Útgerðarfélagið Samherji þarf að greiða skatta upp á 60 milljónir króna auk vaxta vegna félags í skattaskjólinu Marshall-eyjum sem félagið sór ítrekað af sér að bera nokkra ábyrgð á. Um var að ræða félagið Cape Cod FS sem fjölmiðlar fjölluðu um í tengslum við opinberun Samherjaskjalanna í Namibíu árið 2019 þar sem þetta félag greiddi laun sjómanna sem unnu hjá Samherja erlendis.
Þetta er niðurstaðan úr því samkomulagi sem Samherji hefur gert við Skattinn hér á landi vegna skattskila félagsins á árunum 2012 til 2018. Bæði Samherji og Morgunblaðið, sem Samherji var um árabil stór hluthafi í, stilltu samkomulaginu þannig upp að ekkert óeðlilegt hefði átt sér stað í skattskilum félagsins. Heildarendurgreiðslur Samherja á sköttum nema um og yfir hálfum milljarði króna.
Niðurstaðan felur það í sér að Skatturinn lítur svo á að félagið á Marshall-eyjum hafi verið hluti af samstæðu Samherja og verið stýrt af útgerðinni og að skila hefði átt skattgreiðslum og tryggingagjaldi af þeim Íslendingum sem fengu laun sín greidd frá Cape Cod FS til Íslands. Þessi niðurstaða er ekki einkennileg þegar litið er til þess að það var Samherji sem bæði fjármagnaði félagið og stýrði bankareikningi þess í norska DNB-bankanum.
Félagið á Marshall-eyjum var einungis eitt dæmi um notkun Samherja á skattaskjóli í viðskiptum sínum í Afríku. Samherji notaði einnig félag í skattaskjólinu Máritíus til að taka við þóknunum sem útgerðin greiddi sér frá Namibíu. Þessar þóknanir námu samtals 640 milljónum króna. Ekki liggur fyrir hvort samkomulag Samherja við Skattinn á Íslandi hafi einnig tekið til þessa félags.
„Að setja svona fram, það er tvennt sem kemur til greina, annaðhvort er það illvilji eða yfirsjón.“
Þarf að greiða skatt vegna félags sem það átti hvorki né stýrði
Þessi niðurstaða um starfsemi Cape Cod FS er allt önnur en Samherji hélt á lofti þegar Namibíumálið kom upp í lok árs 2019 og mánuðina þar á eftir. Samherji þrætti ítrekað fyrir að hafa átt eða stýrt Cape Cod FS á Marshall-eyjum: „Samherji á ekki og hefur aldrei átt Cape Cod FS og hefur aldrei falið öðrum að „leppa“ eignarhaldið á félaginu,“ sagði útgerðin meðal annars á vefsíðu sinni.
Björgólfur Jóhannsson, sem starfaði um tíma sem forstjóri Samherja eftir að Namibíumálið kom upp, hélt því líka fram að umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um félagið væri byggð á illum vilja. Þetta sagði Björgólfur í stiklu sem Samherji lét framleiða um Cape Cod FS: „Að setja svona fram, það er tvennt sem kemur til greina, annaðhvort er það illvilji eða yfirsjón.“
Staðhæfingar Samherja þar sem útgerðin sór af sér Cape Cod FS voru svo einnig teknar upp í erlendum miðlum.
Samherji hélt þessari söguskýringu á lofti þrátt fyrir að DNB-bankinn hefði sagt upp viðskiptum við Samherja meðal annars vegna notkunar félagsins á þessu skattaskjólsfélagi til að greiða laun starfsmanna sinna. Norski bankinn var meðal annars gagnrýninn á millifærslur af reikningum Samherja til félagsins á Marshall-eyjum.
Athygli vekur að Samherji sleppti því hins vegar að minnast á Cape Cod FS þegar félagið greindi frá uppgjörinu við Skattinn á vefsíðu sinni.
Morgunblaðið fjallaði hins vegar um þátt Cape Cod FS í samkomulaginu við Skattinn. Framsetning Morgunblaðsins á málinu bendir til að miðillinn hafi haft gögn um samkomulagið við skattinn undir höndum. Upplýsingarnar í frétt Morgunblaðsins voru hins vegar, af einhverjum ástæðum, frekar takmarkaðar þrátt fyrir að augljóst væri að blaðið væri með gögn undir höndum.
Blaðið sagði að uppgjör Samherja við Skattinn væri tvíþætt og að í tilfelli Cape Cod FS snerist: „Annars vegar er um að ræða endurálagningu á staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds vegna áhafna sem störfuðu sem verktakar á vegum Cape Cod FS, sem þjónustaði félög tengd Samherja um mönnun, í einhverjum tilvikum Íslendinga, á skipum í rekstri samstæðunnar erlendis. Það er mat Skattsins að Samherji beri ábyrgð á skilum á tekjuskatti og tryggingagjaldi vegna þeirra Íslendinga sem störfuðu á umræddum skipum, þrátt fyrir að þeir hafi starfað þar sem verktakar.“
Miðað við fyrri yfirlýsingar Samherja, og niðurstöðuna úr samkomulaginu við Skattinn, er ljóst að útgerðin hefur ekki sagt alveg satt og rétt frá um félagið Cape Cod FS og tengsl sín við það. Enda var það líka þannig að starfsmenn félagsins, meðal annars stýrðu bankareikningum félagsins á Marshall-eyjum.
Norski bankinn vissi aldrei hver átti Cape Cod
Eignarhaldið á Cape Cod var sagt vera hjá starfsmannaleigu á Kýpur sem heitir JPC Ship Management þegar félagið stofnaði bankareikninga hjá DNB árið 2010. JPC var hins vegar aldrei raunuverulega eigandi Cape Cod FS.
Norski bankinn fékk aldrei neina staðfestingu á eignarhaldi félagsins þrátt fyrir að Samherji hafi notað það í 8 ár til að flytja tæpa 10 milljarða króna í gegnum það og greiða stafsmönnum sínum laun.
Viðskipti Samherja við Cape Cod FS og JPC Ship Management, sem sagt var vera móðurfélag Cape Cod frá árinu 2015, gengu þannig fyrir sig að Samherji gerði samninga við starfsmannaleiguna um að hún myndi sjá Afríkuútgerðum Samherja fyrir starfsfólki, „Rússum“, sjómönnum frá Eystrasaltslöndunum, Úkraínu og Rússlandi aðallega. Starfsmenn Samherja í Afríku gerðu svo verktakasamninga við Cape Cod FS á Marshall-eyjum sem greiddi þeim launin fyrir vinnuna.
Í peningaþvætttisfræðum eru slík félög, sem enginn virðist eiga eða stýra, kölluð „rottuholur“ því þau framkvæma hluti sem enginn virðist bera ábyrgð á.
Fordæmi úr sögu Samherja og Sjólaskipa
Þetta fyrirkomulag með launagreiðslur til íslensku sjómannanna sem unnu hjá Samherja erlendis hefur áður verið umfjöllunarefni í fjölmiðlum. Nokkrir af sjómönnum Samherja og Sjólaskipa - Samherji keypti útgerðina af Sjólaskipum 2007 - lentu í dómsmálum gegn íslenskum skattayfirvöldum vegna þess að skattur af launum þeirra var ekki greiddur til Íslands. Þetta voru meðal annars sjómenn sem unnu hjá Sjólaskipum og Samherja í Marokkó og Máritaníu. Samherji hélt því fram að starfsmennirnir hefðu verið verktakar en sjómennirnir héldu að þeir hefðu verið launþegar. Niðurstaðan var sú að enginn skattur var greiddur af launum þeirra neins staðar, hvorki í Afríku né á Íslandi. Skattayfirvöld enduðu á því að fella niður mál fjölda sjómanna sem lentu í þessu.
Það fyrirkomulag sem vinna Cape Cod FS snerist um var því þekkt: Samherji taldi hagkvæmt að hafa verktaka í vinnu hjá sér sem fengu svo greidd laun í skattaskjóli. Þannig þurfti útgerðin ekki að greiða staðgreiðslu af launum eða launatengd gjöld.
Eitt sem kannski þarf líka að hafa í huga í þessu samhengi er að Samherji hefur lengi litið á staðgreiðslu skatta og tryggingjalda af launum starfsmanna sem sínar skattgreiðslur, það er að segja skattgreiðslur Samherja. Þegar félagið hefur greint frá ársuppgjörum sínum hefur það yfirleitt spyrt þessum tveimur tölum saman eða þá haldið þeim aðskildum og nefnt skattgreiðslur af launum starfsmanna sérstaklega. Í umfjöllun á heimasíðu félagsins um uppgjör þess árið 2017 sagði til dæmis: „Samherji er áfram í hópi stærstu skattgreiðenda landsins og greiddu Samherji og starfsmenn um 5,1 milljarð til hins opinbera á Íslandi árið 2017.“
Þannig virðist sú hugsun hafa verið fyrir hendi hjá Samherja að með því að þurfa ekki að greiða staðgreiðslu af launum starfsmanna, meðal annars vegna þess að þeir voru skilgreindir sem verktakar sem fengu greidd laun úr skattaaskjóli, þá hafi fyrirtækið verið að spara sér verulega fjármuni. Þetta er sannarlega rétt mat hjá Samherja því fyrirtæki þarf auðvitað að borga minna ef það greiðir vertaka milljón í verktakalaun en ef það greiðir starfsmanni sömu upphæð plús launatengd gjöld.
Skatturinn virðist hins vegar ekki hafa verið sammála Samherja um að útgerðin hafa mátt gera þetta svona.
DNB og fjármálaeftirlit sögðu Cape Cod hluta af samstæðu Samherja
Eins og Stundin fjallaði um árið 2019 þá leit viðskiptabanki Samherja, DNB í Noregi, svo á að Cape Cod væri hluti af samstæðu Samherja enda var félagið fjármagnað af íslensku útgerðinni til að greiða laun starfsmanna hennar erlendis.
Um 9 milljarðar króna fóru frá Samherja til Cape Cod FS á árunum 2011 til 2018. Félög Samherja erlendis, meðal annars Esja Seafood og félög Samherja í Namibíu, fjármögnuðu Cape Cod, enda var félagið notað til að greiða laun sjómanna Samherja í Afríku á grundvelli samninga við starfsmannaleiguna JPC Ship Management. Félagið Esja Seafood, eitt helsta eignarhaldsfélag Samherja erlendis, millifærði til dæmis 324 sinnum inn á bankareikninga Cape Code FS, oft ansi háar fjárhæðir eða meira en milljón Bandaríkjadollara.
Norska fjármálaeftirlitið komst að sömu niðurstöðu í skýrslu sem það vann um DNB-bankann og slælegar varnir hans gegn peningaþvætti í fyrra. Norska Ríkisútvarpið orðaði það sem svo að fjármálaeftirlitið „húðfletti“ DNB-bankann vegna málsins. „Bankinn virðist hafa haldið að viðskiptavinurinn væri hluti af Samherjasamstæðunni frá því að hann gerðist viðskiptavinur fram til 2017, án þess að þetta kæmi fram í nokkrum gögnum sem tengjast viðskiptasambandinu.“
Sekt upp á 6 milljarða króna
Norska fjármálaeftirlitið endaði á því að sekta DNB-bankann um 400 milljónir norskra króna eða um 6 milljarða króna vegna slælegs eftirlits hans með millifærslum viðskiptavinar síns, Samherja og tengdra félaga. Ástæða sektarinnar var sú að DNB-bankinn horfði í gegnum fingur sér með 9 milljarða króna millifærslur af reikningnum Samherja til félags í skattaskjóli sem einnig var viðskiptavinur bankans en DNB fékk aldrei neina staðfestingu á hver ætti.
Staðan er því sú að ef Samherji sagði satt og rétt frá um eðli Cape Cod FS, að útgerðin hefði ekki tengst félaginu og notað það með þeim hætti sem fjölmiðlar lýstu, þá byggir sá hluti samkomulags Skattssins við Samherja á misskilningi. Auk þess byggjast túlkanir og niðurstöður DNB-bankans og norska fjármálaeftirlitsins þá einnig á misskilningi.
Hinn möguleikinn er sá að Samherji hafi einfaldlega ekki sagt satt og rétt frá á sínum tíma um tilgang Cape Cod FS og tengsl útgerðarinnar við skattaskjólsfélagið.
Athugasemdir (1)