Nú þegar Samtök atvinnulífsins hafa tekið til skoðunar að setja verkbann á starfsfólk í stéttarfélaginu Eflingu verður röklega ljóst að það var ekki rétt að verkfallsréttur Eflingarfólks væri ógn við hversdagslíf og hagsmuni Íslendinga, heldur var hann ógn við stjórn atvinnurekenda á aðstæðunum.
Samtök atvinnulífsins hafa svarað verkfalli 70 starfsmanna í olíuflutningum og 800 starfsmanna með því að greiða atkvæði um verkbann á 20 þúsund starfsmenn Eflingar.
Lægstu laun hafa verið 368 þúsund krónur. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, slakaði samningatæknilegu akkeri í nóvember og fór fram á 167 þúsund króna hækkun til og með ársins 2024 og 30 daga í orlof fyrir alla, á meðan hin stéttarfélögin samþykktu 6,75% hækkun sem væri að hámarki 66 þúsund krónur. Lokakröfur Eflingar 8. janúar voru þó vægari. Þau vildu að lægsti launataxtinn færi upp í 407 þúsund krónur á mánuði og væri hækkunin frá 40 þúsund til 64 þúsund krónur, 11% til 16%, fyrir utan framfærsluuppbót sem nemur 15 þúsund krónum.
Þetta er utan ramma fyrri samninga Samtaka atvinnulífsins, segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri samtakanna. En það nær líklega enginn rammi utan um það sem hefur verið að gerast í íslensku efnahagslífi.
Nýja, íslenska módelið
Stór hluti Eflingarfélaga starfar í hótelgeiranum. Fólki í hótel- og veitingageiranum, ásamt ferðaþjónustu almennt, hefur fjölgað úr 18.500 árið 2008 í um 34.500, ef miðað er við árið 2019. Þetta er hluti af nýja íslenska módelinu, þar sem ferðaþjónusta er grunnstoð atvinnulífsins.
Í þessu módeli eru byggð hótel á fallegustu stöðunum og í miðborginni, og ferðamenn, sem Íslendingar, eru rukkaðir um aðgengi að náttúruperlum. Almenningssamgöngur eru miðaðar við hagnaðarvon ferðaþjónustufyrirtækja frekar en hagsmuni almennings og lægst launaða fólksins sem þarf mest á þeim að halda. Þannig verður hálfgerð múgæsing þegar horfur eru á skorti á eldsneyti.
Jafnvel með alla þessa aukningu, og alla þessa óvelkomnu hópa sem leita eftir að hefja nýtt líf á Íslandi, vantar starfsfólk í ferðaþjónustu. „Ég og mín fjölskylda höfum verið í þessum rekstri í þrjá áratugi og sjaldan eða aldrei reynst jafn erfitt að finna fólk til starfa og í ár,“ sagði formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu í viðtali í byrjun síðasta árs.
Nú, þegar verið er að láta reyna á nýtt, íslenskt módel, í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, er hins vegar ekki grundvallarforsenda að hækka þurfi laun til að mæta skorti á eftirspurn eftir störfunum.
Hærri laun eða meiri arður?
Helstu rök gegn hækkun launa hafa hefðbundið verið að henni fylgi fækkun starfa vegna kostnaðaraukningar fyrirtækja. Þó eru til sannfærandi rannsóknir sem sýna annað og almenn skynsemi bendir til þess að ef fólk fær almennt hærri laun muni það verja þeim launum í að kaupa vörur og þjónustu af fyrirtækjum. Valkosturinn í deilu Eflingar og SA er að minnka hagnað með hækkun lágra launa.
Það er ekki til nein hagfræðileg staðreynd sem kveður á um hvort það borgi sig að borga hærri lágmarkslaun eða greiða hærri arðgreiðslur. En það er líka vitað að launahækkanir – eins og vaxtalækkanir – ýta undir verðbólgu í réttum aðstæðum.
Það getur vel verið að það eina sanna í stöðunni sé að meiri launahækkun Eflingarfólks sé slæm fyrir heildina. Það getur líka verið mat okkar að þau lægst launuðu eigi að fá meiri hækkun, enda eigi ákvarðanir okkar um samfélagið alltaf að miðast við hvernig þau verst settu koma út úr þeim, eins og má lesa út úr stjórnmálaheimspeki John Rawls og Roberts Nozick, til dæmis kenninga um „veil of ignorance“, eða óvissuhulu, sem snýr að því að við tækjum ákvörðun út frá því að við vissum ekki í hvaða þjóðfélagsstöðu við lentum. Við þurfum þá að taka tillit til áhrifa mögulegrar verðbólgu vegna launahækkana, á hin hækkuðu laun. En á móti þyrftum við líka að reikna með áhrifum þess á líf fólks að alast upp við skort.
Lífið og þiggjendur
Forstjórarnir sem taka ákvarðanir fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins um verkbann, og stýra meðal annars Íslandsbanka, Arion banka, Rio Tinto og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, þurfa ekki að fara í neinar hugsanatilraunir. Þau eru meðal tekjuhæsta fólks landsins og þurfa aldrei að hafa fjárhagslegar áhyggjur af grunnþörfum sínum eða barnanna sinna. Þau verða aldrei í Eflingu og fara aldrei í verkfall, heldur er þetta spurning um að hámarka hróður sinn og arðgreiðslur til hluthafa, meðal annars með því að viðhalda stöðugleika og lækka kostnað með lægri launum fjöldans.
Þessi eðlislægi mismunur er studdur af merkingarfræðinni, annar hópurinn skilgreinir sig sem atvinnulífið en hinn hópurinn er skilgreindur sem launþegar, þiggjendur launa handhafa lífsins.
Það er eins og fólkið í Samtökum atvinnulífsins og þau í Eflingu séu ekki að tala sama tungumálið, vegna þess að þau koma úr ólíkum heimum.
Samtök atvinnulífsins tala um abstrakt hluti, óhlutbundna. Mengi hugarheims þeirra nær utan um verðbólgu, framlegð, arðsemi og þess háttar. Fólk í Eflingu hugsar meira út frá míkró-nálgun frekar en makró, út frá raunveruleika síns eigin lífs. Hafa þau efni á eigin húsnæði, eða húsaskjóli yfir höfuð? Hvaða tilfinningar fylgja því og hverjar tilfinninganna skilja eftir sig ör? Það má horfa á þetta út frá þarfapíramída sálfræðingsins Abrahams Maslows. Á grunni píramídans er húsaskjól, hvíld og fæða. Næstneðst er öryggi. Við efsta hlutann er afrek, hróður og svo eins konar uppfylling möguleika sjálfsins.
Hugarmengi fólksins í Eflingu felur í sér getuna til að eiga heimili, óvissuna um matarinnkaup, vafann um að eiga fyrir sumarfríi eða frístundum barnanna.
Svo virðist sem Halldór Benjamín og fólkið í Samtökum atvinnulífsins sé núna að bregðast við út frá stolti. Það má segja að þau séu á toppi þarfapíramída Maslows. Þau vilja kenna Eflingarfólkinu lexíu með því að banna þeim öllum að vinna, fyrst einhver þeirra fara í verkfall.
Með því að snúa verkfallsréttinum upp á fólkið í Eflingu, og banna því að vinna og fá launatekjur, eru Samtök atvinnulífsins að staðfesta og nýta sér að Eflingarfólkið nýtur minna öryggis og er í meiri óvissu um að uppfylla grunnþarfir sínar.
Staðreyndir
Það liggur mælanlega fyrir að helsta yfirstandandi ógnin við afkomu fólks á Íslandi er hækkandi húsnæðiskostnaður, sem liggur í vöxtum og fasteignaverði. Hækkun á fasteignaverði býr til gríðarleg auðæfi hjá því fólki sem á fasteignir. Það fólk sem er ólíklegast til að eiga fasteign er lágt launað og ungt fólk. Skörp vaxtalækkun Seðlabankans dældi auðæfum inn í fasteignir þeirra sem höfðu ráð á þeim með þreföldum hætti: Lækkaði vaxtagreiðslur húsnæðislána, sleppti þeim tekjuhærri út úr verðtryggingu sem hækkar höfuðstól og færði eiganda 50 milljóna króna íbúðar tæpar 20 milljónir króna á tveimur árum, en kostar framtíðarkaupanda húsnæðis sömu upphæð, auk þess sem leigjandi horfir fram á sambærilegan kostnaðarauka fyrir sig.
Alveg eins og það er staðreynd að fólk fellur sitt hvorum megin við fasteignabóluna - sem var framkölluð af Seðlabankanum í umboði ríkisins - er staðreynd að þessi húsnæðiskostnaður er mun hærri á höfuðborgasvæðinu, búsetusvæði meðlima í Eflingu, heldur en á landsbyggðinni, þótt annað geti kostað meira.
Árið 2021 var sagt frá því að mánaðartekjur Halldórs Benjamíns væru 4,3 milljónir króna, eða meira en heils árs lágmarkslaun um hver mánaðarmót. Eflaust eru samtökin einfaldlega að meta framlag hans til hagsmunabaráttu þeirra með þeim hætti. Það breytir því þó ekki að manneskja sem lifir á slíkum launum til lengri tíma fjarlægist í hverjum mánuði getuna til að setja sig í fótspor fólks sem berst í bökkum fjárhagslega.
Undirliggjandi nauðsyn fólks í Eflingu er ekki bara hreinar launatekjur, heldur upplifun um meiri stjórn á eigin lífi. Minnkun á tilvistarlegu óöryggi. 18% af heimilum landsins eiga núna erfitt með að ná endum saman, næstum tvöföldun frá síðasta vori.
Það er eðlisólíkt líf að horfast í augu við að takmarka arðgreiðslur af hagnaði fyrirtækja og svo að lifa við óvissu um grunnþarfir sínar. Á móti var fjallað um „sprengingu í arðgreiðslum“ hjá fyrirtækjum Samtaka atvinnulífsins í fyrra.
Hvernig SA veitir Sólveigu Önnu lögmæti
Heimska Samtaka atvinnulífsins - að því leyti að orðsifjafræðilega á „heimska“ rót sína í því að sjá aðeins sinn eigin heim og setja sig ekki í fótspor gagnaðilanna og auka þannig skilning á leikjafræðilegum áhrifum gjörðanna - virðist þannig blasa við. Með því einu og sér að reyna að ræna verkfallsvopninu af Eflingarfólkinu beina Samtök atvinnulífsins valdbeitingu að hjartanu á valdeflingu láglaunafólks og staðfesta lögmæti Sólveigar Önnu Jónsdóttur og harkalegra baráttuaðferða hennar, frekar en að draga úr því. Sömu áhrif hafði ríkissáttasemjarinn sem afnam eigið lögmæti með því að taka afstöðu með öllum kröfum Samtaka atvinnulífsins. Allar óþarfar aðgerðir sem er ætlað að grafa undan valdeflingu láglaunafólks eru andstæðar hagsmunum almennings og íslensks efnahagslífs í heild.
Einn munurinn á einstaklingunum í Samtökum atvinnulífsins og svo launþegunum í Eflingu er að þau fyrrgreindu fá greitt sérstakt álag á laun fyrir að uppfylla víðtækari ábyrgð af auðsýndri hæfni. Hluti þeirrar ábyrgðar hlýtur að vera að vinna gegn hvers kyns umframskaða af skiljanlegri en harðri hagsmunabaráttu lægst launaða fólks landsins sem á að standa undir nýju samfélagsmódeli.
Þau sem halda um taumana hjá Samtökum atvinnulífsins hljóta núna að íhuga að yfirstíga stolt sitt og draga sig í hlé eins, og ríkissáttasemjarinn; hleypa öðrum að sem bera næmara skynbragð á veruleikann sem samið er um. Þó það sé ekki nema fyrir stöðugleikann.
---
Aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins greiða atvkæði um verkbann til kl. 16 á miðvikudag. Verkbann tekur gildi á hádegi fimmtudaginn 2. mars. Á sama tíma hefur Efling boðað verkfall 1.650 starfsfólks í ræstingarfyrirtækjum, öryggisvörslu og á hótelum og gistihúsum, sem hefst á þriðjudag í næstu viku.
Sagði skáldið forðum við hátíðlegt tækifæri
Datt mér í hug þegar ég heyrði Halldór „sjáiði“ segja að Stefán ólafsson hafi sagt ósatt um háttsemi samninganefndar atvinnurekenda á samningafundi með samninganefnd Eflingar.
Aldrei hef ég heyrt nokkurn mann segja fyrr að Stefán Ólafsson prófessor hafi farið með ósannindi. Hann sem er þekktur fyrir að vera heiðvirður og fara aðeins með sannindi.
En Halldór „sjáiði“ sem mætti í alla fréttatíma kvöldsins og fór með sama leikritið eins og venjulega þar sem hann greinilega fór frjálslega með.
Ég tók eftir því, að hann sagði að allir aðilar að samtökum atvinnurekenda tækju þátt í atkvæðagreiðslunni um að boða til verkbanns á alla félaga Eflingar.
Ef það er rétt er þetta ólögleg atkvæðagreiðsla að mínu mati.
Rétt eins og sjá má í 15. gr. Vinnulöggjafarinnar eins og sést greinilega í annarri málsgrein, Hér kemur öll 15. greinin þar sem þetta er alveg greinilegt.
Atkvæðisrétt eiga aðeins þeir sem hafa Eflingarfólk við störf.
15. gr.
,,[Þegar félag atvinnurekenda eða stéttarfélag ætlar að hefja vinnustöðvun er hún því aðeins heimil að ákvörðun um hana hafi verið tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá og að tillagan hafi notið stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða.
Heimilt er að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um tillögu um vinnustöðvun og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku.
Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til. Þarf þá fimmtungur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun.
Í tillögu um vinnustöðvun skal koma skýrt fram til hverra henni er einkum ætlað að taka og hvenær vinnustöðvun er ætlað að koma til framkvæmda. Þá er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðu-tilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.
Samninganefnd eða til þess bærum fyrirsvarsmönnum samningsaðila er jafnan heimilt að aflýsa vinnustöðvun. Sömu aðilum er heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun, einu sinni eða oftar, um allt að 28 sólarhringa samtals án samþykkis gagnaðila, enda sé frestunin kynnt honum með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Þó er jafnan heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun og yfirstandandi vinnustöðvun með samþykki beggja aðila."
Í vinnulöggjöfinni er ekki minnst á vinnudeilusjóði eða verkfallssjóði eins Halldór „sjáiði“ fullyrti að væri.
Staðreyndin er reyndar sú að hvert félag er sínar samþykktir eða reglur um sína verkfallssjóði.
Síðan má vel rifja það upp, að það eru starfsmenn fyrirtækjanna sem greiða til vinnudeilusjóðs samtaka atvinnurekenda. Ekki aðrir, en í hópi SA eru atvinnurekendur sem ekki greiðendur ef þeir eru ekki formlegir starfsmenn.