Ekkja Andemariams Beyene, sem búsettur var hér á landi þegar ákveðið var að græða í hann nýjan barka úr plasti í Stokkhólmi hjá ítalska skurðlækninum Paulo Macchiarini, leitar enn réttar síns gagnvart Landspítala-háskólasjúkrahúsi og Karolinska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð.
Konan, Mehrawit Tefaslase, hefur skoðað réttarstöðu sína gagnvart sjúkrahúsinu með hjálp íslenskra lögmanna með mögulega skaðabótakröfu í huga. Þetta segir annar lögmanna Mehrawit, Sigurður G. Guðjónsson, í samtali við Heimildina. „Við erum að skoða réttarstöðu hennar,“ segir hann. Sigurður hefur meðal annars fengið aðgang að sjúkragögnum Andemariam frá Karolinska-sjúkrahúsinu sem hann fer í gegnum áður en næstu skref í málinu verða ákveðin.
Stundin, annar af fyrirrennurum Heimildarinnar, sagði frá því árið 2018 að Mehrawit vildi fá skaðabætur út af læknismeðferðinni á eiginmanni hennar. Þá hafði íslensk rannsóknarnefnd, sem Páll Hreinsson stýrði, komist að þeirri niðurstöðu að hugsanlega hefði verið brotið gegn mannrétindum Andemariam.
Í skýrslunni var bent á að Landspítalinn ætti mögulega að veita Mehrawit fjárhagsaðstoð svo hún gæti kannað lagalega stöðu og mögulega skaðabótakröfu. Í skýrslunni sagði um þetta: „Ástæðan er ekki síst sú að mál þetta á sér vart neina hliðstæðu á Íslandi og því er ástæða til að Landspítali sýni sérstakt frumkvæði við að leysa úr málinu á sanngjarnan og farsælan hátt fyrir eiginkonu og þrjá syni ATBs. [Andemariam Beyene]“
„Við erum að skoða réttarstöðu hennar“
Ákæruvaldið vill harðari refsingu
Ný málaferli ákæruvaldsins í Svíþjóð gegn Paulo Macchiarini hefjast á millidómsstigi þar í landi í næstu viku. Hann var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í fyrra vegna eins ákæruliðs en ákæruvaldið áfrýjaði þeim dómi. Ákæruvaldið vill að Macchiarini verði dæmdur fyrir fleiri ákæruliði og að dómurinn verði að einhverju leyti óskilorðsbundinn. Athygli vekur að Macchiarini áfrýjar líka dómnum í málinu og vill fá sýknu. Báðir aðilar voru því ósáttir við dóminn.
Macchiarini var ákærður fyrir þrjár af aðgerðunum en var einungis dæmdur fyrir eina þeirra, aðgerðina á tyrknesku stúlkunni Yesim Cetir. Hann var ákærður fyrir líkamsárásir á sjúklingunum þremur, meðal annars Andemariam Beyene, en var einungis dæmdur fyrir að hafa valdið Yesim Cetir líkamstjóni. Mehrawit vitnaði gegn Macchiarini í málinu.
Ítalski skurðlæknirinn var því ekki dæmdur sérstaklega fyrir aðgerðina á Andemariam Beyene. Í dómnum í fyrra hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðin á honum hafi ekki verið í samræmi við vísindi og rannsóknir.
Staðan í málinu er því sú, gagnvart Mehrawit, að Macchiarini hefur ekki verið dæmdur fyrir aðgerðina á Andemariam Beyene og hún hefur ekki fengið neinar bætur vegna fráfalls eiginmanns síns.
Sjúklingar notaðir eins og tilraunadýr
Mehrawit og Andemariam voru búsett á Íslandi þar sem hann lagði stund á nám í jarðfræði. Hann var sendur frá Íslandi til Svíþjóðar sumarið 2011 eftir að krabbamein sem hann var með í hálsi hafði tekið sig upp aftur og læknir hans hér á landi, Tómas Guðbjartsson, vildi athuga hvaða meðferðarúrræði væru fyrir hendi í Svíþjóð. Úr varð að barki úr plasti var græddur í Andemariam án þess að búið væri að prófa þetta meðferðarúræði á dýrum áður en það var reynt á manni. Andemariam lést í kjölfarið þar sem plastbarkinn virkaði aldrei sem skyldi enda höfðu engar rannsóknir verið gerðar sem bentu til þess að hann myndi gera það.
Tómas Guðbjartsson var svo þátttakandi í aðgerðinni á Andemariam árið 2011 og sá um eftirmeðferð hans á Íslandi. Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum var haldið sérstakt málþing um aðgerðina í Háskóla Íslands sumarið 2012. Á málþinginu var um aðgerðina sem stórvirki í læknavísindum. Þá var talað um að aðgerðin á Andemariam hefði gengið vel og var ekki enn búið að greina frá því að engar sannreyndar, læknisfræðilegar forsendur höfðu verið fyrir henni. Ýmsir af stærstu fjölmiðlum heims, sem og íslenskir fjölmiðlar, fjölluðu þá með jákvæðum hætti um aðgerðina á Andemariam.
Andemariam, og hinir sjúklingarnir tveir, voru því í reynd notaðir sem eins konar tilraunadýr þar sem læknismeðferðin hafði ekki verið sannreynd. Plastbarkaaðgerðirnar hafa verið sagðar vera eitt mesta hneyksli sem komið hefur upp í læknisfræði í heiminum.
Mehrawit er í dag búsett i smábæ í Dalarna í Svíþjóð ásamt börnum hennar og Andemariam Beyene.
Athugasemdir (1)