Ég var gift í mörg ár, á fjóra fullorðna syni og bý ein í minni íbúð. Ég er í þriggja vikna hvíldarinnlögn á Grund og það er allt gott um það að segja. Annars bý ég í minni íbúð og allt í fínu með það.
Hvað það er yndislegt að búa á Íslandi! Ég kem alls staðar frá. Móðir mín var finnsk og pabbi var danskur. Foreldrar mínir kynntust í Helsinki í Finnlandi. Mamma var hattasaumadama þar, en pabbi var vélstjóri á skipi. Þau giftust og bjuggu þar fyrstu árin. Síðan flutti fjölskyldan til Danmerkur, þar sem ég bjó með foreldrum mínum þar til ég varð tvítug. Eftir stríðið langaði mig að sjá eitthvað annað en Danmörku, en þá var ekki um annað að ræða en að vera í vist einhvers staðar.
Ég sá auglýsingu frá íslenskum hjónum sem voru stödd í Kaupmannahöfn. Þau vantaði unga stúlku til að koma með sér til Íslands að passa börnin. Ég fór beinustu leið á skrifstofuna á tollinum þar sem ég var, ákvað að fara með til Íslands fimm dögum síðar og gerði það, með leyfi foreldra minna. Ég fékk leyfi frá vinnunni í eitt ár. Ég kom hingað og var út umsamið ár og sneri aftur til baka. Í millitíðinni hafði ég hitt ungan íslenskan strák sem kom til Danmerkur nokkrum árum síðar til að sækja mig. Hér hef ég verið síðan, í meira en hálfa öld.
Athugasemdir