Gabrielle Venora Petito var 22 ára bandarísk kona sem þráði að skapa sér nafn á samfélagsmiðlum. Í sumar ákvað hún að láta drauminn rætast þegar hún lagði upp í ferðalag um Bandaríkin ásamt kærasta sínum, Brian Laundrie. Gabby, eins og hún var gjarnan kölluð, deildi frá ferðalaginu á samfélagsmiðlum, aðallega Instagram og Youtube.
Ferðalagið hófst í júní. Gabby og Brian ferðuðust á hvítum Ford sendiferðabíl sem Gabby átti og ætlaði parið að ferðast um ríki og þjóðgarða í vesturhluta Bandaríkjanna. Gabby var í góðu sambandi við fjölskyldu sína á ferðalaginu en síðustu vikuna í ágúst heyra þau lítið sem ekkert frá henni og SMS-skilaboð sem hún sendi vöktu upp grunsemdir.
Fjölskyldan tilkynnti um hvarf Gabby 11. september. Fimm dögum síðar biðlaði fjölskylda Gabby til fjölskyldu Brians að aðstoða við leitina. Daginn eftir, 17. september, tilkynnti fjölskylda Brians að hann væri einnig horfinn. Lík Gabby finnst tveimur dögum síðar í skógi í Wyoming. Öll spjót beinast að Brian sem lögregla leitar enn.
Frá þúsund fylgjendum í 1,3 milljónir
Málið hefur vakið gríðarlega mikla athygli, ekki síst þar sem Gabby og Brian höfðu leyft fylgjendum að fylgjast með ferðalaginu á samfélagsmiðlum. Gabby var með um 1.000 fylgjendur á Instagram en þegar fregnir bárust af hvarfi hennar stækkaði fylgjendahópurinn ört. Mjög ört. Í dag, tæpum mánuði eftir að lík hennar fannst, eru fylgjendur hennar 1,3 milljónir.
Þessi öra fjölgun er líklega skýrasta dæmið um breyttan veruleika þegar kemur að rannsókn sakamála. Hlaðvörp þar sem fjallað er um sönn sakamál, svokölluð „true crime“-hlaðvörp, njóta gríðarlegra vinsælda og hlaupa á tugum, ef ekki hundruðum. Nú getur líka hver sem er sett sig í spor rannsóknarlögreglu með auknu upplýsingaflæði og leiðum til að miðla efni, ekki síst á samfélagsmiðlum.
Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, segir þessa þróun ekki koma á óvart. „Heilinn á okkur er hannaður til að veita því sem er ógnvænlegt meiri athygli en því sem er gott og jákvætt. Til að forða okkur frá hættu. Við ofmetum hættuna eða líkurnar á því að vera drepin af morðingja eða maka til dæmis. Í ljósi hver við erum sem manneskjur er þessi áhugi ekkert skrýtinn, þetta er bara meira spennandi núna. En fyrir marga er þetta bara spennusaga en þetta gefur okkur meira af því þetta er að gerast núna og þetta er alvöru og því meira spennandi.“
Mál Gabby, að mati Margrétar, uppfyllir flest skilyrði til að vekja athygli almennings. „Þetta er fórnarlamb sem er auðvelt að hafa samúð með, og ég tala nú ekki um að hún er ung, hún er hvít, hún er falleg. Þetta fallega unga hvíta par passar akkúrat inn í það sem fræðin hafa verið að fjalla um og benda á að sé til þess fallið að mál fái mikla athygli. Í þessa sögu vantar bara hetju og þá væri þetta fullkomið, í þeim skilningi að vekja athygli almennings.“
Ýmis gagnrýni hefur komið upp í tengslum við mál Gabby, ekki síst vegna þeirrar miklu athygli sem það hefur fengið. Gagnrýnin snýst m.a. um svokallað „hvítrar konu saknað“-heilkenni þar sem fjölskyldur þeldökkra Bandaríkjamanna gagnrýna athyglina sem mál eins og mál Gabby fá á meðan mál þeldökkra Bandaríkjamanna sem hverfa sporlaust fá litla sem enga athygli. Margrét segir þessa gagnrýni eiga rétt á sér þar sem staðreyndin er sú að þessi mál fá mun minni athygli. „Fatlað fólk, hinsegin og kynsegin fólk og fólk sem er ekki hvítt er líklegra til að vera þolendur ofbeldisglæpa og heimilisofbeldis. En þau mál fá ekki eins mikla athygli því almenningur hefur ekki áhuga.“
„Þetta er það sem við höfum áhuga á“
Aukin athygli yfirstandandi morðrannsókna geta þó haft jákvæðar hliðar. „Lögreglan fær upplýsingar sem hún myndi annars aldrei fá en það verður miklu erfiðara fyrir lögreglu að greiða úr þeim þar sem meirihluta upplýsinganna er ekki hjálplegur,“ segir Margrét. Flækjustigið eykst hins vegar með auknum áhuga. „Það munu miklu fleiri stíga fram sem vitni þegar umfjöllun verður svona mikil en frásagnir vitnanna verða á móti ómarktækari af því að öll umfjöllun sem er í gangi hefur áhrif á hvernig fólk man það sem það sá. Stöðug umfjöllun hefur áhrif á það hvernig við munum atburði sem við sjáum og teljum okkur þess vegna ekki vera að ljúga.“
En er þetta hættuleg þróun?
„Fyrir fjölskyldur þolenda og gerenda held ég að þetta sé slæmt af því að friðhelgi einkalífs þeirra er ekki virt,“ segir Margrét. Þá bendir hún á að það sé ekki gott fyrir fólk að einblína frekar á hættur og hið neikvæða í umhverfinu frekar en hið jákvæða. Hvað umfjöllun fjölmiðla um rannsókn yfirstandandi morðmála segir Margrét að það sé undir miðlunum sjálfum komið hvernig fjallað er um málin. „Það fer eftir þeirra eigin siðareglum hvert þeir vilja fara. En við verðum að gera okkur grein fyrir að í huga almennings er þetta afþreying.“
Sakamálahlaðvörp, heimildamyndir og ýmsar frásagnir á samfélagsmiðlum eru einmitt fyrst og fremst afþreying og Margrét segir mikilvægt að gera skýran greinarmun á afþreyingunni og morðrannsóknunum sjálfum og þau áhrif sem hún hefur á fjölskyldu þolenda. „Heimildaþættir vekja oft athygli á einhverju sem þarf að laga í sambandi við réttarkerfið, sem er jákvætt, en ef fólk vill í alvöru læra eitthvað um sakamál og af hverju einstaklingur ákveður að fremja voðaverk þá mæli ég með því að fólk læri afbrotafræði.“
Margrét segir þó ekki teljandi ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum aukna áhuga á morðmálum sem kemur skýrast fram á samfélagsmiðlum. „Ég held að við þurfum ekki að hafa sérstakar áhyggjur af þessu. Þetta er tæknin og þetta er samfélagið. Þetta er það sem við höfum áhuga á. Þetta er afþreying. Sem afbrotafræðingur veit ég það vel að fólk hefur lítinn áhuga á fréttum um að afbrotum sé að fækka en mikinn áhuga ef þeim er að fjölga eða ef það er eitthvað sérstakt mál. Það er ekkert skrítið, það er bara eins og það er, en rannsóknir sýna að það er ekki endilega gott fyrir okkur sem neytendur að vera stöðugt að fókusera á voðaverk.“
Haley Toumaian er ein af fjölmörgum TikTok-notendum sem hafa fjallað um Gabby. Hún er með 650 þúsund fylgjendur á TikTok og hefur fylgst með máli Gabby frá upphafi og deilt fréttum og eigin hugrenningum um málið frá 16. september. Toumaian greinir frá því í samtali við BBC að fyrstu dagana eyddi hún um sex klukkustundum á dag í að afla sér upplýsinga um Gabby og rannsókn málsins.
Margrét segir að svo lengi sem notendur fari eftir fyrirmælum lögreglu sé ekkert athugavert við þessa frásagnaraðferð. „Ef þau virða fyrirmæli lögreglu um að fara ekki á ákveðið svæði eða nota ákveðnar upplýsingar, að fara eftir ákveðnum reglum, þá þurfum við ekki að koma ákveðnum skilaboðum til þeirra.“
„Mér líður eins og ég þekki Gabby“
Áhuginn á rannsókn á morði Gabby er ekki einungis bundinn við Bandaríkin, hann er einnig greinanlegur hér á landi. Inga Kristjánsdóttir, rithöfundur og stjórnandi hlaðvarpsins Illverks, fjallaði um málið í þætti sínum 25. september. Inga segir að áhugi hennar á málinu hafi kviknað þar sem hún geti tengt við Gabby á marga vegu.
„Mér líður eins og ég þekki Gabby því málið var svo opið alheiminum. Sama má segja um Brian, þótt það sé orðið ansi ljóst að meira býr að baki hans karakters. Það er hægt að tengja við þau á svo marga vegu og held ég að margir hafi sömu drauma og þau, langi að ferðast, vera stór á samfélagsmiðlum og eiga þetta ævintýralíf,“ segir Inga.
Inga hefur gefið út rúmlega 100 þætti um hin ýmsu sakamál. Í fyrstu voru 90% hlustenda konur en í dag er hlutfallið jafnt og segir Inga hafa fundið fyrir auknum áhuga undanfarið. Þátturinn um Gabby hefur til að mynda fengið þrefalt meiri hlustun en meðal þáttur Illverka.
Aðspurð hvort það sé mikill munur á að fjalla um mál þar sem rannsókn stendur enn yfir, líkt og í máli Gabby, og málum sem eru upplýst segir hún að svo sé. „Vanalega get ég hlustað á bækur og aflað mér upplýsinga á netinu í nokkra daga áður en ég sem handritið. Þegar ég rannsaka svona nýleg mál eru alltaf að bætast við upplýsingar svo ég er stanslaust að bæta við handritið.“ Þá segir Inga að alls konar getgátur sem upp koma á samfélagsmiðlum geti flækt málin þar sem þær eru misgáfulegar. „Það er vissulega meira krefjandi að skrifa svona þátt, því þú vilt ekki fara með fleipur, en mun líflegra og skemmtilegra.“
TikTok eigi þátt í að varpa ljósi á sannleikann
Inga er sannfærð um ágæti TikTok við rannsókn sakamála. „Sannleikurinn er sá að TikTok á stóran part í að koma sannleikanum upp á yfirborðið. Ég er ekki viss um að málið væri komið jafn langt ef ekki væri fyrir forritið. En öllu má nú ofgera. Persónulega finnst mér slæmt þegar fólk er farið út fyrir ákveðin mörk og mögulega farið að traðka á vinnu lögreglu. Ég skil vel að fólk vilji að málið gangi hraðar og það vill hjálpa. En það hefur gerst ítrekað að upplýsingar hafa lekið sem gætu skemmt fyrir. Sem er ekki gott.“
Rannsóknarvinna Ingu heldur áfram en hún er hætt að nýta sér TikTok og Instagram. „Þetta er komið út fyrir öll mörk og leiðinda „getgátupésar“ komnir af stað. Ég fylgist með spjallsíðu á Facebook þar sem rúmlega 50.000 manns fylgjast með og skoða reglulega fréttasíður. Mitt plan er svo að gera fljótlega annan þátt þar sem ég mun fara yfir allt sem er búið að staðfesta.“
Inga telur að draga megi ýmsan lærdóm af máli Gabby, meðal annars að ekki er allt sem sýnist á samfélagsmiðlum. „Ég vona að vitundarvakning verði um bæði allt sem þú sérð á netinu, að þú ættir að taka því með fyrirvara, og að við pössum upp á hvort annað. Vinir okkar og vandamenn gætu verið í hræðilegum samböndum. Það er okkar verkefni að spyrja og hunsa ekki rauð flögg sem við sjáum.“
Morðið á Gabby Petito er fyrst og fremst harmleikur. Staðreyndin er hins vegar sú að málið vekur athygli og lögregla jafnt sem samfélagsmiðlanotendur keppast við að komast að sannleikanum um lát hennar. Krufningarskýrsla Gabby var gerð opinber á miðvikudag og þar kemur fram að dánarorsök hennar var kyrking og að hún hefði verið látin í þrjár til fjórar vikur þegar líkið fannst 19. september. Leit stendur enn yfir af Brian, kærasta Gabby, sem er sá eini sem hefur réttarstöðu grunaðs í málinu. En þá er bara spurning hvort hetjan, sem Margrét minntist á hér að ofan, verði sá eða sú sem nær að leysa málið. Og ætli það verði lögreglan eða jafnvel TikTok-stjarna?
Athugasemdir