Öll vitum við hvað einkavæðing er. Það heitir einkavæðing þegar fyrirtæki eru færð úr ríkiseigu í einkaeign.
Sagan geymir fjölmörg dæmi um vel útfærða og árangursríka einkavæðingu. Einkavæðing banka og annarra ríkisfyrirtækja tókst til dæmis á heildina litið prýðilega í Eystrasaltslöndunum þrem, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, eftir að þeim tókst að slíta sig laus frá Sovétríkjunum 1989-1991 og endurheimta stöðu sína sem fullvalda lýðræðisríki í faðmi Evrópusambandsins.
Á örskömmum tíma voru til að mynda allir bankar Eistlands seldir erlendum einkabönkum með góðum árangri og án þess að til nokkurra óyfirstíganlegra vandræða kæmi þótt erfiðleikar steðjuðu að. Eistar náðu einnig miklum árangri í forritun og hátækni og tóku mikilsvert frumkvæði þar á heimsvísu. Símaforritið Skype er eistnesk uppfinning þótt fyrirtækið sé sænskt. Einkavæðing flugfélaga hefur gengið vel víðast hvar um allan heim. Þannig mætti lengi telja.
Mörg dæmi má einnig nefna um umdeilda einkavæðingu, til dæmis einkavæðingu ensku vatnsveitnanna 1989, brezku járnbrautanna 1994-1997 og ítalska símafélagsins 1995-1997. Í ljósi reynslunnar hafa ríkisstjórnir beggja landa, ýmist hægri stjórnir eða vinstri, um nokkurt skeið hugleitt endurþjóðnýtingu þessara félaga að hluta eða til fulls. Slíkt kemur fyrir.
Einkavæðing ítalska símafélagsins var talin nauðsynleg á sínum tíma þar eð símaþjónusta ríkisfyrirtækisins sem fyrir var náði engri átt; það tók allt upp í tvö ár fyrir venjulegt fólk að fá síma lagðan heim til sín. Þetta var fyrir tíma farsímanna. Aðildin að ESB knúði Ítala til einkavæðingar símafélagsins gegn innlendum sérhagsmunum og þjónustan snarbatnaði, en önnur vandkvæði hafa orðið þess valdandi að endurþjóðnýting félagsins er nú til skoðunar. Einkafyrirtæki geta brugðizt viðskiptavinum sínum ekki síður en ríkisfyrirtæki.
Enn önnur dæmi má nefna um gersamlega misheppnaða einkavæðingu, til dæmis einkavæðingu rússneskra auðlindafyrirtækja eftir 1991 og einkavæðingu íslenzku bankanna 1998-2003 og Landssíma Íslands 2005, þrjú kennslubókardæmi um gerspillta og illa útfærða einkavæðingu sem hafði hörmulegar og langdrægar afleiðingar í för með sér í báðum löndum.
... til þjóðnýtingar
Þjóðnýting er andhverfa einkavæðingar. Það heitir sem sagt þjóðnýting þegar fyrirtæki eru færð úr einkaeigu í ríkiseign eða þjóðareign.
Nýliðin saga geymir fjölmörg dæmi um vel útfærða og árangursríka þjóðnýtingu. Nærtækasta dæmið er þjóðnýting föllnu bankanna hér heima eftir hrunið 2008. Þjóðnýtingin fól í sér veigamikla uppstokkun einkaeignarréttar með því að endurraða kröfurétti hluthafa í bönkunum. Þjóðnýtingin mætti engu umtalsverðu andófi á Alþingi og var raunar óumflýjanleg.
„Þessi nýríka stétt heldur Alþingi og öðrum stjórnvöldum í gíslingu“
Mörg önnur dæmi, gömul og ný, eru til um vel útfærða og árangursríka þjóðnýtingu, til dæmis þjóðnýting General Motors, stærsta bílafyrirtækis Bandaríkjanna og helztu skrautfjaðrar bandarísks efnahagslífs um langt árabil, en fyrirtækið stefndi í þrot 2009 vegna mistaka í rekstri svo að alríkisstjórnin neyddist til að taka það upp á arma sína um hríð. Yfirvofandi gjaldþrot er jafnan ein helzta ástæða þjóðnýtingar, en samt ekki eina ástæðan.
Förum til Frakklands. Franska bílafyrirtækið Renault var þjóðnýtt í stríðslok 1945 af þeim sökum að stofnandi fyrirtækisins, Louis Renault, hafði framleitt hergögn fyrir nasista. Þannig geta brot gegn lögum eða siðferði nema hvort tveggja sé orðið stjórnvöldum tilefni til einkavæðingar. Það var hægri stjórn Charles de Gaulle forseta sem þjóðnýtti Renault. Fyrirtækið var einkavætt aftur hálfri öld síðar, 1996.
Af þessum dæmum má ráða tvennt:
-
Það eru ekki bara sósíalistar sem mæla fyrir þjóðnýtingu þegar nauðsyn er talin krefja, heldur einnig hægri menn og aðrir.
-
Þjóðnýtingu er stundum snúið við að nokkrum tíma liðnum með endureinkavæðingu líkt og einkavæðingu er stundum snúið við í ljósi reynslunnar með endurþjóðnýtingu svo sem dæmin um brezku járnbrautirnar og ítalska símafélagið eiga ef til vill eftir að vitna um á næstum árum.
Verkaskiptingu almannavalds og einkaframtaks getur verið háttað með ýmsu móti, ekki bara verkaskiptingunni í heilbrigðis- og menntamálum, heldur einnig í annarri þjónustu, til dæmis í samgöngum og samskiptum. Einkarekstur er engin allsherjarlausn og það eru ríkisrekstur og þjóðareign ekki heldur.
Stóra málið
Eitt mikilvægasta úrlausnarefni íslenzkra stjórnmála undangengna hálfa öld er stjórn fiskveiða. Svo er enn þótt sjávarútvegur standi nú orðið ekki á bak við nema 7% af landsframleiðslu og innan við fimmtung útflutningstekna þjóðarbúsins.
Fyrst endurgjaldslaus og síðan ríkulega niðurgreiddur aðgangur útvegsmanna að sameignarauðlindinni á Íslandsmiðum hefur búið til í landinu nýja auðstétt sem á sér engan líka í nálægum löndum nema þá helzt í Rússlandi. Þessi nýríka stétt heldur Alþingi og öðrum stjórnvöldum í gíslingu. Þetta fyrirkomulag hefur verið í óþökk þjóðarinnar frá fyrstu tíð eins og bókstaflega allar skoðanakannanir hafa sýnt frá öndverðu og sýna enn. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem Alþingi bauð til um nýju stjórnarskrána 2012 innsiglaði vilja þjóðarinnar í málinu.
Útvegsmenn og erfingjar þeirra halda samt áfram að raka saman fé sem aðrir eiga samkvæmt lögum sem nýja stjórnarskráin hnykkir á. Þeir ætlast til að þessum illa fengna auði þeirra fylgi einnig aukin völd svo sem til dæmis ritstjórn Morgunblaðsins vitnar um með einn helzta hrunverjann í brúnni, fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóra sem keyrði jafnvel sjálfan seðlabankann í magnþrungið þrot.
Tökum annað dæmi af tilætlunarsemi og óskammfeilni hrunverja. Forstjóri eins stærsta útvegsfyrirtækisins, Samherja, var áður stjórnarformaður Glitnis, keyrði bankann í þrot í hruninu, hafðist ekki að meðan innherjar skófu bankann að innan í miðju hruni eins og lekin skjöl úr bankanum vitna um og þurfti síðan að horfa á eftir mörgum starfsmönnum bankans í fangelsi en slapp sjálfur. Skyldi hann vera betur til þess fallinn að stýra stóru útvegsfyrirtæki en banka? Hann hefur nú ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum stöðu sakbornings í risavöxnu mútumáli með upptök sín í Namibíu, svo alvarlegu máli að sex menn, þar af tveir fyrrum ráðherrar, hafa setið í gæzluvarðhaldi í bráðum þrjú ár meðan málið er í rannsókn sem hefur tafizt meðal annars vegna seinagangs í rannsókn málsins á Íslandi. Erlendar eftirlitsstofnanir hafa lýst furðu sinni á seinaganginum.
Meðan þessu vindur fram fjarar undan efnahagslífinu í landinu og einnig samfélaginu í ýmsum greinum. Kaupmáttur þjóðartekna á mann er nú aftur (2021) mun minni en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og vinnufriðurinn er nú í uppnámi hér með gamla laginu en ekki þar því þar eru engir ólígarkar og vinir þeirra meðal vinnuveitenda til að slíta sundur friðinn. Hitt er enn lakara hversu fjarar undan innviðum íslenzks samfélags. Þessa sér stað ekki aðeins í heilbrigðis- og menntamálum heldur einnig meðal annars í því að Ísland hefur ekki lengur í fullu tré við önnur Norðurlönd til dæmis um gegnsæi og lýðræði.
Tökum gegnsæið fyrst. Transparency International í Berlín skipar Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð í fjögur af sex efstu sætum listans yfir lönd heimsins með minnsta spillingu, en Ísland er sokkið niður í 14.-16. sæti listans.
Sama á við um lýðræðið. Lýðræðisstofnun Gautaborgarháskóla í Svíþjóð, sem hefur undangengin ár rutt sér til rúms með nýja samsetta lýðræðisvísitölu fyrir flest lönd heimsins, skipar Íslandi í 25. sæti listans. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð skipa fjögur af átta efstu sætunum.
Þessari hnignun þurfum við að snúa við með tiltækum ráðum úr því að Alþingi hefur ekki enn fengizt til að staðfesta nýju stjórnarskrána sem er ætlað að skera upp herör gegn spillingunni og efla lýðræðið.
Hvað er til ráða?
Ég legg til einfalda leið með innlenda og erlenda reynslu að leiðarljósi:
Við þjóðnýtum stóru útgerðirnar úr því að það virðist nú vera eina leiðin til að virkja lögbundið eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni án frekari tafar.
Hvernig?
Þeim fimm flokkum sem þáðu enga styrki frá útvegsfyrirtækjum fyrir síðustu alþingiskosningar er í lófa lagið að lýsa því yfir fyrir næstu kosningar að þeir ætli sér að mynda samsteypustjórn eftir kosningar til að þjóðnýta stóru útgerðirnar og leggja önnur ágreiningsmál til hliðar á meðan. Þetta eru Flokkur fólksins, Píratar, Samfylkingin og Sósíalistaflokkurinn sem virðist líklegur til að bætast í hóp þingflokka á næsta þingi auk Viðreisnar sem þáði aðeins smáræði frá útvegsfyrirtækjum, langt innan við 1 mkr., og á að réttu lagi heima í slíku bandalagi. Yfirlýsing sem þessi gæti hæglega tryggt þessum framboðum meiri hluta þingsæta þótt kjördæmaskipanin sé enn sem fyrr ranglát og ólögmæt í þeim skilningi að 67% kjósenda höfnuðu henni í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.
Stjórn þessara flokka hefði greiðan aðgang að erlendri sérþekkingu á hvernig vænlegast er að standa að þjóðnýtingu stóru útgerðanna ásamt upptöku og endurdreifingu þeirra eigna sem nauðsynlegt mun þykja að verði skilað aftur til rétts eiganda, fólksins í landinu.
„Þjóðnýtingu stóru útgerðanna er ætlað að skila sjávarrentunni í réttar hendur“
Rökin fyrir þjóðnýtingu stóru útgerðanna eru skýr. Alþingi heldur áfram að afhenda útvegsmönnum á silfurfati bróðurpartinn af sjávarrentunni til að braska með þótt heilbrigðiskerfið sé að þrotum komið og einnig ýmis önnur almannnaþjónusta, jafnvel landhelgisgæzlan.
Gjaldþrotarökin fyrir þjóðnýtingu eiga því við af fullum þunga. Þjóðnýtingu stóru útgerðanna er ætlað að skila sjávarrentunni í réttar hendur.
Við bætast velsæmisrökin, þau rök að vanheilagt bandalag Alþingis og útvegsmanna hefur fyrir löngu gengið fram af fólkinu í landinu auk þess sem fyrir liggja skýrir vitnisburðir um lögbrot útvegsmanna í Namibíu. Og svo eigum við eftir að opna skattaskjólin.
Þetta er hægt. Þetta hefur oft verið gert, margoft. Þetta er ekki of seint.
A. Hversu lízk þér á mey þessa? þykki þér eigi fögr vera?
B. Ærit fögr er Guggan, ok munu margir þess gjalda; en hitt veit ek eigi, hvaðan þjófsaugu eru komin í ættir várar.
Það verður yndislega gaman að vinna að þjóðnýtingu stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna og láta stjórnendur þeirra opinbera græðgi sína enn frekar!
Fáránlegt hversu langt á eyðileggingarbraut nýríkum íslendingum hefur verið leyft að ganga. Flestir innviðir velferðar almennings í molum!
Styðjum verkföll hinna lægst launuðu og rísum upp gegn eyðileggjendum lýðræðisins!