Sem barn þráði Elizabeth Holmes ekkert meira en uppgötva eitthvað sem mannkynið vissi ekki að væri mögulegt. Hún hætti í háskólanámi og stofnaði líftæknifyrirtækið Theranos sem átti að geta greint sjúkdóma með einum blóðdropa. Tækin sem Holmes lét vísindamenn sína nota voru hins vegar þegar aðgengileg á markaði og hún vissi sjálf að tæknin sem hún barðist fyrir virkaði ekki. En hún lét það ekki stöðva sig og sveik fé út úr fjölda fjárfesta áður en upp komst um að vísindin að baki starfi Theranos stóðust ekki.
Holmes var dæmd í 11 ára fangelsi í nóvember í fyrra og átti að hefja afplánun á fimmtudag. Alríkisdómstóll í Kaliforníu hafnaði beiðni Holmes fyrr í mánuðinum um frestun afplánunar á meðan hún bíður þess að mál hennar verður tekið til áfrýjunar. Beiðninni var hafnað þar sem dómari taldi Holmes ekki ná að sýna fram á að áfrýjunarferlið myndi leiða til nýrra réttarhalda.
Lögmenn Holmes lögðu hins vegar fram nýja áfrýjunarbeiðni í vikunni, nú til níunda áfrýjunardómstóls Bandaríkjanna (e. United States Courts for the Ninth Circuit) og með henni frestast afplánun Holmes sjálfkrafa þar til áfrýjunardómstóllinn hefur tekið afstöðu til beiðninnar. Holmes er því frjáls ferða sinna, gegn tryggingu, þar til ákvörðun áfrýjunardómstólsins liggur fyrir.
Afplánun Sunny hafin
Ramesh “Sunny” Balwani, fyrrum viðskiptafélagi og kærasti Holmes, hefur farið svipaða leið í gegnum dómskerfið og Holmes. Hann var dæmdur í 13 ára fangelsi síðasta sumar og átti að hefja afplánun í nóvember en tókst að fresta því nokkrum sinnum, þar til nú en hann hóf afplánun í San Pedro alríkisfangelsinu í Kaliforníu 20. apríl eftir að áfrýjunardómstóll hafnaði beiðni hans um endurupptöku.
Mál Holmes og Theranos vakti gríðarlega athygli þegar upp komst að Theranos, líftæknifyrirtæki sem Holmes stofnaði þegar hún var 19 ára gömul, stundaði rannsóknir sínar með tækjum sem þegar voru til. Í réttarhöldunum í janúar í fyrra sakaði Holmes Balwani um andlegt ofbeldi og kynferðislega misnotkun sem átti sér stað á þeim tíma sem hún á að hafa svikið fjárfesta. Holmes segir að ofbeldið hafi haft áhrif á andlegt ástand hennar á þessum tíma.
Var sannfærð um eigin snilligáfu
Holmes ætlaði alltaf að ná langt. Í bréfi sem hún skrifaði föður sínum níu ára gömul sagðist hún „þrá mest af öllu að uppgötva eitthvað nýtt, eitthvað sem mannkynið vissi ekki að væri mögulegt“. Hún hóf nám í efnaverkfræði við Stanford-háskóla árið 2002 þar sem hún fékk þá hugmynd að framleiða plástra sem geta sagt til um sýkingar og veitt sýklalyf eftir þörfum. Phyllis Gardner, sérfræðingur í klínískri lyfjafræði við háskólann, sagði Holmes að slíkt myndi ekki ganga upp. „Hún starði bara á mig,“ segir Gardner í samtali við BBC. Holmes var sannfærð um eigin snilligáfu að sögn Gardner. „Hún hafði ekki áhuga á sérþekkingu minni og það vakti með mér óhug“.
Holmes hélt ótrauð áfram, hætti í háskólanáminu og stofnaði líftæknifyrirtækið Theranos árið 2003, þá aðeins 19 ára gömul. 13 árum síðar kom hún af krafti inn í Kísildalinn þegar hún hélt því fram að hafa þróað byltingarkennda blóðskimunartækni sem gæti greint hundruð sjúkdóma, líkt og krabbamein og sykursýki, með örfáum blóðdropum. Með þessari byltingarkennda nýju tækni yrðu nálar úr sögunni. Holmes sannfærði marga valdamikla einstaklinga til að fjárfesta í fyrirtækinu eða sitja í stjórn þess. Eða bæði. Þeirra á meðal eru fjölmiðlajöfurinn Rupert Murdoch og tæknirisinn Larry Ellison. Þá áttu tveir áhrifamiklir stjórnmálamenn sæti í stjórn Theranos, Henry Kissinger fyrrverandi utanríkisráðherra og James Mattis fyrrverandi varnarmálaráðherra.
Þegar best lét var Theranos metið á níu milljarða dollara eða sem nemur rúmum 1.200 milljörðum króna. Fjölmiðlar fjölluðu um Holmes sem yngsta kvenkyns milljarðamæringinn sem byrjaði frá grunni, hún átti að vera „næsti Steve Jobs“ og Time Magazine útnefndi hana eina af áhrifamestu einstaklingum ársins 2015.
En það ár fór að halla undan fæti þegar uppljóstrari innan fyrirtækisins steig fram og sagðist efast um greiningartæki fyrirtækisins. The Wall Street Journal birti ítarlegar fréttaskýringar um fyrirtækið þar sem í ljós kom að Theranos stundaði rannsóknir sínar með tækjum sem þegar voru aðgengileg á markaði. Fljótlega kom í ljós að um stærðarinnar blekkingarleik var að ræða. Starfsleyfi fyrirtækisins var afturkallað árið 2016 og tveimur árum síðar var Theranos leyst upp.
Holmes var handtekin í júní 2018, sökuð um að hafa svikið fjárfesta um 945 milljónir dollara, sem nemur rúmlega 128 milljörðum króna. Holmes var látin laus gegn tryggingu og árið 2019 giftist hún William Evans, 27 ára erfingja Evans-hótelkeðjunnar. Þau eignuðust son í júlí 2021. Nýtilkomið móðurhlutverk Holmes var talið geta haft áhrif á ákvörðun kviðdómsins en svo virðist ekki hafa verið.
„Ég er niðurbrotin vegna misgjörða minna“
Dómur var kveðinn upp í nóvember í fyrra. „Ég er niðurbrotin vegna misgjörða minna,“ sagði tárvot Holmes í dómsal í þegar hún var dæmd til 11 ára fangelsisvistar fyrir að svíkja fjárfesta. Dómurinn markaði ákveðin kaflaskil í áralangri umræðu um menningu í Kísildalnum sem snýr að ýkjum og öfgum í frumkvöðlaheiminum. Niðurstaða dómsins sendir skýr skilaboð til Kísildalsins: Það eru afleiðingar af því að ljúga að fjárfestum.
Holmes var ólétt að öðru barni sínu þegar dómur var kveðinn upp og rétt eins og í réttarhöldunum var þeirri spurningu velt upp hvort barneignir myndu hafa áhrif á afstöðu dómara. Edward Davila, dómari í máli Holmes, einblíndi hins vegar á gjörðir hennar. Dómarinn sagði Holmes „bráðgáfaðan“ frumkvöðul. Harmleikurinn í þessu máli, að mati hans, er að Holmes er bráðgáfuð. „Mistök eru eðlileg. En að mistakast með því að svíkja fé út úr fólki er ekki í lagi,“ sagði Davila í beinu ávarpi til Holmes þegar hann kvað upp dóm sinn.
Holmes hefur nú barist fyrir því í fimm mánuði að áfrýja dómnum og um leið fresta afplánun, sem átti að hefjast 27. apríl.
Mál hennar á líklega eftir að velkjast um í dómskerfinu næstu mánuði og jafnvel ár en niðurstaða áfrýjunardómstóls um hvort hún fái að ganga laus gegn tryggingu á meðan það ferli stendur yfir ætti að skýrist innan örfárra vikna.
Fastlega má gera ráð fyrir því að Holmes muni verja öllum stundum með fjölskyldunni þangað til. Holmes giftist William Evans, 28 ára erfingja Evans-hótelkeðjunnar, árið 2019 og saman eiga þau tvö börn; William sem er tveggja ára og dótturina Invicta sem fæddist í febrúar.
Athugasemdir