Rannsókn fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á meintum lögbrotum Íslandsbanka við sölu á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í bankanum í mars í fyrra snýst fyrst og fremst um þátttöku starfsmanna bankans og tengdra aðila í útboði á bréfum í Íslandsbanka. Um lokað útboð var að ræða og einungis svokallaðir þeir sem skilgreindir voru sem fagfjárfestar áttu að fá að taka þátt. Alls urðu kaupendur á endanum 207 talsins. Ekki er talið að aðrir söluráðgjafar en Íslandsbanki hafi gerst brotlegir við lög og reglur.
Bankinn fékk frummat fjármálaeftirlitsins í málinu afhent fyrir áramót. Þann 9. janúar sendi Íslandsbanki tilkynningu til Kauphallar Íslands um að hann hefði óskað einhliða eftir viðræðum við eftirlitið um að ljúka málinu með sátt.
Af þeim 207 voru átta starfsmenn Íslandsbanka, sem var söluráðgjafi í ferlinu, eða makar þeirra. Bankinn hélt því fram í fjölmiðlum í apríl í fyrra að allir starfsmennirnir væru skilgreindir sem fagfjárfestar, sem var forsenda fyrir því að fá að kaupa. Við rannsókn fjármálaeftirlitsins hefur komið fram að Íslandsbanki hafi sjálfur skilgreint að minnsta kosti hluta þessara starfsmanna sem fagfjárfesta. Hann hefur þó ekki viljað svara því hversu margir fjárfestar fengu flokkun sem fagfjárfestar á þeim klukkutímum sem söluferlið stóð yfir.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið, sem birt var í nóvember, kom fram að fjárfestar, sem höfðu ekki verið í viðskiptum við Íslandsbanka fram að söludeginum, hafi haft möguleika á að sækja um og eftir atvikum fá flokkun hjá honum sem hæfir fjárfestar meðan á sölunni stóð. Í skýrslunni segir: „Að auki var horft til fullyrðinga frá fjárfestunum sjálfum um að þeir teldust hæfir fjárfestar en bankinn þurfti að meta upplýsingar þess efnis sjálfstætt.“
Í skýrslunni segir enn fremur að Bankasýslan hafi metið það svo að regluverk fjármálamarkaðarins væri með þeim hætti að slíkar innri reglur umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila kæmu í veg fyrir hagsmunaárekstra í sölunni. „Ljóst er að innri reglur Íslandsbanka komu ekki í veg fyrir slíkt.“
Sjaldgæft umfang á samtímarannsókn
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er afar sjaldgæft að fjármálaeftirlitið fari í eins stóra samtímarannsókn á máli sem tengist starfsemi banka. Fjölmargar ítarlegar rannsóknir á meintum fjármálaglæpum voru gerðar hér á landi eftir hrunið 2008 en þær snerust flestar um mál sem orðin voru nokkurra ára gömul. Rannsóknin á útboðinu í Íslandsbanka er því án hliðstæðu hér á landi á síðustu árum.
Miðað við það sem fyrir liggur að er undir í rannsókn fjármálaeftirlitsins þá er alls ekki ljóst að það hafi verið rétt mat hjá Íslandsbanka að skilgreina ætti alla þessa starfsmenn sem fagfjárfesta. Komið hefur fram að einstaka starfsmenn bankans hafi keypt hlutabréf í útboðinu fyrir tiltölulega lágar upphæðir, nokkrar milljónir króna. Það bendir til þess að Íslandsbanki og starfsmenn hans hafi gengið út frá því að listinn með kaupendum hlutabréfanna yrði ekki opinber, eins og síðar varð raunin. Komið hefur fram opinberlega að bankinn hafi vitað um þátttöku starfsmanna sinna í útboðinu þannig að hlutabréfakaupin áttu sér stað með vitund og vilja stjórnenda Íslandsbanka.
Hræðast opinberun, ekki sekt
Það er Íslandsbanki, ekki starfsmennirnir sem keyptu, sem Fjármálaeftirlitið rannsakaði, og er nú í viðræðum við um hversu háa sekt hann eigi að greiða vegna málsins. Ákvörðun um sektina, og eins hvernig greint verður frá rannsókninni opinberlega, er á hendi fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er það þó ekki möguleg fjársekt, eða upphæð hennar, sem Íslandsbanki hræðist mest í málinu heldur að fjármálaeftirlitið muni birta ítarlega skýrslu eða greinargerð með rannsóknarniðurstöðum sínum.
Í slíkri skýrslu yrði atburðarásin í málinu teiknuð upp frá A til Ö og sýnt fram á með hvaða hætti Íslandsbanki er talinn hafa brotið lög og reglur. Birting slíkra upplýsinga gæti haft í för með sér orðsporsáhættu fyrir bankann og ýtt undir enn gagnrýnni umræðu um ábyrgð hans og einstakra stjórnenda.
Fordæmi eru fyrir því að fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands hafi birt ítarlegar upplýsingar um sektir fjármálafyrirtækja og forsendur þeirra. Þetta gerðist meðal annars árið 2020 þegar Arion banki var sektaður um tæplega 88 milljónir króna fyrir að greina ekki nægjanlega tímalega frá hópuppsögnum í bankanum. Þá var birt ítarleg ákvörðun á alls 18 síðum. Í henni var farið yfir málsatvik, málsmeðferð eftirlitsins, lagagrundvöll og sjónarmið bankans áður en greint var frá ítarlega rökstuddri niðurstöðu á alls níu blaðsíðum. Í því tilfelli var þó ekki um sátt að ræða, heldur einhliða álagningu stjórnvaldssektar. Arion banki sætti sig ekki við niðurstöðuna og stefndi fjármálaeftirlitinu fyrir dómstóla. Eftirlitið var sýknað af kröfum hans í apríl í fyrra en Arion banki áfrýjaði þeirri niðurstöðu til Landsréttar.
Íslandsbankamálið er umtalsvert stærra mál, sem vakti þjóðarathygli, en Arion banka-málið og búist er við að fjársektin í því verði miklu hærri. Miðað við umfang rannsóknarinnar sem fjármálaeftirlitið réðst í liggur einnig fyrir að skýrsla um ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar að sekta Íslandsbanka vegna brota á lögum og reglum í útboðinu verði talsvert lengri en þær 18 síður sem nefndin birti um mál Arion banka.
Athugasemdir