Heimspekin er fræðigrein sem leitar skilnings á samhengi hlutanna. Hún varpar ljósi á hvernig hugræn ferli manneskjunnar og sögulegt samhengi hafa mótað bæði hugtök og rökhyggju okkar í gegnum aldirnar. Heimspekin er skipuleg tilraun manneskjunnar til að skoða álitamál og svara grundvallarspurningum um eðli og tilgang lífsins. Rökræðan er flaggskip heimspekinnar og er henni oft beitt á bæði tignarlegan og ljóðrænan hátt í ræðu og riti. Það er alltaf eitthvað aðlaðandi við heimspekilega rökræðu. Hún nýtur blæbrigða ljóðlistar en gerir á sama tíma miklar kröfur um visku, innsæi, kerfisbundið skipulag á hugsun og hæfileikann til að sjá heildarmyndina. Þess konar sókn í sannleikann er það sem hefur alltaf heillað mig við heimspekina.
Þið getið því ímyndað ykkur vonbrigði mín þegar ég las grein Þórs Rögnvaldssonar heimspekings í Morgunblaðinu 8. febrúar síðastliðinn. Grein þessi heitir „Ísland lögregluríki?“ Greinin vakti ekki lukku meðal þeirra sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi né þótti hún vel skrifuð, hvorki að máli né inntaki. Grein hans endurspeglaði algjöran skort á þolendavænu viðhorfi og almennri skynsemi. Eins virtist munurinn á staðreyndum og skoðunum byggðum á geðþótta vefjast fyrir spekingnum sjálfum. Í greininni rakti hann nokkur þekkt kynferðisafbrotamál í miklu reiðileysi, gerendum í vil. Jón Baldvin kallaði hann mikinn mektarmann og glæpur prestsins Gunnars Sigurjónssonar var einungis að vera karlmaður með tilfinningar. Sálusorgarinn var bara misskilinn. Að mati Þórs virðist öfgahyggja og heift kvenna ráða hér lögum og lofum og ofríki og vald þeirra er algjört og óboðlegt. Til samantektar virðist Þór með skrifum sínum almennt líta á konur, sem tala upphátt um þau kynferðisbrot sem þær hafa þolað, sem öfgahóp karlahatara sem taki dýrðardans yfir falli mektarmanna samfélagsins. Enginn karlmaður virðist vera óhultur fyrir gustinum sem fylgir stórhættulegum pilsaþyt kvenna í íslensku samfélagi. Afvegaleiðing og hugræn skekkja Þórs er jafn áhugaverð og hún er skaðleg.
Þór skrifar: „Enda er tímabært að minnast á þá staðreynd að konur ásaka helst ekki hvern sem er. Sá sem fyrir ásökunum verður verður að vera „feitur biti” eða, sem sagt, vel þekktur mektarmaður. Tekið er eftir falli slíkra manna. Því merkari sem karlinn er, því meira verður fallið, sem aftur táknar að þeim mun meiri er sigur og dýrð konunnar.”
„Hér er kannski ekki um raunverulegt lögregluríki að ræða. Nei, hér er frekar um einskonar pilsfaldaríki að ræða, þar sem hvaða pilsi sem vera vill – frá táningsaldri og fram á efri ár – er í lófa lagið að benda á og sakfella hvern þann karlpung sem konunni sýnist. Mergurinn málsins er nefnilega – og auðvitað – þessi: Hér þarf engra sannana við því að ábendingin ein nægir til að rústa æru og ævi þess sem fyrir ásökunum verður. Dómsvaldið er í höndum pilsanna.“
Svo burðugt var innihald þeirrar greinar.
Ósamvinnuþýði gerendameðvirkra einstaklinga við staðreyndir
Það virðist vera alvarleg hugræn skekkja í vitund þeirra sem aðhyllast orðræðu Þórs þegar kemur að þolendum kynferðisafbrota og kemur sú skekkja oftast til vegna ósamvinnuþýðis þeirra við staðreyndir. Staðreyndir eru m.a. þær að um 70% þeirra sem koma á Stígamót urðu fyrir kynferðisofbeldi á barnsaldri. Fólk er að koma stundum áratugum eftir brot. Aðför að trúverðugleika þessara einstaklinga er aðför að reynslu barna.
Önnur staðreynd er að íslenska dómskerfið hefur allt of oft brugðist þolendum kynferðisafbrota. Það er því óásættanlegt þegar þolendur neyðast til að opinbera sig og reynslu sína til að vara aðrar við, eða til að upplifa einhvers konar félagslegt uppgjör eða staðfestingu á trúverðugleika frá samfélaginu. Gerendameðvirkni Íslands á erfitt með þessar konur og bregst ókvæða við með skammaryrðum þegar kona dirfist að standa keik gegn mektarmönnunum okkar. Í könnun sem gerð var af Hildigunni Magnúsdóttur og Katrínu Erlingsdóttur (2007) kom fram að um 85% þeirra sem leituðu til Stígamóta nefndu skömm sem ástæðu fyrir að kæra ekki og að 75% kvenna sem hafði verið nauðgað litu svo á að nauðgunin hefði verið þeim sjálfum að kenna. Gerendameðvirknin öskrar samtímis og sinnuleysið hvíslar að okkur að við erum enn greinilega bara of fullar og í of stuttum pilsum. Vitað er að einungis lítill hluti kærðra kynferðisbrota fer alla leið í gegnum dómskerfið og endar með dómi þolenda í vil. Sú staðreynd, sem og málaferlin sjálf með tímalengd sinni og skorti á áfallamiðaðri nálgun, hefur fælandi áhrif.
Ein önnur staðreynd er hin séríslenska raunveruleikafirring þegar kemur að tilvist kynferðisafbrota hér á landi. Undanfarin ár hefur þó komið betur og betur í ljós hve algeng kynferðisbrot eru í íslensku samfélagi. Góð og gild tölfræðigögn rökstyðja þessa fullyrðingu. Í tölfræðigagnagrunni EUROSTAT er að finna upplýsingar um efnisflokkaðar staðtölur um afbrot úr málaskrá evrópskra lögregluembætta. Þær upplýsingar gefa hugmynd um tíðni kynferðisbrota á Íslandi, í samanburði við önnur Norðurlönd og Evrópuríki. Þær tölur benda til þess að í það minnsta á árunum 2017-2019 hafi tíðni kynferðisafbrota hér á landi verið umtalsvert hærri en í flestum öðrum ríkjum á Norðurlöndum, að Svíþjóð undanskilinni. Ef að sú staðreynd ætti ekki að gefa tilefni til ótta og andúðar gagnvart kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi þá veit ég ekki hvað ætti að gera það.
Gerendur kynferðisbrota á Íslandi eru líka mektarmenn
Þór virðist vera á villigötum þegar kemur að því hverjir það eru sem brjóta kynferðislega á öðru fólki hér á landi. Þegar kemur að einstaklingum sem brjóta kynferðislega á fullorðnum og börnum viljum við að þetta séu fram úr hófi óaðlaðandi menn sem enginn vill þekkja og að þeir séu helst eingetnir og án móður. Krafan er órökrétt en í samræmi við heimsmyndarósk þeirra sem ekkert illt vilja sjá eða vita eða þeirra sem hata konur. Við viljum að þeir líti út fyrir að vilja öðrum skaða. Við viljum að þeir þekki ekki fórnarlömb sín og ráðist á þau úr launsátri þar sem þau eru grunlaus, varnarlaus og ein. Staðreyndin er hins vegar önnur og margir virðast eiga erfitt með það. Kynferðisbrot á sér oftast stað innan fjölskyldna eða annarra kunnugra rýma. Kynferðisafbrotamenn samtímans eru m.a. vinir okkar, feður, synir, afar og frændur. Þetta geta líka verið óskabörn þjóðarinnar, fótboltahetjur, prestar og mektarmenn. Þetta eru menn sem fólk kann vel við og þykir vænt um. Þegar þessir einstaklingar eru grunaðir um kynferðisbrot virðist heimsmynd margra hrynja. Aðstandendur og aðdáendur upplifa hollustuklemmu og þar sem kynferðisafbrot eru alvarleg og ógeðfelld frávikshegðun þá virðist of mörgum tamara að deila sökinni með þolanda, afneita sannleikanum, afbaka staðreyndir eða eins og Þór, skella bara allri skuldinni á konur.
Afleiðingar kynferðisbrota og samkenndarskortur samfélaga skerða lífsgæði þolenda
Það sem Þór virðist ekki vera meðvitaður um eru afleiðingarnar sem koma í kjölfarið af því að vera beittur kynferðisofbeldi. Þær geta lagst á alla þolendur, óháð kyni og aldri. Algengar afleiðingar af kynferðisofbeldi eru m.a. áfallastreituröskun, kvíði, þunglyndi, átröskun, einangrun, erfiðleikar í samskiptum, erfiðleikar með svefn og einbeitingu, erfiðleikar í kynlífi og oft ögrandi kynferðisleg hegðun. Þá er algengt að þolendur glími við lélega sjálfsmynd í kjölfarið af kynferðisofbeldi, heltist úr vinnu eða námi, hafi líkamlega verki, stundi sjálfsskaða, upplifi sjálfsvígshugsanir eða jafnvel svipti sig lífi. Þolendurkynferðisafbrota eru útsettari en aðrir fyrir því að lenda í og ílengjast í skaðlegum aðstæðum, s.s. ofbeldissamböndum. Tilfinningar eins og ótti, reiði, skömm og sektarkennd geta ásótt þolendur í miklum mæli og skert lífsgæði þeirra stórkostlega.
Það ætti því að vera öllum augljóst, að Þór undanskildum, að einstaklingar sem eru að glíma við ofantaldar afleiðingar baði sig ekki í dýrðarljóma sigurvegarans þótt svo að dómur hafi fallið þeim í vil eða þótt reynsla þeirra hljóti samkennd og meðbyr frá samfélaginu. Þessir einstaklingar endurspegla ekki mannýgan múg í mannorðsmeiðingarham sem heimtar gerendaslaufun og hatar karlmenn. Að halda því fram er fásinna í sinni einföldustu mynd. Þetta fólk er oft of illa farið og er stundum að heyja lífróður til þess eins að eiga venjulegt, látlaust og hljóðlátt líf, laust við þjáningar minninganna. Út frá skrifum Þórs má ætla að alvarleiki afleiðinga kynferðisofbeldis eigi að lúta í lægra haldi en mannorð merkismanna sem margir segja með misjafna fortíð.
Þegar Þór missti af tíma
Feminísk heimspeki fagnar ávallt skrifum á borð við Þórs þar sem hún hefur verkfærin til að afhjúpa karlrembuna í henni. Vestræn heimspeki hefur löngum verið skrifuð út frá viðmiðum um hvíta og evrópska manninn. Hann var ávallt viðmiðið þegar kom að siðferði, réttsýni og því sem talið var gott og gilt. Feminísk heimspeki hefur storkað einhæfðri sýn á uppruna alls og boðið upp á fjölbreyttari sýn á manninn og samfélagið sem margir aðrir hópar hafa notið góðs af. Tilvist og veruvæðing fjölbreytileikans og sannleikans út frá fleiru en hvítu, karllægu og evrópsku viðmiði hefur tekist vel. Spekingurinn Þór virðist hins vegar hafa misst af þessum kúrs í háskólanum.
Þegar risaeðlur rumska lítillega
Grein Þórs er áhugaverð að því leytinu til að hún lýsir á greinargóðan hátt hversu fjarstæðukennd viðhorf hans eru í breyttu landslagi samtímans. Risaeðlan rankar við sér og reynir að hrella siðfræði þróaðra sála með úreltu viðhorfi löngu dauðra spekinga. Það tókst ekki hjá Þór, sem segir okkur að þrátt fyrir bakslög er baráttan að skila sér í öflugra siðferði heildarinnar, samheldni fjölbreyttra hópa og gagnrýnni hugsun.
Í grein sinni sniðgengur Þór með öllu rökræðulist heimspekinnar sem og feminíska hlið fræðigreinarinnar þar sem heildarmyndin víkur fyrir þekkingarleysi, gerendameðvirkni og auðsjáanlegum samkenndarskorti höfundar. Geðþóttaskoðanir hans um kvenkynsþolendur kynferðisafbrota í íslensku samfélagi eru á ranghugmyndum byggðar. Þær eru ekki einu sinni umdeilanlegar, þær eru bara með öllu rangar. Risaeðlan ráfar í reiðileysi og ratar ekki heim. Í breyttum heimi kemur greinin út sem örvæntingarfull tilraun til að viðhalda aumkunarverðu og úreltu viðhorfi rosknum risaeðlunum til stuðnings. Þær eru nefnilega nokkrar eftir. Í lokin verður mér hugsað til mannkosta manns sem gerir frekjulegt tilkall til áheyrnar fyrir tómum sal. Meðbyr moðhausanna er liðinn. Skrif sem einkennast af kvenfyrirlitningu og hatursorðræðu í garð þolenda kynferðisofbeldis sanna það að jafnvel klassísk menntun sem jafnan er í hávegum höfð getur ekki falið mannskostaskort fíflsins.
Athugasemdir