Ástæða þess að ríkislögreglustjóri þurfi að segja sig frá rannsókn á ætlaðri hryðjuverkaógn á Íslandi er sú að nafn Guðjóns Valdimarssonar hefur komið upp í tengslum við rannsóknina, samkvæmt heimildum Stundarinnar. Hann er faðir Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra sem fór fyrir rannsókn málsins þar til ríkissaksóknari féllst á að færa forræði málsins til héraðssaksóknara. Sigríður Björk óskaði eftir þessu við saksóknara í gærkvöldi.
Greint var frá vanhæfinu á blaðamannafundi lögregluembætta í dag þar sem rannsókn lögreglu á ætlaðri skipulagningu hryðjuverkaárásar voru til umfjöllunar. Þar kom fram að Sigríður Björk hafi óskað eftir því að segja sig frá málinu um leið og upplýsingar um að einstaklingur sem væri tengdur sér fjölskylduböndum hefur verið nefndur í tengslum við málið. Ekki kom fram á fundinum hvaða einstaklingur það væri né af hverju eða í hvaða samhengi nafn hans hefði komið upp við rannsóknina.
Selur vopn á netinu
Fram hefur komið að rannsókn lögreglu hafi í fyrstu snúist um grun um brot á vopnalögum en talsvert magn vopna hefur verið gert upptækt í víðtækum aðgerðum lögreglunnar á undanförnum dögum. Annar þeirra tveggja íslensku karlmanna sem situr nú í gæsluvarðhaldi hafði sætt vikulöngu gæsluvarðhaldi akkúrat vikuna áður en hann var handtekinn og úrskurðaður í varðhald, þá vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka.
Athugasemdir (2)