Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Bjarni: Hátt spennustig á Íslandi birtist í mikilli einkaneyslu

Fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra seg­ir að á Ís­landi sé „hátt spennu­stig“ sem birt­ist með­al ann­ars í mik­illi einka­neyslu. „Við er­um sem þjóð­fé­lag nú að taka út lífs­kjör sem ekki eru lang­tíma­for­send­ur fyr­ir.“ Ráð­herr­ann var spurð­ur á þingi í dag hvort hann teldi að rík­is­stjórn­in bæri ein­hverja ábyrgð á auk­inni verð­bólgu og hækk­andi vaxta­stigi.

Bjarni: Hátt spennustig á Íslandi birtist í mikilli einkaneyslu
Stilla saman aðgerðir Bjarni segir að stilla þurfi saman aðgerðir á vinnumarkaði við vaxtahækkanir Seðlabankans. Mynd: Bára Huld Beck

„Verðbólgan á Íslandi er ekki heimatilbúið fyrirbæri að öllu leyti,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. „Við erum að hluta til að eiga við fjölþætt, sem sagt fjölþætt áhrif. Eins og fram kom hjá Seðlabankanum í gær þá liggja rætur verðbólgunnar núna mjög víða.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði Bjarna meðal annars hvort hann ætlaði ekkert að gera vegna versnandi efnahagsástands. „Ætlar hann ekki að koma fram með tillögur um aðgerðir sem koma í veg fyrir tólftu stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð?“ spurði hún og vísaði þar í hækkun gærdagsins. 

Hættan við afneitun er aðgerðaleysi

Þorgerður Katrín rifjaði upp þegar hún hóf fyrirspurn sína að fyrir viku síðan hefði hún spurt ráðherrann út í stöðuna í efnahagsmálum og „tilhneigingu margra stjórnarliða og reyndar fleiri til að kenna almenningi um stöðuna þá eins og áður“. 

Þorgerður Katrín

„Þá eins og áður tók ráðherrann enga ábyrgð á þeirri stöðu sem nú er uppi og vísaði helst í ósjálfbærar launahækkanir. Reyndar hefur stór hluti vinnumarkaðarins axlað sína ábyrgð á stöðunni, gerði það við lok síðasta árs og stuðlaði þar með að auknum stöðugleika. Ríkisstjórnin hins vegar afneitar sinni ábyrgð á verðbólgunni og hærri vöxtum en með aðgerðum sínum í fjárlagafrumvarpinu var bálið tendrað. Það logar enn og það er í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur,“ sagði hún. 

Spurði Þorgerður Katrín hvort Bjarni væri „enn sömu skoðunar“, að ríkisstjórnin bæri enga ábyrgð á því að nú í ellefta sinn í röð hækkaði Seðlabankinn stýrivextina. Væri þessi afstaða ráðherra lóð hans á vogarskálarnar til að stilla til friðar á vinnumarkaði sem nú logaði stafnanna á milli. Hún sagði að ekkert traust ríkti og það besta sem fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar gæti nú boðið upp á væri afneitun á hlut ríkisstjórnarinnar í eigin þenslu. 

„Hættan við afneitun er aðgerðaleysi og við megum ekki við því núna,“ sagði hún og spurði Bjarna hvort einhverjar áætlanir væru hjá ríkisstjórninni um að reyna að vinna strax gegn verðbólgu, til að ganga í takti meðal annars með seðlabankastjóra og stórum hluta vinnumarkaðar. „Munum við til að mynda sjá strax aðhaldsaðgerðir hjá ríkisstjórninni og ríkisvaldinu og sparnað í ríkisrekstri?“ spurði hún. 

Hefur áhyggjur af nýjustu verðbólgumælingunni eins og aðrir

Bjarni steig í pontu og sagði að á undanförnum árum væri hægt að sjá stöðugan kaupmáttarvöxt hjá nær öllum tekjutíundum. „Að því marki sem háttvirtur þingmaður heldur því fram að kjör fólksins í landinu séu háð því hvernig ríkisstjórnin stendur sig þá hlýtur það að vera þannig að ríkisstjórnin geti stært sig mjög vel af því hvernig til hefur tekist undanfarin ár. Það er meira að segja þannig, þrátt fyrir þá verðbólgu sem nú mælist, að því er spáð að kaupmáttur haldi áfram að vaxa.“ 

Hann sagðist hafa áhyggjur af nýjustu verðbólgumælingunni eins og aðrir. „Ég hef hins vegar bent á það hér í þessum ræðustól að af þeirri 9,9 prósent af verðbólgu sem nú mælist er ekki hægt að rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar nú um áramótin nema um 0,4–0,5 prósent í tengslum við gjaldabreytingarnar.“ Ráðherrann sagði jafnframt að ef Þorgerður Katrín hefði ekki áhyggjur af því með sama hætti og Seðlabankinn, sem hefði lýst djúpum áhyggjum af því í gær að laun á Íslandi hefðu hækkað umfram framleiðnivöxt núna um allnokkurt skeið, þá teldi hann að þingmaðurinn væri á villigötum. 

„Það er ekki rétt ef gefið var í skyn hér að ég hafi rætt um það á undanförnum vikum að almenningur bæri ábyrgð á verðbólgunni. Ég hef bara aldrei sagt neitt slíkt og ég þarf að bera það af mér í annað skipti hér á einni viku að ég hafi sagt eitthvað slíkt. Ég hef bara ekkert verið að ræða það. Það er hins vegar staðreynd að á Íslandi núna er hátt spennustig og það birtist meðal annars í mikilli einkaneyslu og við erum sem þjóðfélag nú að taka út lífskjör sem ekki eru langtímaforsendur fyrir. Það er þess vegna hætt við því að við munum þurfa að skila einhverju af því til baka, til dæmis með töpuðum kaupmætti. Verkefnið núna er að stilla saman ríkisfjármálin sem ég legg áherslu á að til næstu ára sýni afkomubata ár frá ári. Það er það sem ríkisfjármálin eiga að leggja á vogarskálarnar núna,“ sagði Bjarni. 

Talar um skýr skilaboð af hálfu Seðlabankans

Þorgerður Katrín spurði í annað sinn og sagði að ráðherrann talaði um að ekki mætti leita að sökudólgum. „En samt er það þannig að seðlabankastjóri, fyrir áramót, við afgreiðslu fjárlaga, og Samtök atvinnulífsins bentu eindregið á að þensla ríkisútgjalda væri allt of mikil og væri ekki hjálpleg í baráttunni við verðbólguna. Þetta eru mjög skýr skilaboð af hálfu Seðlabankans. En það var auðvitað eins og fyrri daginn, að fjármálaráðherra kemur hingað upp og þrumar út úr sér einhverjum hagstærðum og prósentum eins og það sé bara sérstakt listform. Og auðvitað skyldi engan undra, hann er búinn að sitja sem fjármálaráðherra í um það bil áratug,“ sagði hún. 

Spurði Þorgerður Katrín hvort Bjarni teldi sig og sína ríkisstjórn ekki bera neina ábyrgð á því að Seðlabankinn væri „skilinn eftir“ og hækkaði vexti í ellefta sinn í röð í „þessu lágvaxtalandi sem Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti mjög grimmilega fyrir síðustu kosningar og bauð kjósendum upp á“. 

„Ætlar hann ekkert að gera? Ætlar hann ekki að koma fram með tillögur um aðgerðir sem koma í veg fyrir tólftu stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð?“ spurði hún. 

Seðlabankinn „væntanlega hækkað vexti of hægt“

Bjarni vildi benda á í framhaldinu að verðbólgan á Íslandi væri ekki „heimatilbúið fyrirbæri“ að öllu leyti. 

„Verðbólga í Svíþjóð nú um mundir er til dæmis 12 prósent. Við erum að hluta til að eiga við fjölþætt, sem sagt fjölþætt áhrif. Eins og fram kom hjá Seðlabankanum í gær þá liggja rætur verðbólgunnar núna mjög víða,“ sagði hann. 

Ráðherrann vildi ekki meina að hann hefði sagt að ekki mætti leita að sökudólgum. „Þetta er bara rangt. Það sem ég er að benda á er kjarni málsins, að það muni engu skila fyrir almenning að velta ábyrgðinni á milli hinna einstöku aðila sem geta haft áhrif á stöðuna í framhaldinu. Það mun bara engu skila. Ég fullyrði það eins og ég hef margoft gert hér áður. Það sem þarf að gera er að stilla saman aðgerðir á vinnumarkaði við það sem Seðlabankinn er að gera. Ég hef nú manna mest verið að tala um að það þurfi að standa með Seðlabankanum. 

En Seðlabankinn situr uppi með það núna að hafa væntanlega hækkað vexti of hægt, vanspáð verðbólgu of oft og hefur hlutverki að gegna til að stilla af verðbólguvæntingar inn í framtíðina sem eru algerlega farnar úr böndunum. En hverju mun það skila að fara ofan í saumana á þessu? Það mun litlu skila fyrir fólkið í landinu. Það sem þarf að gera er að stilla saman aðgerðir og á ríkisfjármálahliðinni munum við bæta afkomuna ár frá ári,“ sagði hann að lokum. 

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
1
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár