„Ég heiti Magnús Thorlacius og við erum stödd hérna á kaffihúsinu í Tjarnarbíói. Ég er að setja upp sýningu eftir tvær vikur eða svo og ég er að skipuleggja og undirbúa mig fyrir það. Þetta var upphaflega útskriftarverkið mitt í Listaháskólanum, þar sem við fylltum sviðið af vatni og breyttum því í baðlón, og við erum að setja það núna upp ári síðar.
Það heitir Lónið og fjallar um þrjár persónur í baðlóni sem fara í sjálfnærandi ferðalag eins og oft er hægt að gera í svona baðlónum á Íslandi. Þetta er byggt á þessari bylgju baðlóna sem hafa verið opnuð hér undanfarin ár. Við notum hugmyndina um baðlón til að rannsaka sjálfsmynd einhverrar forréttindastéttar á Íslandi.
Ég var búinn að vera í náminu í Covid, í samkomubanni, og búa til leikhús bara þannig. Það var eiginlega bara hræðilegt. Allt námið snýst um að búa til eitthvað á sviði sem er ekki endurleikið, ekki búið til, til þess að vera fest á filmu. Það er búið til sem upplifun í návist fólks, áhorfenda. Ég tala nú ekki um þegar fólk leggur áherslu á tilraunakenndari form innan sviðslista eins og þátttökuleikhús, en þetta á líka um alveg hefðbundið leikhús, sem snýst líka um þetta samtal við áhorfendur.
Þetta á að vera stefnumót augnabliksins. Nema hvað að við áttum að búa til öll þessi verk mínus það að fá áhorfendur inn og eiga þetta stefnumót. Það var stórfurðuleg upplifun. Maður þarf að hafa mjög mikla trú á verkinu til þess að það lifni við í þessum aðstæðum. Við sýndum þetta alltaf fyrir einhverjum áhorfendum en það voru kannski þegar verst var tveir áhorfendur. Á frumsýningu verksins var allt farið að opnast aftur svo það komu einhverjir áhorfendur. Það er mjög berskjaldandi að fara með verkið úr stofnun Listaháskólans yfir í atvinnuleikhús en það er búið að vera mjög gaman að skoða verkið upp á nýtt ári síðar og sjá hvaða stöðu það hefur gagnvart samfélagsumræðu í dag.
„Ætli listin sé ekki best þegar hún nær að fá mann til að vera ósammála sjálfum sér.“
Ég sé sjálfan mig í verkinu að því leyti að þarna eru komnar þrjár persónur sem eiga það allar sameiginlegt að vera í mikilli forréttindastöðu, hvítt fólk sem hefur efni á því að fara í svona lúxusferð, þetta eru bara rándýrar sundlaugar, þessi lón. Að eiga í svona erfiðu sambandi við það, þetta er lúxus en á sama tíma hatar maður eitthvað við það líka. Ég er í mikilli forréttindastöðu og fer reglulega í svona baðlón. Það að ég skuli hafa efni á því að gera þetta, að fara í þessa tilbúnu neysluparadís, mig langar að hata þetta en þetta er svo næs. Það er einhver þversögn sem ég er að reyna að ná fram í verkinu. Þetta er ekki bara slæmt þótt það sé alls konar firring í gangi. Ætli listin sé ekki best þegar hún nær að fá mann til að vera ósammála sjálfum sér. Fær mann til að hugsa.
Sá atburður sem breytti lífi mínu var þegar ég trúlofaðist kærustunni minni fyrir hálfu ári síðan. Að sjá lífið svona skýrt með annarri manneskju og setja tákn á fingurinn sem táknar þetta og maður er með það alla daga. Það hljómar kannski væmið en ég held að það hafi breytt lífi mínu.
Þetta lætur mann vilja vera eins góð manneskja og mögulegt er. Það kannski breytir manni ekki en maður reynir að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Við ákváðum þetta saman. Við vorum eitthvað búin að tala um þetta og eftir því sem við ræddum þetta oftar varð hugmyndin alltaf raunverulegri. Svo allt í einu eitt kvöldið erum við að skoða hringa í búð á Laugaveginum og við bara kaupum þá. Daginn eftir fórum við saman út í Viðey að biðja hvort annars.
Ég hef svona aldrei verið mjög hrifinn af þessu sem maður sér í bandarísku bíómyndunum, þessari rosalegu rómantísku gjörð sem kallinn á að gera og, þú veist, þessi rándýru brúðkaup. Ég hef aldrei tengt við þetta eða fundist þetta vera eitthvað sem mig hefur langað að gera. Það sem mér finnst alltaf yfirsterkara er að við gerum hlutina á okkar hátt og tjáum ást okkar á okkar hátt því hún er ekki fyrir neinn annan heldur en bara okkur. En jú, svo heyrir maður skemmtilegar eða rómantískar sögur og hugsar: hefði þetta átt að vera svona frekar?
Við erum búin að vera saman í þrjú og hálft ár kannski. Við byrjuðum saman rétt fyrir Covid og samkomubannið. Við þekktumst fyrir það. Í Covid vorum við mjög mikið saman. Við vorum í sama námi hvort í sínum bekknum. Við vorum mjög mikið saman þar sem aðrar félagslegar aðstæður voru ekki í boði. Mér leið eins og við hefðum verið saman í fimm ár eftir eitt ár, bara út af því.“
Athugasemdir