Eggert Þór Kristófersson undirritaði starfslokasamning við félagið 2. júní í fyrra og uppsögn hans tók gildi í lok júlí sama ár. Eggert starfaði því í sjö mánuði hjá Festi á árinu 2022. Alls námu launagreiðslur til hans á því ári 81,2 milljónum króna. Það þýðir að Eggert fékk að meðaltali 11,6 milljónir króna fyrir hvern þann mánuð sem hann starfaði fyrir Festi á síðasta ári.
Launagreiðslurnar skiptast þannig að hann fékk 64,9 milljónir króna í laun, 3,7 milljónir króna í hlunnindi og 12,6 milljónir króna í árangurstengd laun. Inni í þessum launum eru þó starfslokatengdar greiðslur til Eggerts. Eggert hafði verið með 4,9 milljónir króna á mánuði.
Eggert var ekki án atvinnu lengi eftir að hann lauk störfum fyrir Festi. Hann var ráðinn forstjóri Landeldis 13. ágúst 2022, eða tæpum tveimur vikum eftir að uppsögn hans tók gildi.
Í stað Eggert var Ásta S. Fjeldsted ráðin forstjóri Festis, en hún hafði fram að þeim tíma stýrt einu dótturfélagi samstæðunnar, Krónunni. Hún var ráðin byrjun september 2022, fór í fæðingarorlof frá byrjun nóvember en mun snúa aftur til starfa í lok mars 2023, samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi. Ásta var fyrsta konan sem er ráðin forstjóri í skráðu félagi frá því fyrir bankahrun. Í millitíðinni hefur Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, sinnt starfi forstjóra.
Launakostnaður Ástu á árinu 2022 var 52,7 milljónir króna, eða um 4,4 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Festi greindi frá því í uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2022 að kostnaður vegna forstjóraskiptanna væri allt í allt 76 milljónir króna og að hann hefði allur verið bókfærður á þeim ársfjórðungi. Alls jókst kostnaður Festis vegna launa lykilstjórnenda, forstjóra og fimm framkvæmdastjóra, um 17 prósent milli 2021 og 2022.
Auk Krónunnar eru helstu dótturfélög Festis N1 og Elko. Festi hagnaðist um 4,1 milljarða króna í fyrra, en hafði hagnast um fimm milljarða króna á árinu 2021. Lífeyrissjóðir landsins eru langstærstu eigendur Festis. Samanlagt eiga þeir að minnsta kosti 73,23 prósent alls hlutafjár í félaginu. Stærsti einkafjárfestirinn, félag í eigu Hreggviðs Jónssonar, á 1,95 prósent eignarhlut.
Nýbúinn að standa af sér mikinn storm
Tilkynningin sem send var til Kauphallar Íslands í júní í fyrra, um að Eggert sem hafði verið forstjóri í sjö ár, hefði sagt starfi sínu lausu kom flestum í opna skjöldu.
Það kom enda á daginn nokkru síðar að tilkynningin var röng. Eggert hafði ekki sagt upp störfum, heldur verið rekinn.
Ekkert hafði bent til þess að Eggert, sem verið hafði stjórnandi hjá Festi og fyrirrennurum þess félags frá 2011, væri á útleið. Rekstur félagsins, eins stærsta smásala landsins, hafði gengið vel og Festi hafði haldið markaðsvirði sínu ágætlega það sem af er árinu 2022 á meðan að flest félög í Kauphöllinni höfðu verið að síga umtalsvert í verði.
Þá voru Eggert og félagið tiltölulega nýbúin að standa af sér mikinn storm þegar tveir af stærstu einkahluthöfum Festi, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson, voru ásakaðir um að hafa brotið á konu kynferðislega í heitum potti í félagi við annan mann haustið 2020. Þórður Már neyddist á endanum til að segja af sér stjórnarformennsku í Festi vegna málsins. Það gerðist 6. janúar 2022.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar kenndi Þórður Már Eggerti um afdrif sín. Í Twitter-færslu sem birtist rúmri viku eftir að greint var frá uppsögn Eggerts sagði konan, Vítalía Lazareva, að Eggert hefði hlustað á hana og gefið henni tækifæri til að segja hennar hlið þegar Þórður Már „var búinn að leggja allt aðra sögu á borðið hjá stjórninni“. Vítalía sagðist eiga Eggerti mikið að þakka og vonaði að hann vissi það.
Athugasemdir (2)