„Þær upplýsingar sem fram komu í rannsókn Samkeppniseftirlitsins eru reiðarslag fyrir íslenska neytendur, svik við okkur sem einn stærsta viðskiptavin Eimskipa á þessum tíma, svik við viðskiptavini okkar og afhjúpar viðskiptahætti sem eru okkur algjörlega óskiljanlegir,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í tilkynningu frá félaginu.
Samkeppniseftirlitið lagði á dögunum 4,2 milljarða króna sekt á Eimskip vegna samráðsins. Fyrir tveimur árum gekkst Eimskip undir sátt þar sem viðurkennt var að hafa brotið gegn samkeppnislögum og greiddi sekt upp á 1,5 milljarð.
Í tilkynningu frá Ölgerðinni er bent á að gögnum Samkeppniseftirlitsins komi meðal annars fram að þegar Ölgerðin gerði athugasemdir við verðhækkanir Eimskipa vegna flutningsþjónustu fyrir fyrirtækið árið 2009 og fór í framhaldinu í útboð um flutningana, hafi fyrirtækin tvö ekki aðeins haft samráð um málið, heldur hafi verið lagt fram sýndartilboð og verðið síðan hækkað enn frekar.
Stórfellt fjárhagslegt tjón
„Það er deginum ljósara að samráð skipafélaganna hefur valdið okkur og neytendum verulegum skaða og stórfelldu fjárhagslegu tjóni og við erum að skoða þann möguleika að sækja skaðabætur í ljósi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins,“ segir þar.
Áratugur er liðinn síðan eftirlitið hóf að rannsaka brot fyrirtækjanna tveggja á samkeppnislögum. En atburðarásin hófst á hrunárinu 2008. Samkeppniseftirlitið gaf út nákvæma lýsingu á atburðum, brotum og afleiðingum þeirra í 15 bindum í gær. Um er að ræða þúsundir blaðsíðna af efni.
Samskip gagnrýnir niðurstöðuna
Samskip hafa gagnrýnt harðlega niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfar hennar um að það hafi tekið þau þrettán ár að „teikna upp fullkomlega ranga mynd af rekstri Samskipa og ætluðu samráði við Eimskip“. Þar var því einnig hafnað að forstjórum fyrirtækjanna væri vel til vina en í skýrslunni sagði til að mynda að þeir hefðu tilheyrt sama vinahópi og farið saman í golf og utanlandsferðir.
Athugasemdir