Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Um helmingur fyrirtækjastyrkja til stjórnarflokka komu frá sjávarútvegi

Þeg­ar kem­ur að fram­lög­um fyr­ir­tækja til stjórn­mála­flokka á kosn­inga­ári skera sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki sig úr. Þau gefa miklu meira en aðr­ir at­vinnu­veg­ir. Alls fóru næst­um níu af hverj­um tíu krón­um sem fyr­ir­tæki í sjáv­ar­út­vegi gáfu til flokka 2021 til þeirra þriggja sem mynda nú rík­is­stjórn.

Um helmingur fyrirtækjastyrkja til stjórnarflokka komu frá sjávarútvegi
Styrkir Alls fengu stjórnarflokkarnir þrír 27,7 milljónir króna frá sjávarútvegsfyrirtækjum á kosningaári. Mynd: Eyþór Árnason

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 15,8 milljónir króna í styrki frá sjávarútvegsfyrirtækjum á árinu 2021, sem var kosningaár. Alls fékk flokkurinn 32,2 milljónir króna í styrki frá lögaðilum á því ári og því kom um helmingur allra styrkjanna frá fyrirtækjum með tengsl við sjávarútveg. Fjárframlög lögaðila til flokksins í heild nánast tvöfölduðust milli áranna 2020 og 2021. 

Framsóknarflokkurinn fékk alls um 6,7 milljónir króna frá fyrirtækjum í sjávarútvegi á árinu 2021. Alls fékk flokkurinn 19,9 milljónir króna í styrki frá lögaðilum á kosningaárinu og því voru styrkir frá sjávarútvegsfyrirtækjum rúmlega þriðjungur allra styrkja hans. Framsókn bætti vel í styrkjasöfnun á árinu 2021, en þá safnaði flokkurinn styrkjum frá lögaðilum fyrir 17 milljónum krónum meira en hann hafði gert á árinu 2020, þegar fyrirtæki gáfu Framsóknarflokknum 2,9 milljónir króna. Af þeirri upphæð kom næstum 90 prósent frá fyrirtækjum í sjávarútvegi.

Vinstri græn þáðu enga styrki frá lögaðilum á árinu 2020. Það breyttist á árinu 2021 þegar flokkurinn fékk alls um átta milljónir króna í slíka styrki. Þar af komu 4,8 milljónir króna frá sjávarútvegsfyrirtækjum. 

Samtals styrktu fyrirtæki tengd sjávarútvegi því stjórnarflokkana þrjá um 27,4 milljónir króna í aðdraganda síðustu kosninga. Það voru 46 prósent allra styrkja sem þeir fengu frá lögaðilum á árinu 2021. Um er að ræða útgerð­­ar­­fyr­ir­tæki, vinnslur, fyr­ir­tæki sem starfa í fisk­eldi og eign­­ar­halds­­­fé­lög í eigu stórra eig­enda útgerð­­ar­­fyr­ir­tækja. 

Þetta má lesa út úr ársreikningum flokkanna þriggja sem birtir hafa verið á vef Ríkisendurskoðunar.

Á meðal þeirra sem gáfu stjórnarflokkunum fé á árinu 2021 voru flestar stærstu útgerðir landsins. Brim, Kaupfélag Skagfirðinga, Þorbjörn, Vinnslustöðin, Síldarvinnslan, Loðnuvinnslan, Skinney-Þinganes og Hvalur gáfu til að mynda fjármuni til allra stjórnarflokkanna þriggja. Auk þess gáfu stór fiskeldisfyrirtæki til bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. 

152 prósenta aukning

Í núgild­andi lögum mega lög­að­ilar gefa 550 þús­und krónur á ári til stjórn­mála­sam­taka og 400 þús­und krónur á ári til ein­stakra fram­bjóð­enda. Fjölmörg fyrirtæki í sjávarútvegi veittu stjórnarflokkunum hámarksstyrk og sum þeirra greiddu jafnvel umfram það, en þá fór hluti styrksins til kjördæmaráða eða einstakra félaga sem starfa innan flokkanna. 

Styrkir frá sjávarútvegsfyrirtækjum til stjórnarflokkanna hafa stökkbreyst frá árinu 2018, árinu eftir kosningarnar þar sem þeir fyrst mynduðu ríkisstjórn. Það ár er notað til viðmiðunar þar sem kosningarnar 2017 bar brátt að og styrkir fyrirtækja til flokka voru mun lægri á því ári en árið 2018. Viðmælendur Heimildarinnar innan stjórnmálaflokka á þeim tíma sögðu að árið 2018 hafi að einhverju leyti verið nýtt til að safna styrkjum eftir á til að rétta við erfiða fjárhagsstöðu vegna tíðra kosninga árin á undan. 

Það ár fengu rík­­is­­stjórn­­­ar­­flokk­­arnir þrír alls um ell­efu millj­­ónir króna í styrki frá lög­­að­ilum í sjá­v­­­ar­út­­­vegi. Alls fengu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn 35,1 milljón króna frá lögaðilum það ár og því kom tæpur þriðjungur frá aðilum í sjávarútvegi. Hlutfall þeirra á meðal styrkjenda flokkanna þriggja hefur því aukist umtalsvert, auk þess sem upphæðin sem sjávarútvegsfyrirtækin hafa látið renna til þeirra hefur aukist um 152 prósent í krónum talið. Vert er að taka fram að hámarksframlag lögaðila var hækkað í millitíðinni úr 400 þúsund krónum í 550 þúsund krónur. 

Tveir andstöðuflokkar þáðu fjármuni frá útvegi

Það þáðu fleiri fjármuni frá sjávarútvegsfyrirtækjum fyrir síðustu kosningar en ríkisstjórnarflokkarnir. Miðflokkurinn fékk til að mynda 3,5 milljónir króna frá slíkum á árinu 2020, en 59 prósent allra styrkja frá lögaðilum komu frá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Árið áður, 2020, hafði Miðflokkurinn samtals fengið 1,3 milljónir króna í styrki frá fyrirtækjum. Þar komu 81 prósent allra framlaga úr vasa frá aðilum úr sjávarútvegi. Á meðal þeirra sem gáfu Miðflokknum fjármuni fyrir síðustu kosningar voru Síldarvinnslan, Kaupfélag Skagfirðinga, Skinney- Þinganes, Vísir, Þorbjörn, Loðnuvinnslan og Hvalur. 

Mið­flokk­ur­inn setti ekki fram neina stefnu í aðdrag­anda kosn­inga um breyt­ingar á fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu. Ekk­ert var minnst á sjáv­ar­út­veg, fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerfi eða gjald­töku vegna nýt­ingu auð­lind­ar­innar í stjórn­mála­á­lyktun flokks­ins sem sam­þykkt var á Lands­þingi hans í ágúst 2021.

Eitt helsta baráttumál Viðreisnar hefur hins vegar verið að innleiða breytingar í sjávarútvegi, meðal annars með það augnamiði að auka hlutdeild almennings í þeim hagnaði sem nýting þjóðarauðlindarinnar skilar. Flokkurinn þáði enga styrki frá sjávarútvegsfyrirtækjum á árinu 2020, og raunar var heildarupphæð styrkja frá lögaðilum sem hann safnaði á því ári einungis 1,8 milljónir króna. Viðreisn sexfaldaði þá upphæð á síðasta kosningaári og safnaði 10,8 milljónum króna frá fyrirtækjum. Þar af komu 650 þúsund krónur samtals frá þremur sjávarútvegsfyrirtækjum: Brimi, Hlé (sem er í eigu eins eig­enda ­Nesskipa) og Samherja Ísland.

Þegar tekið er tillit til þessara upphæða liggur fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir þáðu 87 prósent af öllum þeim fjármunum sem sjávarútvegsfyrirtæki létu renna til stjórnmálaflokka á síðasta ári. 

Fjórir flokkar þáðu ekkert

Fjórir flokkar sem voru í framboði til þings fyrir síðustu kosningar þáðu enga fjármuni frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Þar er um að ræða Samfylkinguna, Flokk fólksins, Pírata og Sósíalistaflokk Íslands. 

Þingflokkur Pírata lagði raunar fram frumvarp í fyrrahaust sem fól í sér að lög­að­ilar mættu ekki styrkja stjórn­mála­sam­tök eða stjórn­mála­fólk með beinum hætti. Sömu­leiðis vildi þing­flokk­ur­inn að allir afslættir lög­að­ila af vörum og þjón­ustu og veittir eru af mark­aðs­verði yrðu sér­greindir í reikn­ing­um.

Í grein­ar­gerð sem fylgdi frum­varp­inu sagði að núver­andi lög­gjöf stuðli að ójafn­ræði borg­ar­anna þegar komi að styrkjum til stjórn­mála­sam­taka. Til­gangur með hámarks­fjár­hæðum sé sá að eng­inn einn aðili geti í krafti fjár­hags­stöðu sinnar styrkt stjórn­mála­sam­tök um það háar fjár­hæðir að hætta skap­ist á spill­ingu. „Hætt er við að stjórn­mála­sam­tök eða stjórn­mála­fólk freist­ist til að gæta frekar hags­muna styrkt­ar­að­ila umfram hags­muni almenn­ings þegar svo stendur á. Því er mik­il­vægt að borg­ar­arnir njóti jafn­ræðis þegar kemur að styrk­veit­ing­um.“

Þeir ein­stak­lingar sem eigi fyr­ir­tæki geti sem stendur ekki aðeins styrkt stjórn­mála­sam­tök per­sónu­lega heldur einnig í krafti fyr­ir­tækja sinna. „Þetta fyr­ir­komu­lag er ólíð­andi í lýð­ræð­is­sam­fé­lagi og fer í raun þvert á mark­mið lag­anna um að tryggja gagn­sæi, jafn­ræði og að berj­ast gegn spill­ingu. Því er lagt til í frum­varpi þessu að fella brott heim­ild lög­að­ila til að styrkja stjórn­mála­sam­tök og stjórn­mála­fólk með beinum hætt­i.“ 

Í grein­ar­gerð­inni er einnig bent á að fyr­ir­tæki geti styrkt stjórn­mála­sam­tök óbeint. „Það er ekki óal­gengt að fyr­ir­tæki gefi jafn­vel þjón­ustu sína eða veiti meiri afslátt en gengur og ger­ist gagn­vart öðrum við­skipta­vin­um. Því er nauð­syn­legt að það sé greint frá því á gagn­sæjan hátt til þess að aðrir við­skipta­vinir geti notið sömu kjara.“

Mælt var fyrir frumvarpinu 17. nóvember á síðasta ári og málið gekk svo til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem það bíður afgreiðslu.

Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu