Það er ekki óalgengt að heyra fólk kvarta undan stressi við að koma opinberlega fram eða tjá sig í fjölmiðlum. Sprenglærðar manneskjur geta miklað fyrir sér að halda fyrirlestur eða rökstyðja skoðun sína í útvarpi og sjónvarpi. Sumir fá handskjálfta við að standa frammi fyrir hópi áhorfenda, svitna eða frjósa.
Besta ráðið – held ég – er að láta sig hafa það og vona að næst þegar viðkomandi þarf að stíga á svið verði það aðeins auðveldara. Gott ráð er líka að brosa, um leið og manneskjan brosir sendir líkaminn einhver góð efni í heilann og það slaknar á kerfinu. Það kenndi mér ráðagóð leikkona þegar ég var tuttugu og eitthvað ára að fara í Kastljós með tilheyrandi handskjálfta og óbærilega þunga sjálfsmeðvitund. Og það virkaði smá – og virkaði enn betur næst. Á endanum var mér farið að þykja svo hressandi að koma fram að brosið braust sjálfkrafa fram.
Annað er að fólk getur líka veigrað sér við að tala um ákveðin málefni. Eitthvað þykir of eldfimt, of viðkvæmt og þar fram eftir götum. En – og nú komum við að menningunni – umræðan er kúltúrinn okkar. Sem við búum til. Í samtölum, rökræðum, skoðanaskiptum og – stundum – átökum.
Orðin eru tæki til að leiða okkur að sameiginlegum skilningi, um leið og þau móta gildi okkar.
Með því að taka þátt í samfélagsumræðu um átakamál – sama þó að við segjum alls konar bull og eitthvað jafnvel hallærislegt – þá erum við um leið að taka þátt í að skapa ríkjandi gildismat.
Stundum erum við í því vanþakkláta hlutverki að segja eitthvað sem stenst ekki nánari skoðun en á sama tíma hefði umræðan ekki mjakast í rétta átt nema einmitt því það var viðrað, rætt og afgreitt. Og sá sem það sagði svitnaði kannski á meðan, bæði af áreynslu og blygðun eftir gagnrýni hinna, en var samt að leggja sitt af mörkum.
Árið 2004 var ég að læra dönsku í Kaupmannahöfn í skóla fyrir innflytjendur svo námið var hugsað bæði sem tungumálakennsla og aðlögun að dönsku samfélagi. Íslendingar flutu beint inn á efri stig námsins, síðustu tvö misserin, en í bekknum var fólk frá öllum heimshornum, sumir búnir að vera að læra dönsku í þrjú ár. Lokasprettur námsins fór að miklu leyti í að kenna fólki að rökræða og taka þátt í samfélagsdebati – án þess að persónugera það. Debat-hefðin gengur jú út á rökræðulist. Og við lærum ekki að rökræða nema ástunda það, rétt eins og skylmingar, þar sem er tekist á og dansað um leið.
„Okkur hættir til að vera of sjálfsmeðvituð þegar við tökum þátt í rökræðum á opinberum vettvangi.“
Einn daginn fengu nemendur eitt af þessum verkefnum sem var tengt við samfélagsumræðu dagsins og áttu að rökræða hvort leyfa ætti giftingar samkynhneigðra. Til að aðskilja rökfærslu frá persónunni leitaðist kennarinn við að nemendur töluðu gegn sannfæringu sinni. Þannig var ég látin tala gegn giftingum samkynhneigðra en annar nemandi, mjög trúaður karlmaður frá Marokkó, var látinn tala með þeim. Rökræðan reyndi nokkuð á bæði, þó töluvert meira á hann en mig, hann var nánast að drýgja synd – og í raun hefði mátt rökræða hvort það væri siðferðislega rétt að setja hann í þessa aðstöðu. Á endanum tókst okkur þó bara nokkuð vel upp í að mætast í skilningi, ég með rökum hans og hann með rökum mínum. Persónur okkar voru aukaatriði, leitin að gagnkvæmum skilningi aðalatriðið.
Okkur hættir til að vera of sjálfsmeðvituð þegar við tökum þátt í rökræðum á opinberum vettvangi. Í sjálfu sér skiptir persóna okkar ekki öllu máli, þó að auðvitað hafi það sitt að segja hver segir hvað.
Oft reynist jafnframt snúið að fá fólk til að tjá skoðun sína í fjölmiðli, það er jafnvel reiðubúið að segja þér hitt og þetta – og viðra skoðanir sínar – en ekki að opinbera málflutninginn undir nafni. Reyndar getur fólk orðið fyrir töluverðu aðkasti, þá ekki síst sérfræðingar, ef það tjáir sig um hluti eða viðrar álit sem vegur að sérhagsmunum einhvers konar valdhafa – sem geta með ýmsu móti snúist til varna. Á sama tíma er það viðbúið og kannski sniðugra að temja sér að verjast því á liðugan hátt, frekar en að óttast að segja sitt.
Rétt eins og öll samskipti fólks kalla á samtöl, þá þarf samfélagið á margslunginni samræðu að halda á hverjum degi, umræðu þar sem ólík sjónarhorn eru viðruð – til þess að viðhalda heilbrigði sínu og styrkja sess sinn sem frjálslynt lýðræði. Við notum orðin til að skoða hugsanir og atferli okkar, lýsa það upp, breyta því og bæta það. Því fleiri sem taka þátt því frjórri verður sýnin í fálmi okkar eftir skilningi.
Það er svo ólýsanlega mikilvægt að margar og fjölbreyttar raddir taki þátt í að móta sýn okkar á samfélagið og heiminn. Að í fjölmiðlum sé ekki alltaf sama fólkið að tjá sig um sömu hlutina. Og að það gefist andrými til að viðra ný sjónarhorn, pæla upphátt og segja óvinsæla hluti.
Ef þú ert beðinn um að tjá þig um hitt eða þetta í fjölmiðli – segðu þá já! Jafnvel þó að efnið sé lítilfjörlegt eða hitt: kalli á að þú þurfir aðeins að kynna þér málin. Það er gott að æfa sig í að koma fram og tileinka sér að viða að sér upplýsingum – sem geta stangast á við skilning manns – til að dýpka hugsun sína.
Ef þig langar að skrifa sendu þá pistil í fjölmiðil.
Það skiptir ekki máli þó að þú virkir feit/ur í sjónvarpi eða ljósmyndin af þér í blaðinu sé verri en fermingarmyndin. Eina sem skiptir máli er að taka þátt í umræðu samfélagsins, vera rödd sem mótar tíðarandann og tekst á við flóknar spurningar í átökum nútímans. Að þú látir í þér heyra og veitir samfélaginu innsýn í sérþekkingu þína, aðstæður eða skoðanir.
Jón Gnarr var fyrirmynd fyrir samfélagið þegar hann varð borgarstjóri, laus undan kvöðinni að þurfa að hljóma gáfulega þorði hann að tala um það sem hann vissi ekki en um leið biðja um upplýsingar og mynda sér skoðun. Hann varð þannig fyrirmynd fyrir almenning. Að öll höfum við mikið að segja – og sem betur fer ólíka hluti.
Við getum tjáð okkur um hitt og þetta á samfélagsmiðlum og birt þar blörraðar myndir þar sem við sýnumst sætari en við erum. En fjölmiðlar eru annar vettvangur, þar gefst rými til að komast út úr búbblunni og taka þátt í umræðu innan hefðar fjölmiðlunar – þar sem raddsviðið er allt annað. Þar sem raddir samfélagsins búa ekki bara heldur takast á og skapa menningu okkar á hverjum degi.
Athugasemdir