipa á Íslandi hafi gengið mjög vel á fyrri hluta ársins árið 2008 stóðu Ólafur og Samskip Holding ekki jafn vel fjárhagslega. 

„Annars vegar vegna krafna helsta lánveitanda Samskipa Holding, Fortis banka, og hins vegar vegna krafna Citibank (endurtekinna veðkalla), sem hafði veitt fjárfestingarfélagi [Ólafs] lán til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf., um að lagðar yrðu fram tryggingar vegna hríðlækkandi gengis hlutabréfa í bankanum,“ segir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. 

Ólafur ÓlafssonTalaði um Samskip á Íslandi sem „cash cow“, þar eð að segja mjólkurkú eða peningavél, fyrir Samskip Holding.

Þar kemur jafnframt fram að það hafi verið þýðingarmikið fyrir Ólaf að á honum sæjust engin veikleikamerki þar sem að hætt var við því að það hefði neikvæð áhrif á stöðu hans ef það spyrðist út að rekstarfélag í hans eigu, Samskip Holding, ætti í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum.

Mjólkurkú, peningavél eða gullkálfurÞessi mynd af kú fylgdi tölvupósti sem þáverandi framkvæmdastjóri millilandasviðs sendi á aðra stjórnendur árið 2010. Í tölvupóstinum sagði einfaldlega: „The cash cow has arrived“.

Kallaði Samskip „Cash Cow“

Það var í marsmánuði sem Ólafur gaf út fyrirmæli til stjórnarmanna og lykilstjórnenda um að grípa til aðgerða til þess að „vernda og efla stöðu Samskipa á Íslandi sem „Cash Cow“ fyrir Samskipasamstæðuna.“ 

Cash cow þýðist sem peningavél upp á íslenskuna, það er að segja fyrirtæki sem er stöðugt arðbært og hagnaður þess er notaður til þess að fjármagna fjárfestingar þess á öðrum sviðum. 

Af þessari sýn leiddi það að Ásbjörn Gíslason, þáverandi forstjóri Samskipa, fékk fyrirmæli um að tryggja og auka fjárflæði frá hinum íslensku Samskipum til Samskipa Holding. 

Sat áfram þrátt fyrir brotinÁsbjörn Gíslason hætti sem forstjóri Samskipa í fyrra eftir 27 ár í starfi.

Það var ekki bara Ólafur sem var í fjárhagslegri klípu því blikur voru á lofti vegna versnandi efnahagshorfa sem stjórnendur Samskipa gerðu ráð fyrir að myndu hafa neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins. Margir mikilvægir viðskiptavinir fyrirtækisins voru með lausa viðskiptasamninga og taldi fyrirtækið það „ógn“ og að verðstríð við Eimskip gæti brotist út.

Aukið samstarf við Eimskip varð því að mikilvægum þætti í að efla stöðu Samskipa á Íslandi sem peningavél fyrir Samskipasamstæðuna. Með samstarfinu sáu Samskip fram á að vinna gegn því að hugsanlegur samdráttur í spurn eftir flutningaþjónustu myndi leiða til aukinnar samkeppni og lækkunar á verði á flutningamarkaði. Því ef það gerðist myndi það rýra stöðu Samskipa á Íslandi sem peningavélar fyrir Samskipasamstæðuna.

„The cash cow has arrived“
Pálmar Óli Magnússon
þáverandi framkvæmdastjóri millilandasviðs Samskipa

Hugsuðu um herferð gegn Eimskipi

En þó að Samskip og Eimskip hafi farið að slá sér saman þarna 2008 var sambandið, eins og sambönd gjarnan eru á fyrstu stigum, nokkuð brothætt í byrjun. Þegar Atlantsskip, annar samkeppnisaðili, hætti rekstri um vorið, kepptust Samskip og Eimskip um athygli þessa þriðja aðila. 

Bæði fyrirtækin vildu taka að sér sjóflutninga sem Atlantsskip gátu ekki lengur sinnt. Eimskip vann þann slag og olli það verulegri óánægju hjá stjórnendum Samskipa á Íslandi. Í maímánuði veltu þeir því fyrir sér að fara í „herferð“ gegn Eimskipi og að „sækja sterkt“ á mikilvæga viðskiptavini þess fyrirtækis. 

Tvennt var því til skoðunar hjá stjórnendum Samskipa til þess að verja stöðu fyrirtækisins. 

„Annars vegar samvinna við Eimskip og hins vegar samkeppni við Eimskip,“ segir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. 

Bónus fyrir samráð

Það voru ekki bara Samskip sem sáu fram á erfiða tíma í rekstrinum. Eimskip átti í miklum fjárhagslegum erfiðleikum árið 2008. Og nýr stjórnarformaður, Sindri Sindrason, hafði persónulegra hagsmuna að gæta vegna reksturs Eimskips. 

Stjórnarformaður EimskipsSindri Sindrason hafði persónulegra hagsmuna að gæta vegna reksturs Eimskips, segir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins.

Fyrir forstjóra fyrirtækjanna tveggja – Gylfa Sigfússon hjá Eimskipi og Ásbjörn Gíslason hjá Samskipum – voru jafnframt fjármunir í húfi. Ólafur Ólafsson stjórnarformaður Samskipa hvatti Ásbjörn áfram með loforði um verulega bónusgreiðslu til þess að beita sér í samráðinu við Eimskip. Gylfi fékk jafnframt bónussamning frá Eimskipi og átti umbun hans meðal annars að ráðast af framgangi þátta sem féllu undir samráð fyrirtækjanna. 

„Verkefnið samstarf“ varð „verkefnið hagkvæmni“

Gylfi tók við forstjórastarfinu í maí árið 2008 en skömmu eftir það „lagði hann áherslu á að sem fyrst yrðu hafnar viðræður við Samskip um Norður-Ameríkuflutninga“. 

Hann var ekki lengi að hefja viðræður við Samskip því æðstu stjórnendur fyrirtækjanna hittust á hádegisfundi í húsnæði fjárfestingafélags stjórnarformanns Samskipa þann 6. júní. 

Í aðdraganda fundarins, 5. júní, átti Gylfi hjá Eimskipi fund um „samkeppnismál“ og á verkefnalista hans þann daginn var „Nýtt upphaf“. Þá kallaði Ásbjörn hjá Samskipum ítrekað eftir upplýsingum um rekstur og áætlanir Samskipa. Hann sagði undirmönnum að það væri vegna stjórnarfundar og hélt fundinum með Eimskipi þannig leyndum. 

Gylfi SigfússonVar forstjóri Eimskips frá 2008 til 2018.

Um kvöldið 5. júní sendi Ólafur, stjórnarformaður Samskipa, Ásbirni forstjóra skýrslu um mögulega samvinnu Samskipa við dótturfélag Eimskips. Skýrslan lýsti verulegum ábata af mögulegu auknu samstarfi Samskipa við Eimskip í siglingum til og frá Íslandi. 

6. júní fór fundurinn fram en tveimur dögum síðar, sunnudaginn 8. júní, vistaði framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips glærukynninguna „verkefnið samstarf“. Eitthvað hefur hann verið tvístígandi með titilinn því um kvöldið breytti hann heiti skrárinnar í: „verkefnið hagkvæmni“. Titill kynningarinnar er eflaust orðinn lesendum kunnuglegur: „Nýtt upphaf júní 2008 Trúnaðarmál“. 

Glærusýningin innihélt fimmtán glærur um verkefni sem sneri að því að „auka samstarf“ á milli Samskipa og Eimskips. Morguninn eftir að framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips stofnaði kynninguna vistaði forstjóri fyrirtækisins hana undir heitinu „verkefnið nytt upphaf.“

Samstarf eða samráðÚr glærukynningu vegna Nýs upphafs.

Í hinu nýja upphafi fólst mat fyrirtækjanna á ábata aukins samstarfs í grundvallarþáttum í starfsemi þeirra beggja. Þau stofnuðu sérstakan vinnuhóp til þess að „taka þessi verkefni áfram“. 

Stjórnendur fyrirtækjanna og undirmenn unnu í kjölfarið að undirbúningi að hækkunum á gjaldskrá, hækkun gagnvart mikilvægum viðskiptavinum, lækkun eða niðurfellingu afslátta, hækkun á gjöldum og upptöku nýrra gjalda. 

Fundað á sögulegum staðÁ þessu kaffihúsi, Mokka Kaffi, funduðu stjórnendur fyrirtækjanna um samstarfið.

Drög lögð að lögbrotum á Mokka

Stjórnendurnir funduðu ítrekað þetta sumar, meðal annars á einu af elstu kaffihúsum Reykjavíkur, kaffihúsinu Mokka Kaffi á Skólavörðustíg. Á föstudegi yfir tíu dropum, og mögulega einhverju með þeim, ætlar Samkeppniseftirlitið að stjórnendur fyrirtækjanna hafi rætt ólögmætt samráð í formi aukins samstarfs í landflutningum. 

Strax eftir helgi fóru fyrirtækin bæði að undirbúa verðhækkanir og hækkuðu verð á landflutningum í ágúst. 

Ekki nokkrar áhyggjur af samkeppni

Í þeim mánuði spjölluðu stjórnendur innan fyrirtækjanna reglulega saman. Í tengslum við fundi þeirra hækkuðu gjarnan verð á þjónustu. 

Sama dag og þáverandi framkvæmdastjórar innanlandssviða fyrirtækjanna funduðu hækkaði Eimskip verð fyrir innanlandsflutning og þjónustugjöld innanlands um tæp 10%. 

Daginn eftir að þáverandi forstöðumenn innflutningssviða fyrirtækjanna ræddu saman í síma tilkynntu Samskip verulega hækkun á verði fyrir sjóflutningaþjónustu en hún tók gildi fyrsta september 2008. Sama dag tók veruleg verðhækkun á landflutningum gildi hjá Samskipum.

Samkeppniseftirlitið segir engin gögn benda til þess að helstu stjórnendur Samskipa hafi haft áhyggjur af því að Eimskip myndi bregðast við verðhækkuninni með samkeppni. 

„Ljóst að stjórnendur Samskipa höfðu ekki nokkrar áhyggjur af því að Eimskip myndi reyna að ná til sín óánægðum viðskiptavinum,“ segir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. 

Í byrjun september funduðu fyrirtækin til þess að fara yfir hækkanirnar. 

„Fundur boðaður með Samskip á fimmtudag til að fara yfir hækkanir,“ var haft eftir forstöðumanni innflutningssviðs Eimskips í fundargerð. „Er að fara að boða fund með Nathan [má ætla að hér sé átt við sölufyrirtækið Nathan & Olsen] og fara yfir hækkanir með þeim. Einnig að hitta Innnes aftur vegna samnings þeirra sem er laus núna, verðum að ná inn hækkun á þann samning. Samskip var að hækka gjaldskrá sína í vikunni. Mikil gjaldskráhækkun frá og með 1. sept“. 

Forstjóri Samskipa hringdi beint í Eimskip þegar eftirlitið mætti

Brot Samskipa og Eimskips héldu áfram á næstu árum og nær rannsókn Samkeppniseftirlitsins til ársins 2013. Þann 10. september það ár fór Samkeppniseftirlitið í húsleitir hjá báðum fyrirtækjum. Þær fóru af stað samtímis báðum megin, klukkan níu um morgun. 

„Mjög stuttu“ eftir að húsleitirnar fóru af stað hringdi Ásbjörn hjá Samskipum í framkvæmdastjóra sölu og þjónustu hjá Eimskip. En Gylfi hjá Eimskipi var erlendis þennan dag. 

„Voru það þannig ein af fyrstu viðbrögðum [Ásbjarnar] við húsleit Samkeppniseftirlitsins að hringja til eins af æðstu stjórnendum Eimskips,“ segir í skýrslu eftirlitsins sem dregur þá ályktun að Ásbjörn hafi gert það til þess að vara Eimskip við. En hann var of seinn. Eftirlitið var líka mætt til Eimskips. 

„Voru það þannig ein af fyrstu viðbrögðum [Ásbjarnar] við húsleit Samkeppniseftirlitsins að hringja til eins af æðstu stjórnendum Eimskips,“
Úr skýrslu Samkeppniseftirlitsins

Þennan sama dag spurði eftirlitið Ásbjörn út í samskipti hans við forstjóra Eimskips. Hann sagðist ekki eiga nein vinnutengd eða persónuleg samskipti við forstjóra Eimskips ef frá væri talin seta í stjórn Viðskiptaráðs og einhvern samgang í Bandaríkjunum „fyrir mörgum mörgum árum.“

Gylfi hjá Eimskip tók enn dýpra í árinni þegar Samkeppniseftirlitið spurði hann um tengsl hans við Ásbjörn. 

„Engin samskipti á milli okkar, það er svona hatur meira heldur en eitthvað annað sko,“ sagði Gylfi og bætti því við að honum „liði illa í návist“ starfsmanna Samskipa, að hann forðaðist öll samskipti við þá og færi aldrei í veiðiferð ef Ásbjörn eða aðrir stjórnendur Samskipa væru með í för. 

Gylfi manaði Ásbjörn í fjöltefli

Það hefði þó varla getað verið fjær sannleikanum. Mennirnir þekktust vel strax árið 2008 en þegar Gylfi var ráðinn til Eimskips lýsti Ásbjörn því yfir við lykilstjórnendur hjá Samskipum Holding að þeir þekktust vel. 

„I know [Gylfi] well through the years… we discuss futher [svo] when we meet in russia...“ sagði hann. Ásbjörn sendi jafnframt tölvupóst til Ólafs Ólafssonar og stjórnarformanns Samskipa vegna fréttar um ráðningu Gylfa og boðaði að breytingar myndu fylgja forstjóratíð hans hjá Eimskip; „mýktin að verða meiri, og dregur úr hörkunni“. 

Og á árunum sem fylgdu, brotaárunum fimm, voru forstjórarnir hluti af 12 manna hópi sem lék saman golf, fór í skemmtiferðir til útlanda og veiðiferðir. Hópurinn hélt 15 golfmót á tímabilinu og forstjórarnir fóru með honum til Bretlands árið 2010 og Danmerkur 2011. Þeir voru svo miklir vinir að „[Gylfi] „manaði“ [Ásbjörn] til þess að mæta á fjöltefli í janúar 2012.“ 

Eimskip viðurkenndi sinn hluta

Rannsókn á brotum Eimskips lauk í júní árið 2021 með sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið. Eimskip viðurkenndi að hafa brotið samkeppnislög, greiddi sekt upp á 1,5 milljarð króna, og samþykkti að grípa til aðgerða til þess að vinna gegn frekari brotum. 

Samskip óskuðu eftir sáttaviðræðum þegar stjórnendur þess fyrirtækis áttuðu sig á því að Eimskip ætti í slíkum viðræðum við eftirlitið. Sáttaviðræðum Samskipa og eftirlitsins var þó slitið sumarið 2021 vegna þess að eftirlitið taldi að þær myndu ekki skila fullnægjandi niðurstöðu. 

En nú er niðurstaðan skýr. Hæsta sekt frá upphafi bíður þess að vera greidd af Samskipum. Litlir 4,2 milljarðar króna.

Hér geta lesendur lesið þúsundir blaðsíðna um málið en umfjöllunin hér að ofan er að mestu unnin upp úr fyrsta bindi af fimmtán. 

Kjósa
40
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • ADA
    Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
    Eitt bananamálið enn. Einkennilegt að ákveðnir menn hafa ekkert skemmtilegra að ræða í matarboðum og golfferðum en þetta: hvernig hægt er að ná meiri peningum út úr almenningi, og helst ólöglega. Þetta er nú meiri selskapurinn.
    1
  • Ásgeir Överby skrifaði
    Hvað skyldi almenningur hafa borgað mikið í hærra vöruverði vegna samráðsins?
    1
    • Það er akkurat málið. Það er almenningur sem hefur þurft að blæða fyrir þetta samráð en nú berast fréttir af því að fyrirtækin, viðskiptavinir skipafélaganna, fari framá bætur. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvernig þau ætla að skila þeim bótum til almennings sem eru jú sá sem borgaði brúsann. Ekki bara í hærra vöruverði heldur líka í hærri verðbótum á húsnæðislánum og fl.
      0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Samráð skipafélaga

Samfélagslegt tjón af samráði skipafélaganna metið á 62 milljarða
FréttirSamráð skipafélaga

Sam­fé­lags­legt tjón af sam­ráði skipa­fé­lag­anna met­ið á 62 millj­arða

Kostn­að­ur ís­lensks sam­fé­lags vegna ólög­legs sam­ráðs Eim­skips og Sam­skipa er met­inn 62 millj­arð­ar króna í nýrri grein­ingu Ana­lytica. Stærst­ur hlut­inn er sagð­ur hafa lent á neyt­end­um vegna hærri kostn­að­ar á inn­flutt­um vör­um og þeim sem skulda verð­tryggð lán. „Dýr­keypt og hrika­leg að­för að neyt­end­um,“ seg­ir formað­ur Neyt­enda­sam­tak­anna.
Pálmar neitar að víkja - FME bað um breyttar reglur 2019
FréttirSamráð skipafélaga

Pálm­ar neit­ar að víkja - FME bað um breytt­ar regl­ur 2019

Sú furðu­lega staða er nú uppi í stjórn Líf­eyr­is­sjóðs­ins Birtu að þar sit­ur stjórn­ar­formað­ur sem nýt­ur hvorki stuðn­ings at­vinnu­rek­enda, sem skip­uðu hann í stjórn, eða laun­þega sem skipa hinn helm­ing stjórn­ar­inn­ar. SA seg­ir regl­ur banna að hann verði rek­inn. FME bað um að þeim yrði breytt fyr­ir nokkr­um ár­um, án ár­ang­urs.
SA segist ekki mega reka Pálmar sem neitar að hætta
FréttirSamráð skipafélaga

SA seg­ist ekki mega reka Pálm­ar sem neit­ar að hætta

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins telja sér óheim­ilt að víkja Pálm­ari Óla Magnús­syni full­trúa úr stjórn­ar­for­manns­stóli líf­eyr­is­sjóðs­ins Birtu og hafa ósk­að eft­ir því að FME end­ur­skoði hæfi hans eft­ir að Sam­keppnis­eft­ir­lit­ið lýsti hon­um sem lyk­il­manni í ólög­legu sam­ráði skipa­fé­lag­anna. Pálm­ar hef­ur sjálf­ur neit­að að víkja.
Mútur og samráð í skipaflutningi með dagblaðapappír
FréttirSamráð skipafélaga

Mút­ur og sam­ráð í skipa­flutn­ingi með dag­blaðapapp­ír

Sam­skip er sagt hafa greitt kanadísk­um miðl­ara mút­ur gegn því að dag­blaðapapp­ír fyr­ir ís­lensk fyr­ir­tæki væri flutt­ur með Sam­skip­um. Þetta kem­ur fram í skýrslu Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins um sam­ráð skipa­fé­lag­anna þar sem rak­ið er hvernig greiðsl­un­um var hald­ið leynd­um fyr­ir inn­flytj­end­um hér á landi. Sam­skip og miðl­ar­inn neita.
Lykilmaður í samráði víkur ekki úr stjórn lífeyrissjóðs
FréttirSamráð skipafélaga

Lyk­il­mað­ur í sam­ráði vík­ur ekki úr stjórn líf­eyr­is­sjóðs

Fyrr­ver­andi for­stjóri Sam­skipa, Pálm­ar Óli Magnús­son, sem lýst er sem arki­tekt og lyk­il­manni í sam­ráðs­brot­um fyr­ir­tæk­is­ins í úr­skurði Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins, ætl­ar ekki að víkja úr stjórn­ar­for­manns­stóli eins stærsta líf­eyr­is­sjóðs lands­ins. Hann var skip­að­ur í stjórn nokkr­um dög­um áð­ur en hann var yf­ir­heyrð­ur vegna gruns um lög­brot­in. SA með skip­an hans til skoð­un­ar.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár