Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir losun endurvinnslufyrirtækisins Terra á plastmenguðum úrgangi á náttúruminjasvæði vera alvarlega. Traust almennings á endurvinnslu minnki verulega þegar fyrirtæki og sveitarfélög sinni málaflokknum ekki betur en raun beri vitni.
„Þetta er náttúrulega bara svakalegt. Eins og með allt annað varðandi plastið, sem við erum að komast að bara á undanförnum árum. Þessi úrgangsmál eiga að vera í lagi og við erum bara endurtekið að sjá að þetta einfalda grundvallarmál, að sjá um úrganginn, það getum við á Íslandi einu sinni ekki gert almennilega,” segir Auður Anna.
Aðspurð hvað henni finnst um að endurvinnslufyrirtæki sem var kjörið umhverfisfyrirtæki ársins, af Samtökum atvinnulífsins, hafi á sama tíma verið að losa plastmengaðan úrgang á náttúruminjasvæði í landi Spóastaða í Bláskógabyggð segir Auður að fyrirtækið þurfi að standa sig mun betur í þessum málum.
„Það er náttúrulega bara brandari. Það sýnir kannski að þau sem standa að umhverfismálunum þurfa að standa sig betur. Ég vona bara að Terra sé alvara í því að taka til hjá sér, í bókstaflegri merkingu og þau reyni að standa sig betur. Þetta sýnir líka að bæði eftirlit og starfsleyfi, og jafnvel viðurlög við að gera svona, því er greinilega mjög ábótavant hjá okkur. Ef þeir hlutir væru í lagi þá væru náttúrlega miklu minni líkur að svona atvik komi upp.”
„Það er náttúrulega bara brandari”
Auður segir að lítil sveitarfélög Íslandi þurfi faglegan stuðning frá ríkinu til að sinna úrgangsmálum og að sinna þeim rétt. „Við vitum að á Íslandi eru mörg lítil sveitarfélög sem hafa lítið bolmagn til að sinna skyldum sínum sem lögð eru á herðar þeirra. Í svona mikilvægum málum þá þyrftu sveitarfélögin að fá meiri stuðning, ekki beinan fjárhagslegan stuðning heldur faglegan stuðning.”
Þá segir Auður að þegar svona tilfelli koma upp að það geti haft veruleg áhrif á traust almennings á endurvinnsluiðnaðinn í heild. „Ég veit hins vegar að almenningur er mjög viljugur að sinna úrgangsmálum mjög vel, bæði að draga úr sínum úrgangi og flokka hann rétt. En þegar svona hlutir koma upp, að þeir sem eiga að taka við úrganginum, geta ekki gert það almennilega og fylgt algjörum grunnreglum eða lágmarkskröfum, þá verður náttúrulega erfiðara fyrir almenning að treysta því að það sem þeir gera skipti einhverju máli.”
Svæðið sem Terra losaði plastmengaðan úrgang er á náttúruminjaskrá og segir Auður að það sé sérlega alvarlegt að úrgangurinn hafi verið losaður á svo viðkvæmu svæði. „Það að svæði sé á náttúruminjaskrá þýðir að náttúran þar sé sérlega verðmæt. Algjörlega óháð því þá losar maður bara ekki úrgangi bara hvar sem er, það á bara að vera algjörlega ljóst, það á að vera algjör lágmarkskrafa. Alveg sama hvort það sé Terra eða sveitarfélagið sem gerir það, þá á þetta bara að vera algjörlega á hreinu. En það er sérlega alvarlegt að þetta er svæði sem er á náttúruminjaskrá.“
Athugasemdir