Í 78. sæti á listanum yfir tekjuhæstu Íslendinganna situr Ágúst Þór Eiríksson, eigandi Icewear, með 2.717.449 krónur í mánaðarlaun og heildarárstekjur upp á 257.609.385 krónur, sem eru að uppistöðu vegna fjármagnstekna. Hann segir það alltaf hafa verið drauminn að verða atvinnurekandi enda hefur hann lagt allt í sölurnar fyrir Icewear síðustu áratugi. „Ég hef náttúrlega ekki gert annað síðan ég hætti í skóla en að standa í þessu.“
Á 15 árum hefur starfsemi fyrirtækisins stækkað töluvert. Tveimur árum áður en fyrsta búðin var opnuð, árið 2010, voru átta starfsmenn innan fyrirtækisins. Í dag telur starfsfólkið 340 manns og eru útibú með vörunum orðin 21 talsins. Ágúst segir búðirnar vera eins og börnin sín, þess vegna sé erfitt að gera upp á milli þeirra. Hins vegar eigi búðin í Vík í Mýrdal stóran stað í hjarta hans. „Þetta er náttúrlega stærsta búðin mín og við höfum byggt hana upp síðan 2012.“
Stærsta ár Icewear
Ágúst Þór segir þó ýmislegt geta gengið á í fyrirtækjarekstri. „Það brann hjá okkur árið 2018 og svo kom Covid. Það er eitt og annað sem hefur bjátað á en við höfum verið heppin að standa þetta af okkur og höfum í raun styrkst við hvert áfall. Þannig að þetta hefur ekkert alltaf verið sældarlíf.“
Fyrirtækiseigandinn tekur því fagnandi að ferðaþjónustan sé að ná meira flugi en fyrir heimsfaraldur enda finnur hann fyrir aukinni eftirspurn eftir vörum Icewear samhliða þeim vexti. „Fyrirtækið er búið að vera að vaxa mikið og stækka vörulínuna. Við finnum alveg fyrir því að við erum komin í 2019 eins og það var fyrir Covid og reyndar töluvert meira en það. Við höfum náttúrlega vaxið gríðarlega núna á árinu 2022 og síðan það sem af er 2023.“ Ágúst spáir því að þetta verði stærsta ár Icewear hingað til.
Aðspurður segist Ágúst sáttur við þá upphæð sem fer í skattgreiðslur hjá honum. „Mér finnst þetta bara passlegt. Maður þarf náttúrlega að borga til samfélagsins ef það gengur vel og það er hluti af því að vera þátttakandi í íslensku þjóðlífi. Skattar eru sanngjarnir finnst mér á Íslandi, allavega fyrirtækjaskattar.“
„Maður þarf náttúrlega að borga til samfélagsins ef það gengur vel og það er hluti af því að vera þátttakandi í íslensku þjóðlífi“
Ágúst, hver eru þín mestu auðæfi í lífinu?
„Það er náttúrlega fjölskyldan, börnin og konan mín.“
Þau trompa Icewear?
„Já. Icewear er náttúrlega mikilvægt en það er bara annar hluti af mínu lífi og ég hef ekki þurft að velja neitt á milli,“ segir Ágúst.
Athugasemdir