Samfylkingin mælist með 25,3 prósent fylgi í nýjustu könnun Gallup og þar með stærsti flokkur landsins. Fylgi Samfylkingarinnar hefur ekki mælst meira síðan í nóvember 2009, eða í rúmlega 13 ár. Þá sat flokkurinn í ríkisstjórn með Vinstri grænum og Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, var forsætisráðherra. Þetta er auk þess í fyrsta sinn síðan í maí 2009 sem flokkurinn mælist stærstur allra stjórnmálaflokka á landinu.
Fylgi flokksins hefur farið hratt upp á við eftir að Kristrún Frostadóttir tilkynnti um formannsframboð í Samfylkingunni í ágúst 2022, en hún var kjörin formaður flokksins í október. Alls mælist Samfylkingin nú með 15,4 prósentustigum meira fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum í september 2021.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist oftast stærsti flokkur landsins. Síðast þegar hann missti þá stöðu var í aðdraganda haustkosninganna 2017, þegar Vinstri græn skriðu fyrir ofan hann. Þá var munurinn þó innan skekkjumarka. Svo er ekki nú. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23,5 prósent fylgi, eða 1,8 prósentustigi minna en Samfylkingin. Það er auk þess 0,9 prósentustigum minna fylgi en flokkur Bjarna Benediktssonar fékk í síðustu kosningum.
Vinstri græn og Framsókn í vanda
Í samanburði við hina flokkanna sem mynda ríkisstjórn má Sjálfstæðisflokkurinn þó vel við una. Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist annan mánuðinn í röð með 6,8 prósent fylgi. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnunum Gallup, en þær ná aftur til 2004. Vinstri græn hafa tapað 5,8 prósentustigum frá haustinu 2021. Einungis einn flokkur á þingi hefur tapað meiru fylgi frá síðustu kosningum og Vinstri græn mælast nú sjötti stærsti flokkurinn á þingi.
Sá flokkur er Framsóknarflokkurinn. Hann hefur alls tapað sex prósentustigum frá því að kosið var síðast og mælist nú með 11,3 prósent fylgi. Það er minnsta fylgi sem flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar hefur mælst með á yfirstandandi kjörtímabili.
Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir tapað 12,7 prósentustigum samkvæmt Gallup. Það þýðir að Samfylkingin hefur bætt við sig 2,7 prósentustigi meira af fylgi en flokkarnir þrír sem sitja að völdum hafa tapað.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er 41,6 prósent sem þýðir að hún myndi ekki ná meirihluta á þingi og myndi því falla ef kosið yrði í dag, samkvæmt niðurstöðu Gallup.
Viðreisn og Flokkur fólksins undir kjörfylgi
Þrír aðrir flokkar utan Samfylkingarinnar hafa bætt við sig fylgi á yfirstandandi kjörtímabili. Píratar mælast með 10,4 prósent, Sósíalistaflokkur Íslands með 4,4 prósent og Miðflokkurinn með 5,5 prósent, sem er þó einungis 0,1 prósentustigum yfir kjörfylgi hans.
Fylgi Viðreisnar mælist 7,3 prósent, eða einu prósentustigi undir kjörfylgi, og Flokkur fólksins mælist með 5,5 prósent, sem er 3,3 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í september 2021.
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar milli mánaða og mælist nú um 46 prósent.
Könnunin fór fram á netinu 6. til 31. janúar. Heildarúrtak var 9.842 og 48,5 prósent tóku þátt. Vikmörk við fylgi flokka eru +/- 1,4 prósent. 16,5 prósent tóku ekki afstöðu eða vildu ekki svara og 9,3% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa. 74,2 prósent nefndu flokk. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallup.
Athugasemdir (1)