„Ég er bara að þakka þeim fyrir Fiskidaginn. Ef það væri ekki fyrir Samherja þá væri enginn Fiskidagur. Ég var ekki að nota þessa grein í pólitískum tilgangi þó ég sé ekki sammála þeim og þeirri stefnu sem þeir reka. Ég er búinn að skamma þá og ég er búinn að rífast gegn kvótakerfinu og hvernig það hefur lagt landið í auðn. Kvótakerfið er það versta sem hefur komið fyrir okkur sem samfélag,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, aðspurð um þátttöku sína á tónleikunum á Fiskideginum mikla á Dalvík um helgina og þakkagrein sem hún skrifar í Morgunblaðið í dag.
„Ég held að engir peningamenn gefi peningana sína af því bara.“
Í greininni þakkar Inga Samherja fyrir Fiskidaginn. Samherji hefur um árabil staðið straum á stórum hluta af kostnaðinum við Fiskidaginn: Greitt fyrir tónleikana á hátíðinni, flugeldasýninguna, barnaskemmtunina og gefið fiskinn sem í boði er fyrir gesti.
Niðurlag greinar Ingu í Mogganum er svona: „Ég var spurð að því hvort ég hefði gert mér grein fyrir því hverjir það væru sem stæðu undir kostnaði við Fiskidaginn mikla áður en ég ákvað að taka lagið. Ég vil svara þessum ágæta manni og öllum öðrum á einu bretti: Að sjálfsögðu veit ég það eins og öll þjóðin veit það. Samherji hefur kostað þessa stórkostlegu hátíð sem nú var haldin í tuttugasta sinn. Fyrir það á Samherji þakkir skildar.“
Fyrsti Fiskidagurinn frá 2019
Á sínum tíma var sú hugmynd meðal annars uppi að bjóða sjávarútvegsráðherra Namibíu á hátíðina en hann er meðal þeirra namibísku áhrifamanna sem sitja í gæsluvarðhaldi þar í landi grunaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja í skiptum fyrir kvóta.
Fiskidagurinn mikli hefur ekki verið haldin síðustu ár vegna Covid-faraldursins og fór nú fram í fyrsta skipti frá árinu 2019. Árið 2019 voru aðstandendur Fiskidagsins ósáttir við að Fiskidagurinn hafi verið til umfjöllunar í tengslum við mútumál Samherja í Namibíu.
Segist hafa komið fram sem manneskjan Inga Sæland
Aðspurð segist Inga hafa verið í sumarfríi sem þingmaður þegar hún söng á hátíðinni - hún tók Tinu Turner lag - og að hún hafi ákveðið að gleyma pólitísku argaþrasi um hríð og vera bara glöð. „Mér er alveg sama þó ég heiti alþingismaður en ég er líka manneskja. Ég má líka eiga annað líf. [...] Það væri frekar dapurt ef maður, á fullorðsinsaldri, hefði ekki neitt annað fram að færa í lífinu en að vera í pólitík. [...] Við eigum okkar sex vikna sumarfrí. [...] Ég hreinsaði líkama og sál af þessu argaþrasi þarna í nokkra daga.“
Þegar Inga er spurð að því hvort þingmenn fari einhvern tímann í fríi frá því að vera þingmenn segir hún. „En þarna var ég bara Inga Turner eða Tina Sæland og mér fannst það bara ótrúlega skemmtilegt. [...] Enginn er alvondur og það á að þakka fyrir það sem vel er gert.“
Hún segist aðspurð ekkert hafa fengið greitt fyrir lagið sem hún söng. „Þetta var bara fyrir ánægjuna [...] Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri að upplifa þetta ævintýri. Ég mun aldrei gleyma þessu.“
Þegar Inga er spurð að því hvort hún telji ekki að stórfyrirtæki gefi ekki oft peninga, veiti styrki eða greiði fyrir samfélagsverkefni í ákveðnum PR-tilgangi segir hún. „Ég held að engir peningamenn gefi peningana sína af því bara. Ég held að það sé alltaf eitthvað á bak við það. Ég held að það sé bara common sense. Hvort svo sem fyrirtækið heiti Samherji, Brim, Norðurál eða eitthvað annað. Það er enginn sem gefur peninga bara til að gefa peninga.“
Ísland og veruleikinn í Verbúðinni
Inga segir að það beri hins vegar að þakka Samherja fyrir það góða sem fyrirtækið gerir. Hún segir að án Samherja þá væri Dalvík ekki það sem bærinn er í dag. „Samherji er sá aðili sem hefur gert það að verkum að Dalvíkurbyggð blómstrar í dag. Það væri óskandi að kvótakerfið hefði ekki orðið til þess að öðrum dásamlegum sveitarfélögum allt í kringum landið er að blæða út.“
Inga nefnir sérstaklega Ólafsfjörð sem dæmi um þetta, nágrannabæ Dalvíkur, þar sem lítil útgerð er stunduð í dag. „Ég er að horfa upp á litla bæjarfélagið, Ólafsfjörð, blæða út. Eins og svo mörgum öðrum blómlegum byggðum sem áður voru að blómstra.“
Hún talar um sjónvarpsþættina Verbúðina sem dæmi um þá þróun á Íslandi sem kvótakerfið hefur leitt til og hún hefur gagnrýnt. „Verbúðin segir allt sem segja þarf. Verbúðin var náttúrulega bara snilld. Við vitum alveg hvernig búið er að mergsjúga litlu bæjarfélögin úti á landi. Núna síðast er búið að selja 70 prósent af Rammanum á Siglufirði til Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Dettur nokkrum í hug að þeir haldi áfram að gera út frá Siglufirði? Tröllaskagi er algjörlega að þorna upp hvað lítur að sjávarútvegi. Þessi þróun er skelfileg“
Sjónvarpsþættirnir sem Inga vísar til hverfast meðal annars um það hvernig togari er seldur burt úr sjávarplássi með tilheyrandi afleiðingum fyrir byggðina. Sagan sem er sögð í þáttunum minnir á hvernig togarinn Guðbjörgin var seldur frá Ísafirði í lok síðustu aldar eftir að Samherji keypti skipið.
Gott ódýrt PR og allt i dúllí fína ???
Þið eruð illa klikkuð og á öngvan hátt treystandi.
Barngóði handrukkarinn gefur barnaheimilunum rausnarlegar gjafir og styrki einu sinni á ári en hendir fjölskyldum út af heimilinum sínum 362 daga á ári. Nei ég á ekki við Samherja heldur bankana... þó svo samlíkingin eigi þar líka við.
Þú getur ekki stutt eða þakkað þjófinum þegar hann skilar bara hluta þýfisins.
Íslensk spilling í hnotskurn... og bankar og útgerðaraðilar og allir vondu karlarnir ykkar eru afleiðingar spillingarinnar.... ekki orsakirnar.
Þessvegna er ekki hægt að hjálpa íslendingum... því þeir sjálfir eyðileggja alla möguleika á betra og réttlátara þjóðfélagi.
Meðan kerfið er spillt eru allar leiðir dauðadæmdar... og kerfið okkar er spilltara en það var árið 2000.... og "góða fólkið" þorir ekki að horfa inn í skápana... heldur heldur bullbaráttunni áfram..... hún virkar ekki því henni er ekki beint að orsökunum.
Og upphæðin um duldar fjárhæðir í aflandsleikjum er röng... ekki 40 til 60 milljarðar... heldur vel yfir 100 milljarðar ... aflandseyjaskilgreiningin er nefnilega röng... hún er nálgunarfræðileg... ekki landafræðileg.
Orsakir íslenskrar spillingar ?
Alþingi og framkvæmdarvaldið.