Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, segir Pírata ætla að sækjast eftir því að kaupendur sem ekki uppfylltu skilyrði útboðs á hlut ríkisins í Íslandsbanka en fengu samt að kaupa hlut í bankanum verði nafngreindir.
Á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær þar sem gestir fundarins voru annars vegar frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og hins vegar Bankasýslu ríkisins, spurði Arndís Anna hvort rök hafi verið fyrir yfirstrikunum í kafla um sáttina sem Íslandsbandi gerði við fjármálaeftirlitið. Íslandsbanki mun greiða 1,2 milljarða króna sekt í ríkissjóð vegna sáttarinnar. Er það sögulega há sekt, sú hæsta síðan Arion Banki greiddi sekt upp á 80 milljónir árið 2020.
Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, sagði það varfærið að strika út upplýsingar í sáttinni en lagagrundvöllur sé að baki þeim öllum. Gunnar Þór Pétursson, nefndarmaður í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands, sagði að það væri í höndum úrskurðarnefndar upplýsingamála að meta hvort yfirstrikanirnar ættu rétt á sér eða ekki.
„Mér fannst koma fram á þessum fundi að þau hafi þarna verið að fara sérstaklega varlega og það sé ekki loku fyrir það skotið að þessar upplýsingar verði gerðar opinberar. Já, við munum sækjast eftir því,“ sagði Arndís Anna í samtali við Ragnhildi Þrastardóttur, blaðamann Heimildarinnar, að fundi loknum í gær, aðspurð hvort Píratar ætli að leitast eftir því að upplýsingarnar verði birtar.
„Við munum byrja á því að óska eftir því og óska eftir rökstuðningi fyrir því að þeim sé haldið leyndum. Svo eru þarna ákveðnir ferlar sem eru í boði til þess,“ sagði Arndís Anna. Birting yfirstrikananna er mikilvæg að hennar mati til að svara ýmsum spurningum. „Það eru auðvitað svo margar spurningar uppi í þessu máli um hagsmunaárekstra, til dæmis, og ýmislegt. Það er mikil tortryggni í garð þessarar sölu og það er alls ekki að ástæðulausu. Við teljum mjög mikilvægt að allar upplýsingar liggi upp á borðum til þess að við getum áttað okkur á hvað gerðist þarna.“
Málinu ekki lokið með afsögn bankastjóra
Afsögn Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, í gær var viðbúin að mati Arndísar Önnu og segir hún afsögnina hafa komið fáum á óvart. „En auðvitað, það er enginn endir á þessu máli. Það er ekki þarna sem málið endar, augljóslega. Það er heilmikið af spurningum sem standa eftir í þessu máli.“
Næsta skref, að mati Arndísar Önnu, er að skipa rannsóknarnefnd um söluna á Íslandsbanka. Sú krafa hefur verið uppi af hálfu stjórnarandstöðunnar allt frá því að salan á 22,5 prósent hlut í bankanum fór fram í mars í fyrra.
„Rannsóknarnefnd, ekki spurning. Og í rauninni verð ég bara sannfærðari um það með hverju skrefi,“ segir Arndís Anna.
Í könnun sem Gallup birti seint í apríl í fyrra kom fram að 73,6 prósent landsmanna taldi að það ætti að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent taldi nægjanlegt að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölunni. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skáru sig úr þegar kom að þessu, en 74 prósent þeirra voru á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægði til. Tæplega þriðjungur kjósenda hinna stjórnarflokkanna var á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þyrfti rannsóknarnefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka voru nær allir á því að rannsóknarnefnd sé nauðsynleg.
https://www.mbl.is/media/70/11670.pdf