Landspítali Íslands og Háskóli Íslands tengjast einu stærsta rannsóknar- og læknahneyksli sem komið hefur upp í Svíþjóð. Hneykslið snýst um blekkingar og meint lögbrot framin á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi þar sem þrjár veikar manneskjur voru notaðar sem eins konar tilraunadýr við prófanir á aðgerðaformi sem ekki hafði einu sinni verið prófað á dýrum áður.
Ein af þessum manneskjum var búsett á Íslandi og Sjúkratryggingar Íslands borguðu hluta læknismeðferðarinnar fyrir hana þó ekki hafi verið um að ræða þann hluta sem var tilraunameðferð. Á grundvelli aðgerðanna sem byrjað var að gera í Stokkhólmi hóf ítalski skurðlæknirinn sem framkvæmdi aðgerðirnar, Paolo Macchiarini, að gera þær á fólki í Rússlandi, meðal annars á tveimur einstaklingum sem ekki voru lífshættulega sjúkir. Tæpu hálfu ári eftir aðgerðinni birti Macchiarini niðurstöður sínar um fyrstu aðgerðina í læknatímaritinu Lancet.
Raunar er þetta hneyksli það stórt og teygir sig til það margra landa að segja má að það sé ekki sérsænskt heldur alþjóðlegt hneyksli. Þrátt fyrir þetta er lítið fjallað um þetta mál í íslenskum fjölmiðlum. Það er helst fréttastofa Ríkisútvarpsins sem fjallar um málið, eins furðulega og það kann að hljóma miðað við umfang hneykslisins.
Heimildarmyndin hefur miklar afleiðingar
Á meðan er umfjöllun um þetta, að hluta til íslenska, hneykslismál afar fyrirferðarmikil í sænskum fjölmiðlum. Fjölmiðlaumfjöllunin sem gerði það að verkum að þetta mál komst aftur í umræðuna í Svíþjóð eftir umræðu síðasta árs er heimildarmynd sem blaðamaðurinn Bosse Lindqvist hjá sænska ríkisútvarpinu gerði og var sýnd í sjónvarpinu fyrir skömmu. Áður hafði háskólinn Karolinska Institutet, sem Macchiarini var ráðinn til og sem gerði honum kleift að gera aðgerðir á Karolinska sjúkrahúsinu, reynt að þagga málið niður með því að gera sjálfur rannsókn á rannsóknum Macchiarinis innan háskólans.
Heimildarmynd Bosse sýndi fram á hversu mikill kattarþvottur sú rannsókn var. Mynd hans sýnir að rannsóknir Macchiarinis og samstarfsmanna á plastbarkaaðgerðunum byggja að hluta til á blekkingum og hreinum lygum. Í heimildarmyndinni er meðal annars sagt frá því hvernig ung rússnesk kona sem ekki var lífshættulega sjúk en sem glímdi við talörðugleika í kjölfar bílslyss fékk græddan í sig plastbarka og kafnaði hægt og dó á innan við ári.
Karolinska Institutet hefur ákveðið að endurnýja ekki samninginn við Macchiarini þegar hann rennur út síðar á árinu; kallað er eftir afsögn rektors háskólans vegna málsins; menn sem tengjast málinu eru byrjaðir að segja af sér; háskólinn hefur ákveðið að láta utanaðkomandi aðila rannsaka plastbarkaaðgerðirnar; lögreglan í Svíþjóð rannsakar aðgerðirnar sem mögulegt manndráp og kann sú rannsókn að leiða til ákæru síðar meir.
„En við létum sem sagt að lokum slag standa og aðgerðin heppnaðist.“
Málið hófst á Íslandi en Landspítalinn stakk aldrei upp á plastbarkaaðgerð
Landspítalinn og Háskóli Íslands tengjast málinu þannig að árið 2011 varð Erítreumaðurinn Andemariam Beyene, sem búsettur var á Íslandi, fyrsti maðurinn sem fékk græddan í sig barka úr plasti. Andemariam greindist með krabbamein í hálsi á Íslandi árið 2009 og framkvæmdi skurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson á honum skurðaðgerð til að fjarlægja æxlið. Árið 2011 kom svo í ljós að meinið var ennþá til staðar og þurftu læknar Andemariams á Landspítalanum að bregðast við þessari stöðu.
Tómas Guðbjartsson var orðinn ráðþrota um næstu skref til að reyna að vinna bug á meini Andemariams og í apríl árið 2011 og leitaði hann því til Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi eftir áliti á meðferðarúrræðum. Þá hafði Tómas, samkvæmt því sem hann segir, leitað til sérfræðinga í Bandaríkjunum eftir mati á tilfelli Andemariams en fengið þau svör að læknandi meðferð (curative treatment), til að mynda aðgerð þar sem reynt yrði að fjarlægja æxlið úr hálsi hans, var talin illmöguleg og mæltu bandarísku sérfræðingarnir með læknismeðferð þar sem reynt yrði að halda í horfinu með því að auðvelda Andemariam að lifa sem lengst með æxlinu (palliative treatment) án þess að reyna að lækna hans að fullu. Þannig var talið ólíklegt að hægt væri að lækna Andemariam til fulls með þekktum aðferðum.
Fyrsta bréf Tómasar til Karolinska sjúkrahússins vegna Andemariams er dagsett þann 11. apríl og er tölvupóstur frá honum til Paolo Macchiarinis dagsettur sama dag og ræðir Tómas ekkert um mögulega plastbarkaaðgerð í þeim tölvupósti. Hann virðist í upphafi einfaldlega hafa verið að leita eftir öðru áliti á tilfelli Andemariams. Tómas var því ekki, miðað við fyrirliggjandi gögn, sá sem kom með þá hugmynd að plastbarkaaðgerð yrði gerð á Andemariam vegna skorts á öðrum úrræðum.
Í tölvupósti Tómasar til Macchiarinis frá 11. apríl 2011 segir orðrétt: „Stærsta spurningin er hvort mælt sé með geislun, eða þá skurðaðgerð, sem ég held reyndar að gæti orðið snúið í þessu tiltekna tilfelli.“ Í tölvupóstinum kynnir Tómas tilfelli Andemariams fyrir Macchiarini og biður um álit hans og segist ætla að senda honum myndir af meini Andemariams. Þá sendi hann honum formlegt bréf með ítarlegri lýsingu á tilfelli Erítreumannsins sem einnig var dagsett þann 11. apríl.
Macchiarini svarði tölvupósti Tómasar þann 12. apríl og spurði um stærð upphaflega krabbameinsæxlisins sem Andemariam var með í hálsinum og sagði svo: „Ef þú hefur þessar upplýsingar undir höndum, alveg sama hversu snúin aðgerðin verður, þá ættum við að minnsta kosti að reyna að bjarga lífi þessa námsmanns.“ [Andemariam var við nám í jarðfræði á Íslandi].
Tómas hefur verið tvísaga en svarar ekki af hverju
Tómas hefur reyndar verið tvísaga um þennan aðdraganda aðgerðarinnar. Það er að segja hvernig það gerðist að hann hafði samband við Karolinska sjúkrahúsið og af hverju. Í viðtali við Vísi árið 2012, ári eftir aðgerðina þegar henni var hampað sem inngripi sem bjargaði lífi Andemariams, sagði hann um aðdragandann: „Þá mundi ég eftir fyrirlestri sem ég hafði séð Dr. Paolo Macchiarini, á Karolínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð, flytja um barkaígræðslu sem hann hafði framkvæmt þar sem notast hafði verið við barka úr látnum einstaklingi sem hann hafði þakið stofnfrumum úr líffæraþeganum. […] Slík aðgerð kom ekki til greina í þessu tilfelli vegna langrar biðar eftir líffæri en Macchiarini hafði einnig gert tilraunir með gervilíffæri þakin stofnfrumum sem hann hafði grætt í dýr. Slík aðgerð hafði hins vegar ekki verið framkvæmd á manni. En við létum sem sagt að lokum slag standa og aðgerðin heppnaðist.“
Tekið skal fram að nú hefur komið í ljós að Macchiarini hafði ekki gert neinar tilraunir með gervilíffæri sem höfðu verið grædd í dýr, líkt og Tómas sagði í þessu viðtali. Í heimildarmynd sænska ríkisútvarpsins kom meðal annars fram að Macchiarini hefði sagt við Andemariam að hann hefði prófað plastbarkaaðgerðina á svínum áður en plastbarkinn var græddur í Andemariam. Slíkt hið sama kom fram í viðtali við Andemariam í Kastljósi í lok árs árið 2011. Spurningin er sú hvort Macchiarini hafi einnig logið að Tómasi og öðrum læknum sem tóku þátt í aðgerðinni.
Í samtali við Stundina í síðustu viku sagði Tómas hins vegar að hann hefði fyrst haft samband við Karolinska sjúkrahúsið - ekki Macchiarini - og að annar læknir á sjúkrahúsinu hefði bent honum á að tala við Macchiarini sem þá hefði nýlega verið ráðinn á sjúkrahúsið. „Við erum ekki hafðir með í ráðum hvort þetta sé góður valkostur eða ekki. Þetta er bara meðferð sem þeir bjóða upp á þegar hann er tekinn til umjöllunar þar. […] Ég sagði það í Kasljósviðtalinu sem ég fór í að Andemariam hefði hringt í mig og sagt mér að þetta væri í spilunum og spurði mig út í þetta og ég var bara jafn hissa og hann. Ég vissi að Macchiarini var þekktur fyrir aðgerðir þar sem hann notaði gjafabarka eftir að hafa birt greinar um þetta í Lancet en þannig öðlaðist hann heimsfrægð. Þú tekur þá barka úr látnum einstaklingi, hreinsar hann og setur stofnfrumur á hann. En þarna er hann að prófa eitthvað nýtt.“
Í viðtali á vef Háskóla Íslands sem birt var í tilefni af ársafmæli aðgerðarinnar árið 2011 sagði Tómas enn frekar að hann hefði haft samband við Paolo Macchiarini beint. Orðrétt segir í textanum: „Um sjaldséð krabbamein í barka var að ræða og reyndist erfitt að hemja það með geislameðferð, að sögn Tómasar. Hann hafði þá samband við Paulo Macchiarini, sem þá var nýráðinn prófessor á Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. „Hann hafði um nokkurt skeið unnið með vísindamönnum í Boston og London að gerð gervibarka úr plasti sem hugmyndin var að græða í manneskju. Hann tók erindi mínu vel.““
Í gögnum sem Tómas sendi til Karolinska Institutet vegna rannsóknar háskólans á plastbörkum Macchiarinis eru tvær útgáfur af formlega bréfinu með kynningu á tilfelli Andemariams. Önnur útgáfan er dagsett þann 11. apríl en hin þann 12. apríl - Tómas sendi tölvupóstinn til Macchiarinis þann 11. apríl og fékk svar frá honum þann 12. Tómas hafði því samband beint við Macchiarini um svipað leyti og hann hafði samband við Karolinska.
Tómas hefur ekki viljað svara fyrir þessar ólíku útgáfur af aðdraganda þess að Karolinska tók yfir meðferð Macchiarinis. Hann segir að erfitt geti verið að muna hvað maður sagði í viðtölum fyrir nokkrum árum. „Það er hæpið að telja sig muna í smáatriðum hvað maður sagði við blaðamann í einu viðtali af mörgum fyrir 4 árum. Stundum hefur maður tök á því að lesa yfir viðtöl og leiðrétta, en stundum leyfir tími blaðamanns eða manns sjálfs það ekki.“
Hver er því ástæðan fyrir þessum mótsögnum í máli Tómasar? Ein möguleg ástæða er sú að hann hafi vitandi vits gert of mikið úr þætti sínum í plastbarkaaðgerðinni þegar talað var um það að aðgerðin hefði bjargað lífi Andemariams Beyene. Hugsanlegt er að nú vilji hann hins vegar reyna að fjarlægja sig eins mikið og hann getur frá aðgerðinni og Paolo Macchiarini þar sem aðgerðir hans og rannsóknir eru orðnar að hneykslismáli.
Í 20 grein siðareglna lækna stendur að lækni sé ósæmandi að vekja á sér ótilhlýðilega athygli, meðal annars með því að greina ranglega frá aðkomu sinni að málum: „Lækni er ósæmandi að vekja á sér ótilhlýðilega athygli eða gefa í skyn yfirburði sína yfir aðra lækna með því að hampa eða láta hampa menntun sinni, þekkingu, hæfni, afrekum, aðferðum eða vinsældum, hvort heldur er í auglýsingum, á vefsíðum, í viðtölum, blaðagreinum, ritgerðum, fyrirlestrum, útvarpserindum, sjónvarpi eða á annan hátt. Læknir má ekki veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti, og afla sér viðskipta með öðrum ótilhlýðilegum aðferðum.“
Kom Tómasi á óvart að heyra að engar dýratilraunir hafi verið gerðar
Um tilraunirnar á dýrum með gervilíffæri segir hann við Stundina að það hafi komið honum á óvart að heyra Macchiarini segja í heimildarmyndinni að engar tilraunir hafi verið gerðar á dýrum áður en plastbarkinn var græddur í Andemariam: „Eins og ég sagði þér í símanum þá man ég ekki nákvæmlega hvernig þetta var með dýratilraunir, en ég nefndi þær við visir.is þegar viðtalið var tekið ári frá aðgerð. Á málþinginu sýndi Paolo myndir úr ýmsum tilraunum og það kom mér því algjörlega á óvart að heyra hann segja í Document inifrån að ekki hefðu verið gerðar dýratilraunir áður en til aðgerðarinnar kom. Mér þykir leitt að geta ekki verið nákvæmari um dýratilraunirnar en þarna voru kynntar margháttaðar rannsóknir á þessari nýju aðferð, meðal annars hvernig frumur næðu að vaxa á þessu plastefni. En hvernig dýratilraunirnar tengdust notkun á plastbarkanum eða öðrum sviðum þessara rannsókna þá á ég erfitt með að muna það svo mörgum árum síðar.“
Miðað við þetta stóð Tómas í þeirri trú að plastbarkaaðgerðin á Andemiaram byggði að hluta til á dýratilraunum þar til sænska ríkissjónvarpið sýndi heimildarmyndina um Macchiarini nú árið 2016. Ef þetta er rétt þá hélt Tómas sjálfur að vísindalegur bakgrunnur plastbarkaaðgerðanna væri traustari en hann reyndist vera. Tómas getur hins vegar ekki hafa lesið um slíkar dýratilraunir á prenti eða í útgefnum vísindaritgerðum þar sem slík skrif eru ekki til. Þá ber að nefna að engar tilraunir sem hafa verið gerðar hafa sýnt fram á að frumur geti lifað á plastefninu sem var í plastbarkanum sem græddur var í Andemariam og Macchiarini hefur sjálfur viðurkennt að plastbarkinn virkar ekki og engar tilraunir hafa fundist sem gerðar voru á dýrum áður en barkinn var græddur í Andemariam.
Sem dæmi má nefna að áratugir geta liðið frá því að læknisfræðilegar aðferðir eru prófaðar á dýrum og þar til þær eru prófaðar á mönnum. Til að mynda í tilfelli nýs aðgerðarforms á skaða á mænu þar sem frumum úr nefi einstaklings er sprautað sitt hvorum megin við mænuskaðann og vonast eftir því að meinið grói sem best fyrir vikið. 20 ár liðu frá því þessi tækni var prófuð á dýrum og þar til hún var prófuð á mönnum fyrir skömmu. Macchiarini sleppti hins vegar þessu millistigi sem felst í prófunum á dýrum og græddi plastbarka beint í mann og síðan var aðferðin prófuð á rottum - og mistókst.
Þá liggur fyrir að Tómas hefur sagt að hann hafi haldið að Macchiarini hafi fengið leyfi vísindasiðanefndarinnar til að framkvæma plastbarkaaðgerðirnar áður en þetta var gert en þetta kom meðal annars fram í bréfi sem Tómas sendi til Karolinska í ágúst 2013, tæpu hálfu ári áður en Andemariam dó. Með bréfinu bað hann Karolinska að taka við Andemariam þar sem hann var orðinn fárveikur og taldi Tómas upp þau einkenni sem hann var með. Andemariam lá svo á spítalanum þar til hann lést. Í bréfinu sagði Tómas að „siðferðilegt samþykki“ frá vísindasiðanefndinni sænsku hefði fengist fyrir því að gera aðgerðina enda kom þetta fram í greininni um Andemariam sem hann sjálfur var meðhöfundur að. Þetta reyndist svo vera rangt en vísindasiðanefndin sænska samþykkti aldrei aðgerðarformið og hefði aldrei gert það þar sem ekki var búið að rannsaka aðgerðartæknina að neinu marki, til dæmis með prófunum á dýrum, áður en Andemariam fékk plastbarkann.
„Með þessu æxli get ég lifað í tvö til þrjú ár.“
Hversu langt átti Andemariam eftir?
Ein af stóru spurningunum sem Bosse Lindqvist spyr í heimildarmynd sinni er hversu langt Andemariam hafi átt eftir ólifað ef hann hefði ekki farið í plastbarkaaðgerðina. Í viðtali er haft eftir Macchiarini að hann hafi hugsanlega átt um sex mánuði eftir. Macchiarini verður hins vegar reiður þegar Bosse Lindqvist dregur í efa þetta mat hans og biður hann um að rökstyðja það betur. Macchiarini segir að í spurningu blaðamannsins felist alvarleg ásökun gagnvart heilbrigðisstarfsfólki, ásökun um að það hafi ekki haft rétt við gagnvart sjúklingi, og neitar hann að svara henni í heimildarmyndinni.
Orð Macchiarinis um Andemariam eru hins vegar allt önnur en orð Andemariams sjálfs í Kastljósviðtalinu sem tekið var við hann í lok árs 2011, tæpu hálfi ári eftir plastbarkaaðgerðina. Þar sagði Andemariam að hann hefði hugsanlega átt tvö til þrjú ár eftir án aðgerðar og að Macchiarini hefði beitt hann þrýstingi í aðdraganda aðgerðarinnar - líklega á Andemariam við Macchiarini þegar hann lýsir þrýstingnum en hann segir bara „hann“. Orðrétt sagði Andemariams: „Ég sagði nei, ég sagði nei. Ég sagði honum: Með þessu æxli get ég lifað í tvö til þrjú ár. Ég vil frekar forðast þessa aðgerð og sjá til í tvö ár og sjá svo til. En hann reyndi að sannfæra mig, að láta mig trúa, hann var mjög sannfærður þegar hann var að segja mér þetta. Hann sagði við mig: Ef þú vilt sjá börnin þín vaxa úr grasi þá verðurðu að fara í þessa aðgerð. Þannig að ég ákvað að gera það en ég var hræddur, ég var mjög hræddur.“
Nú er ekki hægt að útiloka að Andemariam hafi sjálfur verið að giska á mögulegar lífslíkur sínar í viðtalinu við Kastljós en langlíklegast er hins vegar að orð hans hafi byggt á mati læknis enda er erfitt fyrir fólk sem ekki hefur reynslu af meðhöndlun illvígra sjúkdóma að meta eigin lífslíkur. Í skjali sem hefur að geyma meint upplýst samþykki Andemariams fyrir aðgerðinni - skjali sem reyndar var undirritað rúmum tveimum vikum eftir aðgerðina í júní 2011 - kemur samt fram að hann samþykki það mat að plastbarkaaðgerðin hafi verið eini möguleiki hans til að lifa af: „[Þ]etta er eini möguleiki minn til að lifa af.“
Upplýsingarnar í máli Andemariams í Kastljósviðtalinu eru svo aðrar en komu fram í máli Tómasar Guðbjartssonar eftir aðgerðina og æ síðan þar sem hann hefur sagt að hann hafi einungis átt vikur eða mánuði eftir. Í viðtali við Vísi í lok ágúst í fyrra sagði Tómas að aðgerðin hefði ekki verið misheppnuð þar sem hún hefði lengt líf Macchiarinis. „Ég er bara alls ekki sammála því. Ég held að þessi aðgerð hafi tekist vel. Það komu upp vandkvæði og það var viðbúið, því svona aðgerð hafði aldrei verið gerð áður í heiminum. Fólk gleymir því að þegar þessi ákvörðun um aðgerð var tekin þá voru lífshorfur hans mældar í einhverjum vikum.“
Síðast á föstudaginn 5. febrúar sendu læknarnir fjórir sem upphaflega sendu kvörtun vegna blekkinga Macchiarinis til Karolinska Institutet inn grein sem birtist í sænskum miðli þar sem þeir draga í efa að Andemariam hafi verið eins veikur og talað var um. „Ástandi hans er ítrekað lýst sem stöðugu og án einkenna í sjúkraskrám,“ stendur í greininni.
Þessi spurning, um lífslíkur Andemariams, er ein af þeim sem hvað helst er rædd í Svíþjóð í tengslum við Macchiarini-málið vegna þess að Bosse Lindqvist varpaði ljósi á þetta vafaatriði í heimildarmynd sinni. Í grein í Dagens Nyheter á sunnudaginn sagði til dæmis um þetta og er vísað í viðtal við lækninn Bengt Gerdin sem í fyrra skilaði gagnrýnni skýrslu um plastbarkarannsóknir Macchiarinis: „Í heimildarmynd Bosse Lindqvist eru upplýsingar sem stangast á um heilsu námsmannsins frá Erítreu áður en hann fór í aðgerðina. Samkvæmt Paolo Macchiarini var hann dauðvona. Aðrar heimildir eru á öðru máli. En jafnvel þó ástand sjúklings hafi verið þannig að hann væri dauðvona þá þýðir það ekki að læknirinn megi bara gera það sem honum sýnist […] Þriðji hluti allra sjúklinga á krabbameinsdeildum er lífshættulega veikur. Þetta þýðir samt ekki að krabbameinslæknarnir megi gera það sem þeir vilja við þetta fólk. Sænsk háskólasjúkrahús mega ekki fá til sín dauðvona manneskjur víðs vegar að úr heiminum og hætta að fylgja regluverkinu sem er til um vísindarannsóknir á þeim forsendum að þær manneskjur sem hingað koma eru á endanum deyjandi.“
Sem sagt: Þó að spurningin um raunverulegt ástand Andemariams sé mikilvæg þá er það líka þannig, óháð svarinu við henni, að Macchiarini fylgdi ekki reglum um rannsóknir í tilfelli plastbarkaaðgerðarinnar. Brot hans á þessum reglum er hins vegar auðvitað alvarlegra ef sýnt verður fram á að það sé ekki rétt að Andemariam hafi einungis átt vikur eða mánuði eftir ólifaða.
Tómas Guðbjartsson getur sannarlega varpað ljósi á þessa spurningu en hann kýs að gera það ekki þar sem honum finnst ekki við hæfi að læknir tjái sig um lífslíkur sjúklings. „Við læknar erum bara ekki vanir því að tala í svona tölum.“ Tómas hefur samt áður tjáð sig um lífslíkur Andemariams og sagði þá að hann hefði átt vikur eða mánuði ólifaða.
Vissu íslensku læknarnir betur?
Tómas Guðbjartsson tók þátt í aðgerðinni á Andemariam sem gerð var í Stokkhólmi þann 9. júní árið 2011. Eftir aðgerðina fór Andemariam Beyene aftur til Íslands og voru gerðar á honum fjórar berkjuspeglanir sem sýndu stöðuna á hálsi hans eftir aðgerðina. Óskar Einarsson lungnalæknir gerði þessar speglanir og var Tómas Guðbjartsson viðstaddur að minnsta kosti eina þeirra, speglunina sem var gerð þann 16. ágúst. Þeir sendu speglarnirnar til Paulo Macchiarinis á Karolinska-sjúkrahúsinu.
Í heimildarmynd sænska ríkissjónvarpsins er sýnt myndband frá þessari speglun þar sem þeir Óskar og Tómas ræða meðal annars saman um hvernig þeir meta stöðuna á hálsi Andemariams Beyene. Síðasta speglunin var gerð þann 20. otkóber 2011, tæpum mánuði áður en grein Paolo Macchiarinis - Tómas og Óskar voru meðhöfundar - um aðgerðina var birt í læknatímaritinu Lancet.
Í skýrslu áðurnefnds Bengts Gerdins um plastbarkaaðgerðir Macchiarinis gagnrýnir hann eina af helstu staðhæfingum greinarinnar um að öndunarvegur Andemariams hafi verið „næstum því eðlilegur“ rúmum fimm mánuðum eftir aðgerðina þegar greinin var birt. Í greininni í Lancet stóð: „Fimm mánuðum eftir ígræðsluna er sjúklingurinn einkennalaus, andar eðlilega, er ekki með krabbameinsæxli og er með næstum því eðlilegan öndunarveg.“ Gerdin segir í skýrslu sinni að hann hafi ekki fundið neinar upplýsingar í sjúkraskrám eða annars staðar sem sanni að þessi fullyrðing sé rétt.
Þessi niðurstaða í greininni byggir meðal annars á spegluninni sem gerð var á Andemariam á Íslandi í ágúst 2011 en niðurstöðurnar úr þeirri speglun sýndu ekki þessa niðurstöðu sem kemur fram í greininni í Lancet eins og segir í heimildarmynd sænska ríkissjónvarpsins. Greinin sem birt var í Lancet var send til blaðsins í byrjun október áður en síðasta barkaspeglunin var gerð á Andemariam á Íslandi þann 20. október 2011. Út frá berkjuspeglunum sem þeir Tómas og Óskar höfðu séð vissu þeir samt að það sem þeir sáu var ekki „næstum því eðlilegur“ öndunarvegur. Hann gat ekki orðið eðlilegur þar sem fyrir liggur að sú aðferð að þekja plastefnið með stofnfrumum til að reyna að búa til eðlilegan öndunarveg virkar ekki, frumurnar deyja bara á plastinu.
Bosse Lindqvist túlkar niðurstöðurnar úr berkjuspegluninni þannig í heimildarmyndinni að þær hafi verið „mikilvægur grundvöllur“ fyrir þær upplýsingar sem koma fram um ástand plastbarka Andemariams í Lancet-greininni. Hann segir að „erfitt“ hafi verið að taka próf úr vefnum sem átti að hafa myndast á plastbarkanum. „Á endanum tókst læknunum að ná upp nokkrum plastögnum. Þegar agnirnar voru greindar fundust einstaka frumur. Þetta voru þó ekki frískar barkafrumur en þær hefðu tæknilega séð getað orðið það. En að mestu var þetta bara dauður, bakteríu- og sveppasýktur vefur.“ Á myndbandinu heyrist Tómas segja að svo virðist vera sem einhver „bólga“ sé í hálsi Andemariams og Óskar segir að erfitt sé að ná gripi á vef í barkanum og kemur fram í máli þeirra að plastið sé nakið, eins og lítið hafi myndast af lífvænlegri þekju úr stofnfrumunum. Bosse Lindqvist segir að Macchiarini hafi svo logið um þessar niðurstöður í greininni í Lancet þar sem hann sagði að engar bakteríu- eða sveppasýkingar hefðu verið í barkanum auk þess sem lífvænleiki þekjunnar á plastinu hafi verið stórlega ýktur.
Í erindi sem Tómas og Óskar sendu til Karolinska Institutet í fyrra sögðu þeir um þessa barkaspeglun að hún hefði sýnt ósýktan plastbarka. Lýsing þeirra á hálsi Andemariams er hins vegar ekki þannig að hún sýni næstum því eðlilegan öndunarveg endu sögðu þeir ekkert slíkt í skrifum sínum til Karolinska Institutet í fyrra og bentu meðal annars á blæðingu í hægra lunganu sem sást í spegluninni þann 20. október. Slíka lýsingu um „næstum eðlilegan öndunarveg“ var hins vegar að finna í greininni í Lancet sem var birt mánuði eftir berkjuspeglunina sem þeir gerðu þann 20. október. Tekið skal fram að í niðurstöðunni úr berkjuspegluninni frá Óskari stendur ekki að öndunarvegurinn sé „næstum því eðlilegur“ og er þessi túlkun því ekki komin frá íslensku læknunum heldur frá þeim sem haldið hefur um pennann þegar Lancet-greinin var skrifuð.
Í skýrslu sinni gagnrýndi Gerdin meðal annars að ekki hefði verið greint satt og rétt frá líkamlegu ástandi Andemariams í greininni í Lancet vegna þess að ljóst væri að hann hefði verið rannsakaður á Íslandi. Niðurstöðurnar úr rannsóknunum á Íslandi voru hins vegar ekki með í þeim rannsóknargögnum sem Gerdin hafði aðgang að. Gerdin benti á að þremur dögum áður en ritgerðin birtist í Lancet þann 24. nóvember var Andemariam skoðaður á Karolinska-sjúkrahúsinu og þá hafði honum farið aftur, hann hafði lést um sjö kíló og vísbendingar voru um að hægra lungað í honum virkaði ekki. „Niðurstöðurnar úr rannsóknunum sem gerðar voru á Íslandi eru ekki hluti af rannsóknargögnunum en það er mjög ólíklegt að sjúklingurinn hafi verið einkennalaus eftir fimm mánuði, það er að segja fjórtán dögum áður en hann lagðist inn á Karolinska. Hér þarf að taka fram að á Íslandi naut sjúklingurinn læknismeðferðar hjá öðrum þeirra tveggja Íslendinga sem voru meðhöfundar að greininni. Það hefði sem sagt verið mögulegt, jafnframt án nokkurra vandkvæða, að vera öruggur um rétt heilsufarsástand sjúklingsins fimm mánuðum eftir aðgerðina.“
Sem sagt: Íslensku læknarnir tveir sendu niðurstöður úr barkaspeglununum til Karolinska og þar var greinin í Lancet skrifuð. Þeir vissu eftir að hafa gert barkaspeglarnirnir að það var ekki rétt lýsing sem fram kom í greininni að Andemariam væri „einkennalaus“ og hefði „næstum því eðlilegan öndunarveg“. Samt leiðréttu þeir þetta ekki, létu ekki vita opinberlega að þetta væri rangt eða kröfuðst þess ekki að nöfn þeirra yrðu tekin af höfundalista greinarinnar þar sem þessar röngu upplýsingar komu fram.
Á það skal bent, til samanburðar, að í skýrslu Gerdins er einnig bent á það að einn sænskur læknir sem vann að rannsóknum Macchiarinis á ígræðslum plastbarka í rottur, eftir að ígræðslan á Andemariam fór fram, krafðist þess að nafn hans yrði ekki talið upp í grein sem Macchiarini birti þar sem niðurstöður þeirrar rannsóknar voru falsaðar. Þessi rannsókn var gerð um það bil ári eftir að plastbarkinn var græddur í Andemariam og þá höfðu alls fjórir einstaklingar fengið plastbarka. Í greininni kom fram að stofnfrumur úr rottunni sem settar voru á plastbarkann hefðu leitt til þess að líffræðilegur vefur myndaðist á plastbarkanum. Sænski læknirinn vissi að þetta væri rangt og þess vegna vildi hann ekki skrifa upp á þessa niðurstöðu. Íslensku læknarnir gerðu hins vegar ekkert þessu líkt, hvorki áður en greinin í Lancet birtist né eftir. Sú aðferð að þekja plastbarka með stofnfrumum til að búa til eðlilegan öndunarveg virkaði ekki í tilfelli Andemarian og hún virkaði heldur ekki í tilfelli rottunnar. Sænski læknirinn lét rektor Karolinska Institutet vita að rotturannsóknir Macchiarinis fælu í sér blekkingar í janúar 2014 en háskólinn gerði ekkert í því máli svo vitað sé.
Ekkert óeðlilegt sögðu rannsóknir
Karolinska Institutet var hins vegar ekki sammála þeirri niðurstöðu Gerdins að Macchiarini hefði gerst sekur um vísindalegt misferli í rannsóknum sínum og í lok ágúst í fyrra birti haskólinn þá niðurstöðu sína að Paulo Macchiarini hefði ekki gerst sekur um blekkingar og misferli í greinum sínum, meðal annars þeirri í Lancet.
Í kjölfar þeirrar niðurstöðu voru birt viðtöl við Tómas í íslenskum fjölmiðlum þar sem hann sagði að „þungu fargi“ væri af honum létt og niðurstaðan væri áfellisdómur yfir skýrslu Gerdins. „Já mér finnst það tvímælalaust og vinnubrögðunum í kringum hana. Það var ekkert haft samráð við okkur læknana hérna á Íslandi þegar skýrslan fór út og það hefði verið einfaldasta mál í heimi að taka upp síma og biðja um þessi gögn. Og þau sem sagt komu ekki fyrr en eftir að skýrslan var farin út og fjölmiðlar voru búnir að taka við sér og gera svona mikið mál út úr þessu. Og þetta hefur tekið sem sagt marga mánuði, næstum því hálft ár að vinda ofan af þessu, svona rugli eins og ég vil kalla það.“
Þegar þessi niðurstaða Karolinska Institutet kom var hins vegar lítið sem ekkert rætt um efnislegar hliðar gagnrýni Gerdins á greinina í Lancet í íslenskum fjölmiðlum. Hvorki Tómas né Óskar hafa þurft að svara fyrir þá efnislegu gagnrýni sem kemur fram í skýrslu Gerdins eða nú í heimildarmynd Bosse Lindqvists.
Þremur dögum eftir að Karolinska Institutet birti niðurstöðu sína og Tómas kallaði niðurstöðu Gerdins „rugl“ greindi Landspítalinn frá niðurstöðu sinni í svokallaðri rótargreiningu á málinu. Í frétt um málið á Vísi með yfirskriftinni „Rakalausar ásakanir gegn íslenskum læknum“ sagði Ólafur Baldursson, forstjóri lækninga á spítalanum, að ekkert óeðlilegt hefði komið fram í athugun spítalans á vinnubrögðum starfsmanna sinna í Macchiarini-málinu. „Þetta mál var mjög sérstakt að því leyti að tveir af okkar færustu og farsælustu læknum urðu fyrir mjög alvarlegum ásökunum, meðal annars í fjölmiðlum í Svíþjóð. En niðurstaðan var í stuttu máli sú að læknum spítalans og starfsfólki spítalans tókst að bjarga lífi þessa sjúklings og síðan í framhaldi, með samvinnu við aðra, að lengja líf hans umfram það sem búast mátti við.”
Ólafur gerði forsendurnar fyrir niðurstöðunni úr rótargreiningunni hins vegar ekki opinberar og sagði heldur ekki frá því hvað hann teldi hafa falist í ásökununum. Í skýrslu Gerdins er heldur ekki að finna neinar beinar ásakanir gegn íslensku læknunum tveimur þó fjallað sé efnislega um þeirra aðkomu að meðferðinni á Andemariam Beyene og blekkingar sem kom fram í Lancet-greininni sem þeir voru meðhöfundar að.
„Auðvitað er ekki auðvelt að sitja og bíða.“
Hvað gera íslensku stofnanirnar nú?
Nú hefur Karolinska Institutet hins vegar ákveðið að láta rannsaka málið aftur. Ekki hefur komið fram hvort Landspítalinn hyggst einnig gera það í ljósi þess og að stóru leyti á grundvelli niðurstaðna Gerdins eins og kom fram í grein í Dagens Nyheter á sunnudaginn.
Háskóli Íslands telur hins vegar að enginn skuggi hafi fallið á þá lækna sem komu að málinu. Í tölvupósti frá Magnúsi Karli Magnússyni, deildarforseta Læknadeildar Háskóla Íslands, sem blaðamaður Stundarinnar hefur fengið sendan frá þriðja aðila segir: „Varðandi hlut íslenskra lækna, þá hefur enginn skuggi fallið á þeirra faglegu aðkomu að þessu flókna máli sem þættir sænsku sjónvarpsstöðvarinnar koma inn á. Eins og þú væntanlega skilur þá eru margar hliðar á svo flóknu máli, en þær deilur sem hafa staðið uppi snúast að öðrum aðilum en þeim íslensku læknum sem báru ábyrgð á meðhöndlun eins sjúklingsins hér heima á Íslandi.“
Háskóli Íslands hélt meðal annars málþing um aðgerðina á Andemariam þegar ár var liðið frá henni og hélt Magnús Karl meðal annars erindi. Á málþinginu var aðgerðinni stillt upp sem stóru skrefi í læknisfræði og var hún kynnt eins og hún hefði verið árangursrík og að Andemariam „heilsaðist vel“ eins og sagði á heimasíðu háskólans undir fyrirsögninni „Vel heppnuð málþing um tímamótaaðgerð“.
Í samtali við Stundina segir Magnús Karl að hann sé á þeirri skoðun að hingað til hafi ásakanirnar í málinu ekki beinst að íslensku læknunum. „Ég sé ekkert sem hefur komið fram í þessu máli sem bendir til að aðkoma íslensku læknanna hafi verið athugaverð.“ Aðspurður hvort maður eigi að mótmæla því ef maður veit að staðhæfingar í grein sem maður er meðhöfundur að séu rangar segir Magnús Karl að „ekkert hafi komið fram sem staðfesti að rangar staðhæfingar hafi verið í greininni“. „Það er túlkunaratriði hversu lífvænleg þekjan er á berkjuninni eftir aðgerðina,“ segir Magnús Karl.
Tekið skal fram, eins og áður segir, að engin rannsókn er til sem staðfestir að hægt sé að búa til eðlilegan, venjulegan barka í dýrum eða mönnum með því að þekja plast með stofnfrumum enda hafa allir sem fengu græddan í sig plastbarka dáið fyrir utan eina tyrkneska konu sem haldið hefur verið á lífi á gjörgæsludeild í meira en þrjú ár. Magnús Karl má hins vegar skilja sem svo að á þeim tíma sem þessar staðhæfingar voru settar fram í Lancet-greininni hafi þær verið réttar þar sem einhverjar lífvænlegar frumur hafi sannarlega fundist við greiningu á hálsi Andemariams. Berkjuspeglunin frá 16. ágúst sýnir sannarlega fram á þetta en á hvaða tímapunkti voru svo allar þessar frumur dauðar og hvenær hætti plastbarki Andemariams að vera með lífvænlegri þekju?
Á þeim tímapunkti, að minnsta kosti, hætti læknismeðferðin á honum að vera læknandi meðferð og byrjaði að vera pallitiave-meðferð, eins konar líknandi meðferð þar sem fyrir liggur að manneskja getur ekki lifað til lengdar með ónýtan plastbarka sem líkami viðkomandi hefur hafnað. Að minnsta kosti þá var Andemariam kominn aftur á byrjunarreit: Læknismeðferðin á Andemariam snerist ekki lengur um að reyna að lækna hann heldur að halda í horfinu og halda öndunarvegi hans opnum og lausum við dauðan vef auk þess sem net var sett í barkann til að auðvelda honum að anda. Alveg ljóst er að þessu stigi hafði verið náð í meðferð Andemariams um það leyti sem málþingið um aðgerðina var haldið í Háskóla Íslands á ársafmæli aðgerðarinnar, eins og kemur fram í heimildarmynd sænska ríkissjónvarpsins.
Magnús Karl segir að Háskóli Íslands verði að bíða eftir niðurstöðu Karolinska Institutet þar sem skólinn hafi ekki aðgang að gögnum sænska háskólans. „Auðvitað er ekki auðvelt að sitja og bíða en við getum ekki lýst því yfir að Karolinska stofnunin hafi haft rangt við fyrr en fyrir liggur nákvæm rannsókn á því hvernig var að þessu staðið.“
Ekki náðist í Ólaf Baldursson, forstjóra lækninga á Landspítalanum, en ekki hefur frést af því að spítalinn muni gera aðra rótargreiningu á aðkomu spítalans að Macchiarini-málinu í kjölfarið á fjölmiðlafumfjölluninni um heimildarmynd sænska ríkissjónvarpsins.
Spurningar sem þarf að fá svör við
Hvað svo sem Landspítalinn og Háskóli Íslands segja um málið þá liggja fyrir fjölmargar spurningar í málinu sem Tómas og Óskar hafa ekki svarað. Lásu þeir greinina í Lancet yfir áður en hún var birt? Hvenær lásu þeir greinina eftir að hún var birt og hvenær áttuðu þeir sig þá á því að árangur aðgerðarinnar á hálsi Andemariams var stórkostlega ýktur í greininni sem þeir voru meðhöfundar að og sem var mikilvægasta greinin sem Macchiarini skrifaði? Af hverju stigu þeir ekki fram og sögðu frá því að árangur aðgerðarinnar hefði verið ýktur í Lancet-greininni þegar þeir vissu að svo var eftir að hafa ítrekað skoðað hálsinn á Andemariam? Geta þeir svarað því hvenær þekjan úr stofnfrumunum í hálsi Andemariams hætti að vera lífvænleg, hvenær lá ljóst fyrir að stofnfrumuþáttur aðgerðarinnar hafði brugðist og að líkami Andemariams hefði því ekki tekið við hinu nýja líffæri líkt og hann átti að gera? Af hverju sagði Tómas ekkert um þetta í þeim fjölmörgu viðtölum sem hann fór í við fjölmiðla um það hvernig hann kom að því að bjarga lífi Andemariams? Er réttmætt að frá þeim tímapunkti þegar aðgerðin á Andemariam var sögð hafa heppnast vel um sumarið 2012 og alveg þar til Macchiarini-málið varð opinbert í fyrra töldu sjálfsagt flestir Íslendingar sem höfðu lesið um málið að plastbarkaaðgerðirnar á fólki hefðu verið vel heppnaðar? Á hvað tímapunkti átti Tómas Guðbjartsson að segja sannleikann um aðgerðina á Andemariam rétt eins og hann steig fram í viðtölum og tjáði sig um að hún hefði tekist vel?
Andemariam Beyene dó í ársbyrjun 2014, 30 mánuðum eftir aðgerðina, vegna þess að öndunarfæri hans gáfu sig. Þá hafði um 90 prósent af plastbarkanum losnað samkvæmt krufningarskýrslu hans, barkinn var fullur af dauðum vef og ekki fannst krabbamein í hálsi hans. Plastbarkaaðgerðin og afleiðingar hennar á öndunarfæri hans drógu hann til dauða á endanum og er ein af stóru spurningunum í málinu hvort krabbameinsæxlið hefði orðið honum að aldurtila á lengri eða skemmri tíma en 30 mánuðum.
Í viðtali við Bosse Lindqvist viðurkennir Macchiarini að hann hafi hætt að græða plastbarka í fólk vegna þess að þeir virka ekki. „Nei, þetta er ástæðan fyrir því að við hættum klínískum tilraunum á plastbörkunum og við erum að bíða eftir því að fá betri barka. [...] Mögulega verður allt betra - miklu betra - í tilfelli næstu sjúklinga,“ segir hann í lok heimildamyndarinnar en Bosse segir að svo virðist sem skurðlæknirinn telji að tilraunirnar á sjúklingunum á Karolinska hafi verið þess virði. Þetta er ein af niðurstöðunum í heimildarmyndinni en í upphafi hennar kvartar Macchiarini yfir því að þurfa að verja dýrmætum sínum í að svara spurningum um plastbarkaaðgerðirnar því tíminn sem fari í það komi í veg fyrir að hann geti sinnt rannsóknum sínum.
Tómas Guðbjartsson svaraði ekki í síma eða beiðni um viðtal sem send var í tölvupósti.
Stundin gerði tilraun til að hringja í Óskar Einarsson en hann svaraði ekki.
Pistill uppfærður klukkan 00:01 þann 10. febrúar
Landspítalinn hefur sent Stundinni svar við fyrirspurn um hvort til standi að gera aðra rótargreiningu á aðkomu spítalans að Macchiarini-málinu. Í svarinu segir að ekki sé „fyrirhugað að gera nýja athugun að svo stöddu“. Landspítalinn er hins vegar í samtarfi við þá aðila sem standa að rannsókn málsins í Svíþjóð. Í svarinu frá upplýsingafulltrúa Landspítalans segir orðrétt: „Í tengslum við umfjöllun í fjölmiðlum um sjúkling sem fékk plastbarka með stofnfrumumeðferð við Karólínska sjúkrahúsið sumarið 2011 vill Landspítali koma eftirfarandi á framfæri. Umræddur sjúklingur var haldinn illkynja æxli í barka sem hafði tekið sig upp eftir fyrri meðferð. Það var álit lækna á Landspítala, í Boston og á Karólínska sjúkrahúsinu að ekki var hægt að bjóða frekari meðferð á Landspítala. Vegna staðsetningar meinsins var ekki hægt að fjarlægja það með skurðaðgerð. Að höfðu samráði við lækna við Karolínska sjúkrahúsið var sjúklingnum vísað þangað til frekara mats og hugsanlegrar meðferðar. Eftir það mat var það niðurstaða lækna þar, í samráði við sjúklinginn að bjóða þá aðgerð sem á endanum var reynd. Fjarlæging á æxlinu í tengslum við hina stóru aðgerð staðfesti illkynja eðli meinsins. Sjúklingurinn var því haldinn banvænum sjúkdómi og engin hefðbundin úrræði voru til taks hér á landi. Landspítali lét gera formlega og ítarlega athugun á meðferð sjúklingsins á Landspítala og upphaflegri tilvísun hans til Karolinska síðasta sumar. Engar athugasemdir voru gerðar í þeirri athugun, aðrar en þær að skráning í sjúkraskrá sjúklingsins hefði í sumum tilfellum mátt vera ítarlegri. Landspítala er umhugað um að rannsókn leiði í ljós hið sanna í þessu flókna máli og er þegar í samstarfi við rannsóknaraðila málsins erlendis.“
Athugasemdir