Listafólk venst því snemma á lífsleiðinni að sæta opinberri gagnrýni. Það fylgir starfinu og hver listamaður þarf að rembast við að tileinka sér að taka neikvæðri gagnrýni með æðruleysi og sama gildir um upphefð og verðlaun, manneskja í listum verður að vera trú sinni sýn, hvort sem viðbrögðin við verkunum eru jákvæð eða neikvæð, og reyna að láta þau hafa sem minnst áhrif á sig. Nokkuð sem gengur þó misvel fyrir besta fólk. Stundum klappa allir, stundum púa allir, stundum bæði. Og hvort sem á við, þá þarf listamaðurinn að halda áfram ótrauður á sinni vegferð. Sem getur verið hægara sagt en gert. Fyrir utan það að hörð gagnrýni getur haft svipuð áhrif á ungan listamann og ástarsorg, þá hefur hún jafnframt áhrif á lífsafkomu hans. Alla tilveru hans og meðvitund um tilverurétt.
Þegar þetta berst í tal er viðkvæðið stundum: Jah, svona er þetta nú líka hjá stjórnmálamönnunum.
Munurinn á listamanni og stjórnmálamanni er þó sá að stjórnmálamaðurinn hefur í kringum sig stjórnmálaflokk, fólk sem sér um kynningar og jafnvel aðstoðarmenn. Jú, og margir þeirra ólíkt hærri launatékka. Listamaðurinn er oftar en ekki einn á báti. Stendur og fellur með sjálfum sér – og síðasta verki sínu. Listamaður þarf að hafa það í sér að safna lífskjarkinum saman þegar illa gengur og hætta ekki fyrr en það hefur tekist að finna aftur næga sköpunargleði og bjartsýni – já, sýn – til að halda áfram.
Listafólk er bæði berskjaldað og óvarið. Margir starfa allt lífið af fagmennsku, metnaði, áræðni, ósérhlífni og frumleika – og flest listafólk sem ég þekki til vinnur sturlað mikið – auk þess að stuðla að ýmiss konar verkefnum sem skapa störf fyrir aðra, kynningu fyrir landið, vitundarvakningu eða þróun hugmynda leynt og ljóst. Og samt geta þeir óvænt dottið úr tísku. Eða misst eitthvað út úr sér eða skapað sem fær fjöldann til að hætta að digga þá, á sama tíma og það er hlutverk margra í listum að vera smá hirðfífl, ögra og setja spurningarmerki við ríkjandi hugmyndir og gildisdóma.
Manneskja í listum býr ekki við öruggt skjól. Hún er ekki eins og manneskja í ríkisstofnun sem getur jafnt og þétt unnið sig upp og aukið lífsafkomu jafnt sem öryggi, undir regnhlíf ákveðins kerfis. Það er heldur ekki hægt að setja marga listamenn í svipað mengi og manneskju sem sækir sér ákveðna menntun og reynslu sem tryggja einhvers konar framgöngu á atvinnumarkaðnum. Listamaðurinn á allt sitt undir ýmsum breytilegum forsendum, á annan hátt en aðrir, og oft bara tíðarandanum. Alltaf bara eins góður – eða slæmur – og síðasta verk.
Listir velta milljörðum og margslungin hagvaxtaráhrif þeirra er ógjörningur að mæla til fulls. Eins er ómögulegt að festa fingur á auðlegðinni sem menningin ljær landi og þjóð á álíka fjölbreyttan hátt.
Mig rámar í að hafa eitt sinn lesið grein í þýsku dagblaði þar sem fjallað var um Argentínu og greinarhöfundur sagði eitthvað á þá leið að menningin héldi landi uppi sem hefði verið svo óheppið með stjórnmálamenn. Menning er nefnilega eitthvað sem við getum treyst á og í því tilliti er grasrótin í hverjum jaðri ekki síður mikilvæg, ef ekki mikilvægari, en það sem ber hæst, snilldin vex jú ekki í einrúmi. Grasrótin þar sem listamenn harka og djöflast, lifa á einum kebab á dag til að kynna sér leikhússtrauma í Berlín, skrifa bók út á yfirdrátt eða flækjast um hundsveittir í leigðri rútu til að spila á búllum í fjarlægu landi. Það er kúl að vera listamaður með áheyrn, en það er líka töff, það er hark. Stundum er talað um listafólk sem viðkvæmar sálir en til að lifa af í list þarftu að vera harðari af þér en andskotinn. Að vera starfandi listamaður er áhættuhegðun.
Samfélagið styður á margbrotinn hátt við listir, hér er við lýði dýrmætt styrkjakerfi á ólíkum sviðum, auk þess sem listamenn geta sótt um starfslaun. En þau eiga ómetanlegan þátt í hvernig flóra listanna hefur blómstrað bæði hér heima og úti um allan heim.
En það er ekki síður mikilvægt að hér sé lifandi og fjölbreyttur vettvangur þar sem ólíkar raddir og fagfólk fjallar um listir, þannig að hér séu forsendur til að efla og þróa framlag listamanna. Viðtökuskilyrði sem sæma öllu því sem listafólk gefur af sér. Slíkur vettvangur spriklar á RÚV og Mogginn býr yfir gamalli hefð að huga að menningunni, þó að hann sé kannski ekki í líkingu við það sem var, en sá fjölmiðill hefur í gegnum tíðina státað af færum menningarblaðamönnum – þótt frést hafi að tvær burðarstoðir í því séu á förum þaðan.
Ritstýring á menningarefni er snúið fyrirbæri í fámennu samfélagi. Allir þekkja alla, fólk á sér forsögur, fámennið getur truflað að verk njóti hlutlausrar rýni sem skyldi, kunningjasamfélagið mengar og að vera gagnrýnandi er erfitt starf í umhverfi þar sem viðfang og rýnir hittast í Krónunni. Það getur verið snúið að finna fagfólk sem treystir sér til að rýna í verk í fagi sem það tengist, eins og til dæmis leiklistinni, þar sem þeir með heppilegt innsæi tengjast oft leikhúsunum. Eins með bækur, bæði fjalla kunningjar um kunningja og óvinir um óvini, um leið og þar skiptir máli hver les hvað. Tökum sem dæmi: Ef að karl sem er hokinn af svokölluðum feðraveldisviðhorfum, en þrælmenntaður í bókmenntum, fjallar um skáldsögu sem miklar viðhorfsbreytingu MeToo, þá getur rýnin reyndar orðið mjög áhugaverð með tólum hans – og þegar verst lætur meira upplýsandi um hann en verkið – en um leið kannski ekki sú sanngjarnasta út frá forsendunum sem höfundurinn lagði upp með. Eins ef manneskja andsnúin fjölmenningarsamfélagi fjallar um skáldævisögu flóttamanns o.s.frv. Gagnrýni um sögu segir nefnilega sögu um gagnrýnandann, þrátt fyrir lærð tæki og tól.
Svona má endalaust halda áfram.
En umbrotið bannar fleiri orð. Svo skálum í kaffi yfir viðtölum á þessum síðum við listamenn sem hafa lifað á einum kebab á dag í Berlín og umbreytt íslensku leikhúsi og öllum pennunum hér sem skrifa um list af list. Góða skemmtun!
Athugasemdir