„Við ætlum ekki að leyfa blaðamönnum að komast upp með að fara í gegnum síma einhvers fólks.“
Svona útskýrði Eyþór Þorbergsson, saksóknari og staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, fyrir dómara hvað vakti fyrir lögreglu með rannsókn á mér og þremur öðrum blaðamönnum. Það sem er sérstakt við orð hans er að ekkert okkar sem til rannsóknar erum, er grunað um að hafa farið í gegnum síma „einhvers fólks“. Í opinberri umræðu hefur þeirri fjarstæðukenndu fullyrðingu einnig verið haldið fram að við höfum tekið þátt í því að „eitra“ fyrir Páli Steingrímssyni skipstjóra sem starfar fyrir Samherja og/eða stolið símanum hans. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum ekki heldur grunuð um það.
Frá því að málið kom fyrst upp hefur verið marg staðfest að þessir þættir eru alls ekki til rannsóknar. Ekkert okkar er grunað um slíka glæpi, sama hverju ofstækisfullur menntaskólakennari í Garðabæ heldur fram á bloggsíðunni sinni og hefur gert um margra mánaða skeið. Ekki heldur þótt ákveðnir fjölmiðlar hafi endurómað þessi skrif hans, án þess að gera nokkra tilraun til að sannreyna þessar fullyrðingar. Skipstjórinn sem um ræðir og kennarinn í Garðabænum eru ekki einir um að hafa talað gegn betri vitund í glórulausum fullyrðingum sínum um þetta mál, að því að virðist í tilraun til að koma höggi á blaðamenn.
Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur nefnilega líka gerst sek um það. Það hefur verið mér ljóst um nokkurra mánaða skeið, eða allt frá því að ég las greinargerð saksóknara sem hann lagði fyrir dóm í vor. Greinargerðin var tilkomin vegna annars anga málsins, sem sneri að málshöfðun sem átti að skera úr um lögmæti aðgerða lögreglu gagnvart blaðamönnum sem fengu stöðu sakbornings. Þegar ég svo mætti til yfirheyrslu vegna málsins á dögunum staðfestist það endanlega fyrir mér hversu ósvífinn málflutningur og málarekstur lögreglunnar hefur verið.
Glæpurinn að segja frá
Þann 14. febrúar var ég fyrst boðaður í yfirheyrslu. Þá fékk ég að vita að ég væri með stöðu sakbornings vegna gruns um að hafa brotið lög um friðhelgi einkalífs. Í lagagreinum sem vísað var til, 228. og 229. greina almennra hegningarlaga, er þó að finna undanþáguákvæði vegna starfa blaðamanna. Þegar ég var boðaður í yfirheyrslu var því svo skilmerkilega haldið til haga að tilefni yfirheyrslunnar væru fréttir sem ég skrifaði um skæruliðadeild Samherja. Ég gerði ráð fyrir að rannsóknin sneri að því hvernig ég komst yfir upplýsingar sem fréttir um skæruliðadeild Samherja byggðu á. Það var það sem mér hafði verið kynnt og það er það sem lagagreinarnar sem ég var grunaður um að hafa brotið snúast um; að skoða og birta gögn sem eru leyndarmál.
Það er ekki tilviljun að störf blaðamanna séu undanskilin þessum lögum. Það er enda eitt af mikilvægustu hlutverkum blaðamanna að upplýsa almenning um mál sem markvisst er haldið frá fólki. Að afhjúpa leyndar upplýsingar sem eiga erindi við almenning. Það er kjarninn í störfum mínum. Það er það sem ég gerði ásamt kollegum mínum í umfjöllun um Panamaskjölin, Glitnisskjölin og Samherjaskjölin, til að nefna dæmi. Eins í umfjölluninni um skæruliðadeild Samherja. Í öllum tilvikum birtust upplýsingar sem einhver vildi ekki að kæmi almenningi fyrir sjónir. Mikilvægi þessarar vinnu endurspeglast í fjölmörgum öðrum lagagreinum. Það er refsivert brot á lögum ef blaðamaður upplýsir um heimildarmenn sína, óháð því hvort heimildarmenn hafi aflað leynilegra upplýsinga í leyfisleysi.
Í mínum huga var því ekki annað í stöðunni en að reyna fá úr því skorið hvort aðgerðir lögreglu stæðust lög. Ég hef áður rakið ástæður þeirrar ákvörðunar, en í stuttu máli var niðurstaðan sú að héraðsdómur fjallaði einn dómstóla efnislega um málið og komst að því að aðgerðir lögreglu væru ekki lögmætar. Landsréttur vildi hins vegar ekki taka efnislega afstöðu til rannsóknaraðgerða lögreglu, ógilti dóm héraðsdóms og vísaði málinu frá. Hæstiréttur hafnaði því að taka málið fyrir, því það hefði þegar fengið meðferð á tveimur dómstigum. Efnislega umfjöllun og mat á lögmæti lögreglurannsóknarinnar var því ekki hægt að fá hjá dómstólum. Því fóru yfirheyrslurnar fram.
Ég er enn á því að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvort þessi leiðangur lögreglunnar nyrðra sé lögmætur. Því hef ég falið lögmanni mínum að óska eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu fjalli efnislega um málið. Slíkt mál hefur því verið höfðað.
Til að tryggja að ég yrði örugglega yfirheyrður lagði saksóknari lögregluembættisins á Norðurlandi eystra fram bunka af gögnum þegar fjallað var um kæru mína fyrir Landsrétti. Gögn sem lögreglan vildi ekki að ég fengi aðgang að, en ég fékk engu að síður þegar málið fór á milli dómstiga. Djúpt í þeim 176 blaðsíðna gagnapakka leyndist margt áhugavert; til að mynda staðfesting lögreglunnar á því að bæði gögn og vitnisburður fella málatilbúnað hennar eins og spilaborg í vindi.
Hin meintu brot
En hver er málatilbúnaðurinn? Saksóknari lögregluembættisins lagði fram ítarlega greinargerð fyrir héraðsdómi til að reyna að skýra það. Samkvæmt honum voru forsendur rannsóknarinnar þessar:
-
Gögnin sem voru notuð til grundvallar umfjöllunar um skæruliðadeild Samherja komu úr WhatsApp-samskiptaforritinu í farsíma Páls Steingrímssonar.
-
Nauðsynlegt var fyrir hvern þann sem fann það að skoða öll gögn sem voru í símanum.
-
Í símtækinu voru myndir eða myndbönd af Páli ásamt ótilgreindum einstaklingi í kynferðislegum athöfnum og þar sem nauðsynlegt hafi verið að skoða öll gögn af símanum til að nálgast samskipti skæruliðadeildarinnar hafi þessar myndir eða myndbönd líka verið skoðuð og afrituð.
-
Blaðamenn deildu svo gögnunum hugsanlega með hvorum öðrum eða öðrum starfsmönnum á ritstjórn viðkomandi miðla, þar með töldum kynferðislegum myndir eða myndböndum af Páli og ótilgreindum einstaklingi.
Þessi málatilbúnaður lögreglu er ekki bara rangur. Hann er líka settur fram gegn betri vitund. Lögreglan hefur nefnilega frá upphafi vitað að ekkert bendir til þess að atburðarásin hafi verið með þeim hætti sem þarna er lýst.
Það eina sem lögreglan hefur getað staðfest er að samskiptin sem vitnað var til áttu sér stað í gegnum WhatsApp. Ekki er útskýrt af hverju lögreglan fullyrðir að nauðsynlegt hafi verið að fara í gegnum öll gögn símans til að finna þessi skilaboð. Þvert á móti liggur fyrir vitnisburður einstaklings sem segist hafa skoðað símann og í kjölfarið sagt ótilgreindum blaðamanni frá tilteknum samskiptum sem hann taldi eiga erindi við almenning. Lögreglan virðist engu geta bætt við öðru en eigin tilgátum um nauðsyn þess að hver sá sem afhenti samskiptin hafi þurft að skoða meira.
Til að undirstrika enn frekar hversu farsakenndur málflutningur lögreglunnar er þá er heldur ekkert sem bendir til þess að síminn hafi verið afritaður í heilu lagi. Ástæðan er einföld: Það er ekki hægt að afrita WhatsApp þegar símtæki er afritað í heilu lagi. Þetta veit lögreglan af því hún reyndi það. Til að lögreglan gæti lagt fram sannanir fyrir því að ummælin sem birtust í umfjöllun minni hefði sannarlega mátt finna í WhatsApp skilaboðum Páls við hina „skæruliðana“ þurfti lögreglan enda að beita óhefðbundnum aðferðum.
„Þar sem Whatsapp samskiptaforritið er dulkóðað afritast það ekki þegar síminn er afritaður og því voru samskipti þau er málið varða, tekin upp og fylgja með á mynddisk,“ segir í skjali sem lögreglan lagði fram fyrir dóminn. Með öðrum orðum: Lögreglan gat ekki framkvæmd glæpinn sem hún þó er tilbúin að saka mig um. Glæp sem engar vísbendingar eru um að hafi verið framinn, hvað þá að nokkuð bendi til þess að ég tengist á nokkurn hátt.
Stafrænt kynferðisbrot
Fyrir héraðsdómi Norðurlands sagðist lögreglan á Norðurlandi eystra rannsaka kynferðisbrot gegn Páli, sem átti að hafa falist í því að blaðamenn veittu viðtöku og miðluðu gögnum sem voru meðal annars sögð hafa innihaldið klámefni.
Lögreglan virðist samt ekki hafa fundið neinar kynferðislegar myndir eða myndbönd í símanum. Í gögnum sem lögreglan hefur nú afhent kemur fram að myndum og myndböndum hafi verið eytt úr símanum áður en hann kom í vörslu lögreglunnar. Aftur á móti liggja fyrir tölvupóstsamskipti á milli Páls skipstjóra og þess sem grunaður er um að hafa skoðað símann í leyfisleysi þar sem talað er um kynlífsmyndbönd. Við skoðun á pósthólfi þess einstaklings fundust svo myndbönd af kynfærum ónefndra einstaklinga, sem höfðu verið framsend úr netfangi skipstjórans. Sérstaklega er tekið fram í gögnum lögreglunnar að ekki sjáist í andlit þeirra sem á myndunum eru. Það get ég staðfest því lögreglan afhenti mér á dögunum skjáskot úr myndböndunum.
Lögreglan afhenti fleira óvænt, eins og ítarlegar upplýsingar um hvernig ætti að opna síma Páls. Eftir að fullyrðingar bárust um að síma Páls hefði verið stolið hafði ég einhverra hluta vegna séð fyrir mér að um væri að ræða gamlan Nokia-takkasíma, en ekki nýlegan Samsung S20 eins og kom í ljós í gögnum lögreglu. Það kom samt ekki eins mikið á óvart og að lögreglan lét fylgja upplýsingar um hvaða fjögurra stafa kóða þarf til að aflæsa síma Páls.
Eina staðfesta tilvikið um að nektarmyndum hafi verið dreift, með lykilorði að síma Páls, var þannig framkvæmt af lögreglunni sjálfri.
En í raun virðist þetta aldrei hafa skipt neinu máli. Allt tal um dreifingu kynferðislegs myndefnis virðist hafa verið hreinn fyrirsláttur lögreglu. Það var allavega ekki minnst einu orði á meinta aðild að dreifingu á þessu efni í yfirheyrslu yfir mér eða kollegum mínum þremur.
Og þvert á málatilbúnað saksóknara lögreglunnar fyrir dómi, snerist þessi rannsókn aldrei um það hvort blaðamenn hefðu tekið við eða sent áfram kynlífsmyndbönd. Rannsóknin hafði heldur ekkert að gera með þjófnað á síma hvað þá því að hafa eitrað fyrir skipstjóra norður á Akureyri, eins og haldið hefur verið fram.
Þetta varð mér endanlega ljóst í yfirheyrslum hjá lögreglu í lok ágúst. Þegar sakarefnið var kynnt fyrir mér þá, þuldi löreglumaðurinn einfaldlega upp fyrirsagnir á fréttum sem ég hafði skrifað.
Það var því rétt sem augljóst hefur verið frá upphafi: Lögreglan er að reyna að draga blaðamenn fyrir dóm fyrir það eitt að skrifa fréttir. Og í þeirri viðleitni sinni ætlar lögreglan krefja blaðamenn svara um nöfn heimildarmanna sinna. Þetta gerði lögreglan ítrekað í yfirheyrslu sinni yfir mér; þar sem spurt var berum orðum um hver heimildarmaðurinn væri. Af augljósum ástæðum neitaði ég að svara. Þá fyrst hefði ég framið refsivert brot á lögum, samkvæmt 25. grein laga um fjölmiðla.
Þó að hið eiginlega markmið lögreglunnar hafi legið ljóst fyrir frá fyrsta degi, hefur lögreglan á Norðurlandi eystra, með saksóknara embættisins í farabroddi, viljandi búið til svigrúm fyrir menn eins og fjármálaráðherra, aðstoðarmann dómsmálaráðherra og vanstillta bloggara til að setja fram spekúlasjónir um að málið snúist um eitthvað allt annað og miklu meira. Vangaveltum þessa fólks hefur síðan verið varpað fram í opinberri umræðum, líkt og um sé að ræða staðreyndir en ekki innantómar ávirðingar.
Það að lögreglustjórinn hafi aldrei séð ástæðu til að leiðrétta þær rangfærslur sem haldið hefur verið fram opinberlega um málavexti, er athyglisvert í ljósi þess að sama lögreglustjóra virtist mikið í mun að tjá sig – bæði opinberlega og með yfirlýsingum – um andmæli okkar blaðamannanna við ákvörðun embættisins um að kalla okkur til yfirheyrslu með stöðu sakborninga.
Innandeildarátök
Þau gögn sem á dögunum fengust afhent varpa sem fyrr segir enn betra ljósi á málatilbúnað lögreglu og vinnubrögð í málinu. Til dæmis opinberast þar hvernig rannsókn málsins fór af stað. Þvert á það sem áður hefur verið fullyrt liggur ljóst fyrir í gögnum málsins að Páll Steingrímsson leitaði fyrst til lögreglu eftir að hann fékk símtal frá mér í aðdraganda umfjöllunar um skæruliðadeild Samherja. Erindi símtalsins var að veita Páli tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri vegna umfjöllunarinnar. Á þeim tíma grunaði hann þó annan skæruliða um að hafa stolið bæði síma sínum og tölvu: Jón Óttar Ólafsson fyrrverandi lögreglumann, en síðar einkaspæjara Samherja og liðsmann svokallaðrar skæruliðdeildar fyrirtæksins.
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að hugur Páls hafi fyrst leitað til Jóns Óttars, enda hefur Jón gerst uppvís af því að taka upp samtöl fólks, áreita og sitja um fólk, auk þess reyna að brjótast inn á tölvupóstfang eða Dropbox-reikninga, allt á meðan hann sinnti störfum fyrir Samherja. Áður hefur hann þurft sæta grun fyrir að taka ófrjálsri hendi og hagnýta rannsóknargögn lögreglunnar þar sem hann eitt sinn vann, til eigin ábata.
Það segir sitt að Páll skuli í fyrstu hafa grunað þennan samstarfsmann sinn um þjófnaðinn.
Síðar breytti Páll skipstjóri ásökunum sínum í samtali við lögreglumann á Akureyri og sakaði annan einstakling, sem er honum nákominn, um að hafa skoðað símann. Í kjölfarið var viðkomandi boðaður til yfirheyrslu og gefin staða sakbornings. Sá viðurkenndi að hafa skoðað síma Páls og séð þar samtöl við aðra Samherja. Í kjölfarið hafi viðkomandi afhent ótilgreindum einstaklingi símann. Allt það sem á eftir kemur eru tilgátur lögreglunnar sem ekki eru studdar gögnum eða vitnisburði.
Í yfirheyrslunni var ég spurður hver afhenti mér gögnin. Lögreglan hefur engin gögn um að ég hafi hitt, talað við eða skipst á skilaboðum við þann sem til rannsóknar er fyrir að skoða símann, enda eru slík gögn ekki til. Hvorki fyrir né eftir birtingu umfjöllunar um skæruliðadeild Samherja. Lögreglan horfir framhjá því og bendir á að viðkomandi hafi sent mér og fleirum, afrit af tölvupóstum á milli sín og lögmanns fimm mánuðum eftir að umfjöllunin birtist, þar sem meðal annars komu fram vísbendingar um að brotist hafi verið inn í tölvu viðkomandi og heilsufarsupplýsingar sóttar á Heilsuveru, sem síðar voru notaðar gegn viðkomandi. Lögreglan virðist reyndar ekki hafa neinn áhuga á þeim anga málsins. Lögreglan skautaði líka framhjá þeirri staðreynd að ég svaraði ekki þessum póstum, sem var reyndar beint til fleiri en þeirra sem eru til rannsóknar í þessu skrítna máli.
Margt bendir enda til að furðulegar kenningar Páls þessa Steingrímssonar stýri för við rannsókn málsins. Í fjórgang hefur Páll gefið skýrslu hjá lögreglu og í hvert skipti hefur framburður hans breyst. Þess vegna er enn sérkennilegra að sjá hvernig fjölmargt af því sem fullyrt var í greinargerð saksóknara embættisins til héraðsdóms virtist eingöngu styðjast við fullyrðingar Páls; annað hvort áðurnefndum skýrslutökum eða tímalínu sem Páll tók sjálfur saman og lagði fyrir lögregluna.
„Mánudagurinn 30. ágúst: Átti spjall við Páleyju, lögregustjórans á Norðurlandi eystra.“
Þetta gerði saksóknari jafnvel þó fyrir lægi að einstaklingar sem Páll fullyrti við lögreglu að hefðu lýst ákveðnum fundum eða atvikum, hefðu þá þegar svarið af sér lýsingar Páls og sagt þær rangar.
Fullyrðingar um eitrun, og andlega vanlíðan þess sem lögreglan grunar að sé heimildarmaður blaðamanna eiga sér þannig enga aðra stoð í gögnum málsins. Þvert á móti raunar bendir ekkert til þess að eitrað hafi verið fyrir Páli þrátt fyrir að lögreglan hafi farið fram á læknisfræðilegt mat tveggja ólíkra heilbrigðisstofnanna og skoðað blóðrannsóknir og eiturefnamælingar sem gerðar voru þegar hann lá á sjúkrahúsi.
Í tímalínunni er þó fleira að finna en kenningar gripnar úr lausu lofti. Þar eru líka lýsingar á samskiptum Páls við við Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra. Upplýsingar sem fjarlægðar voru á seinni stigum málsins, úr þeim gögnum sem lögreglan afhenti að loknum yfirheyrslum.
„Mánudagurinn 30. ágúst: Átti spjall við Páleyju, lögregustjórans á Norðurlandi eystra,“ skrifaði Páll á einum stað og á öðrum: „Föstudagurinn 12. Nóvember: Páley lögreglustjóri hringir í mig. Muna að setja inn minnispunkta vegna samtalsins.“
Þessar upplýsingar voru í þeim gögnum sem voru lagðar fyrir dóm þegar látið var reyna á lögmæti aðgerða lögreglu, en ekki í þeirri útgáfu tímalínunnar sem lögreglan afhenti mér að lokinni yfirheyrslu. Tímalínan hafði verið stytt, úr 10 blaðsíðum í þrjár. Upplýsingar um samskipti við lögreglustjórann voru ekki lengur í gögnunum og ekki heldur upplýsingar um ýmsar aðrar kenningar sem Páll hefur haldið að lögreglunni.
Rykinu þyrlað upp
Afleiðingarnar af þessu máli eru raunverulegar. Í marga mánuði hefur Páll Steingrímsson matað nafna sinn, Pál Vilhjálmsson kennara við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, á bæði rannsóknargögnum og eigin kenningum um hvað hafi átt sér stað. Þeir hafa síðan gengið á milli fjölmiðla og boðið fram einhverja útgáfu af atburðarás sem á sér enga stoð í gögnum málsins.
Eftir stendur að umfjöllunin var rétt. Það hefur Samherji staðfest með afsökunarbeiðni á framferði Páls og hinna skæruliðanna. Það hefur líka verið sannreynt með rannsókn lögreglu á samskiptum starfsfólks Samherja í gegnum WhatsApp. Enda hafa engar efnislegar athugasemdir verið gerðar við umfjöllunina. Ekki frekar en upprunalegu umfjöllunina um Samherjaskjölin. Þess í stað hefur verið ráðist með offorsi á þá sem hafa sagt frá.
Þótt mér svíði hatursfull orðræða gagnvart mér persónulega og blaðamannastéttarinnar er það þó langt í frá alvarlegasta afleiðing málsins. Meira en þrjú ár eru liðin frá því að upplýst var um starfshætti Samherja í Namibíu, rúmt ár er liðið frá því að upplýst var um starfshætti skæruliðadeildarinnar á Íslandi. Umræðan um efni umfjallana hefur vikið fyrir glórulausri rannsókn lögreglunnar á því hvernig upplýsingarnar rötuðu í hendur blaðamanna, sem og rakalausum og meiðandi dylgjum um að ég og aðrir nafngreindir blaðamenn höfum beint eða óbeint eitrað fyrir manni og stolið af honum símanum, í von um að þar væri eitthvað að finna.
Það er augljóst af gögnum málsins, sem meðal annars innihalda tímalínu sem Páll Steingrímsson gerði og sendi lögreglunni, að hann hefur haft greiðan aðgang að lögreglumönnum á Akureyri og Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra. Fundir og persónuleg samskipti á milli aðila eru tíunduð í skjali Páls, sem lögreglan byggir rannsóknina meðal annars á. Þegar það leggst ofan á það sem er vitað um rannsóknaraðferðirnar skal ég viðurkenna að ég er farinn að efast um hlutlægni þeirra sem stýra rannsókninni gegn mér og fleiri blaðamönnum. Orð saksóknarans Eyþórs í dómsal, í viðtölum og í samskiptum við fólk, sem hefur blöskrað svo að það hefur haft sérstaklega samband, hjálpa ekki.
Til eru fræ
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurði að því í sérstakri yfirlýsingu hvort ekki væru allir jafnir fyrir fjölmiðlum. Því er til að svara að hægt er að láta á það reyna með því að leita til siðanefndar Blaðamannafélagsins eða reka mál fyrir dómstólum. Margt bendir hins vegar til að ekki séu allir jafnir gagnvart lögreglunni á Norðurlandi eystra. Í yfirlýsingunni minntist Bjarni sérstaklega á þrískiptingu ríkisvaldsins, en það kom síðan í ljós að það var ekki hægt að leita þangað þegar vafi lék á um lögmæti rannsóknaraðferða lögreglu. Hvorki Landsréttur né Hæstiréttur tóku efnislega afstöðu til málsins. Á endanum er auðveldara að fá störf blaðamanna rýnd en lögreglunnar.
Viðbrögð Bjarna afhjúpa þó stærsta vandann við aðgerðir lögreglunnar. Því til eru fræ sem þarfnast einskis nema upphrópanna til að úr verði illgresi sem aldrei verður upprætt. Út á þetta gerði starfsemi skæruliðadeildar Samherja, að sá fræjum efasemda um uppljóstrarann í Samherjamálinu, blaðamennina sem sannreyndu og birtu upplýsingarnar sem hann veitti og alla þá sem gagnrýndu framferði útgerðarinnar sem þar afhjúpaðist. Lögreglan á Norðurlandi eystra sáir sömu fræjum og býr í leið til nægt svigrúm fyrir aðstoðarmann dómsmálaráðherra, æðsta yfirmanns lögreglu og dómstóla, og fjármálaráðherra til að ýta undir og sá eigin efasemdarfræjum um heilindi blaðamanna.
Áður hafði Samherji farið fram á það við dómstóla að skorið yrði úr um lögmæti aðgerða yfirvalda vegna húsleitar í höfuðstöðvum fyrirtækisins, sem fram fór vegna gruns um lögbrot árið 2012. Bjarni notaði ekki tækifærið til að varpa fram þeirri spurningu opinberlega hvort stór sjávarútvegsfyrirtæki væru of góð til að sæta athugunum Seðlabankans á því hvort þau hafi brotið gjaldeyrislög. Þegar blaðamaður nýtti sömu lagaheimild til að láta reyna á lögmæti lögregluaðgerða vegna fréttaskrifa sá hann hins vegar og nýtti tækifærið til að sá fræjum. Kannski vegna þess að hann hefur sjálfur þurft að þola að vafasöm háttsemi hans sé afhjúpuð í fjölmiðlum, meðal annars í umfjöllun um Glitnisskjölin sem var stöðvuð með ólögmætu lögbanni og í gegnum Panamaskjölin svo dæmi séu tekin.
Það eina sem lögreglurannsóknin á mér og kollegum mínum hefur sýnt fram á með óyggjandi hætti er að samskiptin sem vitnað var til í umfjölluninni um skæruliðadeild Samherja áttu sér sannarlega stað. Starfsmenn og ráðgjafar Samherja lögðu á ráðin um að koma í veg fyrir að Jóhannes Stefánsson uppljóstrari beri vitni fyrir dómi í Namibíu, þau skipulögðu rógsherferð gegn blaðamönnum sem afhjúpuðu starfshætti fyrirtækisins, þau reyndu að hafa áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Ekkert af þessu virðist þó vekja athygli lögreglunnar, sem þó staðfestir skriflega fyrir dómi að hafa lúslesið samskiptin þar sem allt þetta kom fram.
Í gögnum lögreglu eru taldar upp allar fréttir sem lágu til grundvallar rannsóknar lögreglunnar á hendur mér. Það hefði kannski ekki átt að koma mér á óvart þegar ég sá að nánast allar fréttirnar um framferði skæruliðadeildarinnar sem ég skrifaði eru taldar upp, nema ein. Hvergi er minnst á fréttina um það hvernig skæruliðadeild Samherja lagði á ráðin um að kæra Jóhannes Stefánsson uppljóstrara fyrir þjófnað gagngert í þeirri von að fæla hann frá því að fara til Namibíu, og koma í veg fyrir að hann myndi bera vitni fyrir dómi þar. Mikið er í húfi, en í Namibíu dúsa nú tveir fyrrverandi ráðherrar, starfsmenn opinberra fyrirtækja og fleiri í gæsluvarðhaldi og sæta ákæru fyrir að hafa þegið mútur frá Samherja. Framhjá þessum fyrirætlunum horfir lögreglan.
Svo virðist vera að enginn glæpur sé jafn alvarlegur og sá að segja frá. Það á ekki leyfa blaðamönnum að komast upp með það.
Varðandi Samherja þá leikur nokkrum tenglum mínum erlendis sem vinna 24 tíma 365 daga ársins við að meðhöndla svipuð mál og spillingu hugur á að vita hvernig menn ætla tækla þá hliðina því múturnar voru framkvæmdar af Kýpverskum fyrirtækjum muni ég rétt og ef þeir aðilar og þau fyrirtæki eru ekki rannsökuð og ákærð þá gæti reynst erfitt að draga starfsmenn og yfirmenn móðurfyrirtækisins til ábyrgðar. Við höfum ekkert FCPA kerfi á Íslandi og Samherji mun labba burtu... you can take that to the bank.
Svo rétta aðferðin er að nota hagsmuni Samherja til að refsa þeim... og það er jafn auðvelt og að láta erlendar þjóðir reka ræðismennina sína. En svo forhertir eru spillingaraðilar á íslandi að þeir einfaldlega trúa því að þeir komist upp með allt... því þeir hafa alltaf gert það sem stuðningi og aðstoð yfirvalda.
Og sagan hans Bjarna Ben um ævintýri sín í erlendum bankakerfum og löndum er þeim sem þau skoðuðu ... verulegur brandari. Og já... það var jafnt auðvelt og að finna BO Dekhill, erlenda felusjóði osf. Þegar kerfi fær að hanna þá aðferðarfræði sem á að rannsaka hluti vegna meintra brota meðlima kerfisins eru ekki miklar líkur á því sú aðferðarfræði beri árangur.
Og nota bene... réttu viðbrögðin kæra Bryndís voru að svara emilinu eða hringja.. ekki fara í fýluferð til Swiss.
Kominn tími til fólk spyrji sig... líkt og ljóskan í brandaranum sem geðlæknar í USA sömdu til að kanna preconception....."Hvað er vandamálið ?"
Samherji ? Löggan ? Blaðamenn ? Stjórnmálamenn ? Eða yfirlýstir sjálfskipaðir bjargvættirnir í kerfinu sem víla og díla við þá sem spillingu styðja í þeirri von að fá eitthvað í skifturm ... sjálfir ? Og afsaka sig svo eftir á með orðinu "meðvirkni".
Persónulega ráðlegg ég fjórmenningunum að taka Drogo Cos í viðtal ... ekki láta bara eina yfirlýsingu nægja.
Það hefur hún alltaf gert. Var stofnuð í upphafi til
að vernda eignastéttina.
Nær væri að lögreglan rannsakaði ofsóknir "skæruliðadeildarinnar" á hendur blaðamönnunum.
Á hvaða vegferð er lögreglan, dómsstólar og sjálfstæðisflokkurinn varðandi blaðamenn ?