„Mín skoðun á þessu er mjög skýr. Stjórnendur Íslandsbanka hafa ekki trúverðugleika og framganga þeirra síðustu daga bendir líka til þess,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, eftir fund ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfis sem er nýlokið.
Fundurinn var boðaður í gær eftir að sátt Íslandsbanka og fjármálaeftirlitsins var birt. Ásamt Lilju sátu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fundinn.
Í samtali við Helga Seljan blaðamann Heimildarinnar eftir fundinn sagði Lilja að hennar skoðun á málinu væri mjög skýr, stjórnendur Íslandsbanka hefðu ekki trúverðugleika.
„Ég hef sagt það áður að ég tel ekki að það sé verið að draga þann lærdóm sem þau ættu að gera af þessu söluferli. Þetta er kerfislega mikilvæg fjármálastofnun og í ljósi sögunnar er enn brýnna að þau taki þetta til sín og taki þannig skref sem er til þess fallið að auka traust og trúverðugleika á kerfinu.“
Sem er að hætta?
„Ég tel að þau njóti ekki trausts.“
Og að þau eigi að hætta?
„Þau njóta ekki trausts.“
Aðspurð af hverju hún vilji ekki segja beint að stjórnendur Íslandsbanka eigi að segja af sér segir Lilja að hennar afstaða sé skýr: Stjórnun Íslandsbanka er óásættanleg.
„Forysta Framsóknar er eindregið á þeirri skoðun að stjórnun á bankanum sé óásættanleg og við höfum komið því fyllilega til skila til fjármála- og efnahagsráðherra.“
Boðað hefur verið til hluthafafundar hjá Íslandsbanka í næsta mánuði.
„Ég hef hvatt til þess að það verði boðað til þessa hluthafafundar af því að trúverðugleiki stjórnenda bankans er enginn í dag og upp á það að byggja upp gott og traust fjármálakerfi þá er nauðsynlegt að við höfum mjög skýra mynd af því hvernig framhaldið verður,“ segir Lilja.
Athugasemdir