Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Íslandsbanki harmar brot sín og ætlar að boða til hluthafafundar á næstu dögum

Stjórn og stjórn­end­ur Ís­lands­banka segj­ast nú harma mjög þau lög­brot sem fram komi í sátt sem gerð var við fjár­mála­eft­ir­lit­ið. Þau ætla að fara „ít­ar­lega yf­ir máls­at­vik og þær úr­bæt­ur og breyt­ing­ar sem þeg­ar hafa ver­ið gerð­ar eða eru í vinnslu“ á hlut­hafa­fundi sem mun fara fram í næsta mán­uði.

Íslandsbanki harmar brot sín og ætlar að boða til hluthafafundar á næstu dögum
Laskað orðspor Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði við Heimildina á föstudag að það ekki hafa komið til tals að hún myndi taka pokann sinn og hætta. Mynd: Heimildin / Davíð Þór

Stjórn Íslandsbanka hyggst boða til hluthafafundar á næstu dögum. Þar ætlar stjórn bankans og stjórnendur hans að fjalla um framkvæmd hans á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5 prósent eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór hinn 22. mars 2022. Salan fór fram í lokuðu útboði og hluturinn var seldur til 207 aðila sem sagðir voru svokallaðir fagfjárfestar, en reyndust það ekki að öllu leyti. Ákvörðunin um að boða fundinn er tekin í kjölfar tilkynningar Bankasýslu ríkisins í dag þar sem óskað var eftir slíkum fundi.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands sem birt var í kvöld kom fram að Íslandsbanki og stjórnendur hans harmi mjög þau brot sem fram koma í sátt sem bankinn gerði við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands, og felur í sér bankinn greiði næstum 1,2 milljarða króna sekt í ríkissjóð. „Á hluthafafundinum verður farið ítarlega yfir málsatvik og þær úrbætur og breytingar sem þegar hafa verið gerðar eða eru í vinnslu.“

Nokkuð annar tónn er í tilkynningunni sem send var í kvöld en tilkynningu sem Íslandsbanki sendi á fimmtudagskvöld, áður en sáttin var birt opinberlega. Þar sagðist hann hafa þegið boð Fjármálaeftirlitsins „um að ljúka máli með samkomulagi um sátt“. Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka, sagði í tilkynningunni að ljóst sé að „bankinn dregur mikinn lærdóm af þessu verkefni.“ Ekki var beðist afsökunar í þeirri tilkynningu.

Í tilkynningunni á fimmtudag sagði enn fremur að bankinn gangist við því að hafa brotið gegn „tilteknum ákvæðum“ laga um markaði fyrir fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtæki.

Forsætisráðherra vill að stjórnendur axli ábyrgð

Bankasýslan fer enn með 42,5 prósent eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og verulega hagsmuni ríkisins í öðrum fjármálafyrirtækjum. Hún lítur málið alvarlegum augum og fór fyrr í dag  fram á að hluthafafundur verði boðaður. Þar vill bankasýslan að „stjórn og stjórnendur bankans geri grein fyrir málinu og þeim ráðstöfunum sem gripið verður til í því skyni að endurvekja traust.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kallaði eftir því fyrr í dag að stjórnendur bankans öxluðu ábyrgð á stöðunni. Stjórnarandstaðan hefur jafnframt krafist þess að fjármálaráðherra taki pólitíska ábyrgð. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur hafnað eigin ábyrgð á lögbrotum Íslandsbanka en sagði við RÚV að stjórnendur bankans hefðu brugðist trausti stjórnvalda við framkvæmd sölu á hlut ríkisins.

Flokkuðu almenna fjárfesta sem fagfjárfesta

Í sáttinni, sem birt var í morgun, kemur meðal annars fram að starfsmenn Íslandsbanka flokkuðu átta viðskiptavini sína, sem voru almennir fjárfestar, sem fagfjárfesta svo þeir gætu tekið þátt í útboðinu. Sú flokkun átti sér stað án þess að skilyrði til laga til þess hafi verið uppfyllt. Íslandsbanki hafði ýmist frumkvæði að því eða hvatti umrædda almenna fjárfesta, og aðra slíka, til að óska eftir að fá stöðu fagfjárfestis og breytti flokkun viðskiptavina sem tóku þátt í útboðinu, sem var einungis ætlað hæfum fjárfestum, eftir að það hófst. Í sumum tilvikum voru viðkomandi aðilar ekki flokkaðir sem fagfjárfestar fyrr en nokkrum dögum eftir að útboðinu lauk og stundum tók það einungis nokkrar mínútur fyrir viðkomandi að fá slíka flokkun innan útboðsdags. 

Í sáttinni segir líka að Íslandsbanki hafi ekki framkvæmt né skjalfest greiningu á hagsmunaárekstrum í tengslum við verkefni málsaðila vegna söluferlisins.

Skaðleg áhrif á traust og trúverðugleika fjármálamarkaða

Þá kemur fram að Íslandsbanki hafi veitt Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir Bankasýsluna að kvöldi 22. mars 2022 með því að upplýsa ekki um að almennir fjárfestar stæðu að baki ákveðnum tilboðum. „Þar af leiðandi fékk Bankasýslan ekki upplýsingar um nöfn þátttakenda og fjárhæð tilboða frá hverjum og einum þrátt fyrir að upplýsingar þess efnis lægju fyrir hjá málsaðila. Bankasýslu ríkisins voru einnig veittar villandi upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu þar sem níu viðskiptavinir málsaðila sem stóðu að baki tilboðum í tilboðsbókinni sem lögð var til grundvallar rökstuddu mati Bankasýslunnar til fjármála- og efnahagsráðherra voru ekki flokkaðir sem fagfjárfestar á því tímamarki. Þá veitti málsaðili viðskiptavinum Eignastýringar rangar og villandi upplýsingar, gegn betri vitund, í níu tilfellum um að lágmarksfjárhæð tilboða í útboðinu væri 20 milljónir króna þegar ekki var um slíka skilmála að ræða.“

Með hátterni sínu hafi Íslandsbanki ekki uppfyllt að öllu leyti skylduna til að starfa heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku, í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd útboðsins. „Með þeirri háttsemi að bjóða almennum fjárfestum að taka þátt í útboði sem eingöngu var ætlað hæfum fjárfestum virti málsaðili ekki útboðsskilmála Bankasýslunnar og gætti því ekki að hagsmunum hennar af því að farið væri að skilmálum útboðsins. Um sölu á ríkiseign var að ræða og voru hlutabréf í málsaðila sjálfum boðin til sölu sem hefði átt að leiða til þess að málsaðili vandaði sérstaklega til verka við framkvæmd þess. Háttsemi málsaðila er til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á traust og trúverðugleika fjármálamarkaða. Háttsemi málsaðila sem lýst hefur verið felur í sér alvarleg brot á mikilvægum ákvæðum laga um markaði fyrir fjármálagerninga og lögum um fjármálafyrirtæki.“

Viðurkenndi að orðspor bankans hefði skaðast

Í sáttinni kemur fram að niðurstaða eftirlitsins sé sú að stjórn og bankastjóri Íslandsbanka hafi ekki með fullnægjandi hætti innleitt stjórnarhætti og innra eftirlit sem tryggir skilvirka og varfærna stjórnun sem birtist meðal annars í því að ekki var tryggt að bankinn uppfyllti lagakröfur sem gilda um veitingu fjárfestingarþjónustu og fylgni við innri reglur sem stjórn hans hefur sett. 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði við Heimildina á föstudag, eftir að tilkynning Íslandsbanka var birt en fyrir birtingu sáttarinnar í heild sinni, að með því að bjóða sátt væri „fjármálaeftirlitið að sýna stjórn og bankastjóra traust til þess að innleiða þær breytingar sem þarf. Og það er að sjálfsögðu mikilvægt. Og það er mikilvægt að okkur er boðin sátt.“

Birna viðurkenndi að orðspor bankans hefði skaðast vegna málsins en sagði það ekki hafa komið til tals að hún myndi taka pokann sinn og hætta.

Kjósa
7
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Ásgeir Överby skrifaði
  Það eina sem er skýrt í skýrslunni er að Birna hefur ekki verið að gera neitt. Hún lætur strákana um allt. Bankinn rekur sig sjálfur á okurtöxtum-og vöxtum á einokunarmarkaði.
  0
 • MGÁ
  Marteinn Gísli Árnason skrifaði
  Gott að heyra að boða ætti til hluthaha-fundar.

  Bjarni Ben.er bara i VAFNINGUM,N1,Bilanaust og öllum hinum flækjunum en Islandsbanka ruglið
  kemur honum ekki við.

  þAÐ ERU BARA FAÐIR HANS OG FÖÐURBROÐUR E.TV. FLEIRI SEM TENGJAST ÞESSU MALI

  ASAMT FJÖLMARGRA ANNARA MALA.
  0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Salan á Íslandsbanka

Bjarni segir það Alþingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu
FréttirSalan á Íslandsbanka

Bjarni seg­ir það Al­þingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu

Bjarni Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, seg­ir að hann hafi gert ráð fyr­ir bless­un þings­ins á að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans gagn­vart hverj­um og ein­um kaup­anda á Ís­lands­banka í mars 2022. Þing­inu hefði átt að vera aug­ljóst að ekki væri hægt að fylgja hæfis­regl­um í sölu­með­ferð­inni sem val­in var. Bjarni sat fyr­ir svör­um á opn­um fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í dag.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár